mánudagur, mars 31, 2008

Páskafrí

Við komum heim úr páskafríinu okkar á laugardaginn. Pabbi Alison, systir hennar og fjölskylda voru þarna líka. Við fórum í gönguferðir meðfram ströndinni og sulluðum í fjörupollum með krökkunum. Veðrið hélst ágætt og þó að veðurstofan væri alltaf að spá einhverjum rigningum og stormum þá varð aldrei neitt úr neinu.

Lindsey hélt uppá afmælið sitt á páskasunnudaginn, orðin 9 ára gömul.

Áður en við fórum í fríið keypti hún sér línuskauta fyrir pening sem hún hafði safnað sér, og hún hafði tíma til að æfa sig einu sinni áður en við fórum. Þegar við komum til baka fór hún aftur á skautana og hún er bara orðin nokkuð góð, getur allveg skautað ein. Í dag fór hún svo á skautunum í kringum vatnið (~1.5 km) okkar.

Hún fékk nýtt hjól frá okkur því það gamla var orðið of lítið. Það nýja er kanski aðeins í stærri kantinum en hún getur svona nokkurnveginn valdið því. Hún á eftir að stækka.

Krakkarnir eru í páskafríi þangað til á fimmtudaginn.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Hvað gerðum við á helginni?

Á síðustu helgi fór Hávar í leiðangur með skátunum til dalana í Yorkshire þar sem þeir fóru í ratgöngu (sem reyndar varð að enda snemma vegna þoku) og rannsökuðu fallega hella með dropasteinum og svoleiðis. Það var farið af stað á föstudagskvöld og komið heim á sunnudagskvöldi. Hann var náttúrlega haugþreyttur þegar hann kom heim en hafði skemmt sér vel. Og þrátt fyrir að hann hafi verið með slæmt hné (vaxtaverkir, því hann er alltaf að stækka) þá gekk hann með hinum strákunum.

Auðvitað varð að gera eitthvað fyrir Lindsey líka. Hún fór og gisti hjá vinkonu sinni á laugardaginn og á sunnudaginn fórum við með hana í Ten Pin Bowling og í bíó til að sjá Penelope.

Og á meðan við Alison vorum barnslaus á laugardaginn tókum við okkur til og fórum út að borða á Mexíkanskan stað og svo í bíó til að sjá The Other Boleyn Girl. Alison er búin að lesa bókina og vildi fá að sjá myndina sem var fín, þó ekki eins góð og bókin að mér skilst.

Helgin í stuttu máli var semsagt: Hávar streðaði með skátunum og við hin fórum í bíó og skemmtum okkur.

sunnudagur, mars 09, 2008

14 ára sláni

Í gær átti sláninn okkar afmæli og er þá orðinn 14 ára.

Einn vinur hans kom í heimsókn í gær og gisti nóttina. Um kvöldið pöntuðum við Indverskan "take-away" mat og slöppuðum af.

Núna eru hann og átta vinir farnir uppí bæ til að "hang out" og svo á að fara í bíó og sjá Vantage Point. Við Alison ætlum líka í bíó með Lindsey og vinkonu hennar og sjá The Game Plan.

Þá er búið að ganga frá gólfinu. Flísarnar komnar niður í holinu og teppi á stigann, ganginn uppi og svefnherbergið.

Þá er bara eftir að finna gluggatjöld fyrir gluggann í holinu og á leiðinni upp stigann.

Við erum búin að fá gluggatjöld fyrir svefnherbergið sem eru svaka flott.

Mér finnst þetta allt bara fínt en Alison er ekki alveg búin að jafna sig á teppinu, sérstaklega í svefnherberginu. Henni finnst það aðeins of dökkt og of brúnt. En hún er ánægð með holið.