fimmtudagur, september 27, 2007

Brjáluð vika

Svakalega er ég orðinn þreyttur.

Ég er búinn að vera í Manchester síðan á Mánudaginn og kemst ekki heim fyrr en á morgun. Planið var að fara heim í dag en þetta er búin að vera brjáluð vika, byrjað snemma á morgnanna og hætt seint á kvöldin.

Ég ætlaði að setja upp nýja útgáfu af hugbúnaðinum sem við erum að vinna að þannig að ég var viðbúinn því að vinna mikið en svo hrundi gangnagrunnurinn af á öðrum server og ég varð að koma honum aftur í gang svo hinir strákarnir gætu haldið áfram að vinna. Þetta leit illa út til að byrja með en ég er búinn að koma honum í gang og er næstum búinn að uppfæra nýja hugbúnaðinn.

laugardagur, september 22, 2007

Helgarfrí

Það hefur ekki verið mikið um skriftir hér þessa vikuna. Ég hef verið í Manchester næstum allan tímann og hef verið dálítið stressaður, ef það getur kallast stress þegar ég á í hlut. Það er búið að vera mikið að gera og ekki nógur tími til þess. Og svo er þessi hugbúnaður sem við erum að eiga við ekki nógu samvinnuþíður.

Þegar ég var að taka til í morgun fór ég að róta í kassa með gömlum kasettuspólum frá því í gamla daga. Ég fór að spila þær og það rótaði upp minningum frá því þegar ég var í Reykjavíkinni og bjó hjá ömmu á Hringbrautinni. Ég átti líka margar stundir með Steinari Þorsteinns í litlu kjallaraíbúðinni hanns á Grenimelnum þar sem við spiluðum tónlist á meðan við leystum vandamál heimsins. Það voru skemmtilegir tímar.

En aftur í nútímann. Við Alison tókum okkur til áðan og byrjuðum að rífa niður veggfóðrið og viðardrasl af veggjunum í holinu og stiganum. Við þurfum að láta endursmíða stiga handriðið, skimma yfir veggina og mála þá og leggja nýtt gólf. Þetta á eftir að taka svolítinn tíma, ég er aldrei heima og við erum ekki búin að panta neina verkmenn. En allavega erum við byrjuð á verkinu.

Í kvöld ætlum við svo á "dog racing" með Guðrúnu og Magnúsi (hann á afmæli í dag: Til hamingju með dagin!) og Bob og Yvonne (sem eru nágrannar okkar). Það verður farið út að borða og veðjað aðeins á hundana.

föstudagur, september 14, 2007

Velkomin á Toppinn

Þá er hún Ragnheiður systir mín búin að ná þeim merka áfanga að vera orðin fertug.

Hún gerir mikið af því að klífa fjöll og nú er hún búin að klífa fjall lífsreynslunnar og kominn á toppinn. Sem betur fer er þetta fjall eins og fjöllin fyrir vestan, flöt að ofan, þannig að það er hægt að ganga langa lengi áður en maður þarf að fara niður aftur. Þetta fjall er eins og önnur fjöll, það er hægt að lenda í ógöngum og sjálfheldum og það eru skriður sem geta verið erfiðar yfirferðar. En svo eru líka berjalautir sem er gaman að staldra í og það eru margir staðir á leiðinni þar sem gaman er að stoppa og virða fyrir sér útsýnið en það jafnast ekkert á við það að vera komin upp á toppinn.

Til hamingju með daginn systir góð!

fimmtudagur, september 13, 2007

Dánarfregnir og Jarðarfarir

Við Alison fórum í jarðarför í gær. Tim, faðir Clarire (sem er gömul vinkona Alison) dó fremur óvænt á mánudaginn í síðustu viku. Ég veit ekki ef einhverjir muni eftir Clarie. Hún kom og heimsótti okkur Alison þegar við vorum í Breiðadal.

Tim var ekki trúaður maður en presturinn sem jarðsetti hann þekkti hann vel og hún hafði oft haft samræður við hann um trúarbrögð og pólitík. Athöfnin var því oft skondin þegar hún rifjaði um samræður þeirra þó hún hafi verið dapurleg líka.

Þetta er ekki eina dauðsfallið því fyrrverandi vinnufélagi Alison dó á sama degi og Tim og hún verður jarðsett á morgun.

mánudagur, september 10, 2007

Unglingar á MSN

Krakkarnir byrjuðu í skólanum í síðustu viku og hlutirnir eru að komast í fastbundið form hjá þeim, skóli, skátar, dans, leiklist, o.s.f.v.

Hávar er greinilega árinu eldri og hverfur oft með vinum sínum á kvöldin til að leika sér (eins og maður gerði í gamladaga í Vesturberginu). Svo er hann oft á MSN að spjalla við vini sína og það eru margar spjallrásir í gangi í einu. Margir af þessum MSN vinum hanns eru stelpur sem hann er farinn að hafa mikinn áhuga á, sérstaklega vegna þess að sumir vina hanns eru komnir með "kærustur".

Allt þetta spjall fer fram á sérstöku tungumáli sem er ekki auðvelt fyrir gamla karla eins og mig að skilja:

hey
sup
j/cu
same
wut r u doing 2nite
n2m
cool

Hvað þýðir þetta rugl? Ég varð að tékka á þessu og þýðingin er einhvernvegin svona:
Hey
What's up?
Just Chillin'. You?
Same
What are you doing tonight?
Nothing too much
Cool

Svona gengur þetta fram og til baka.

Gvöð hvað maður er orðinn gamall!