Vel heppnuð helgarferð
Langtímaspáin var aldrei neitt sérstök dagana áður en við lögðum af stað til Prag. Það var alltaf spáð rigningu, eða þoku en þegar við komum þangað á laugardaginn var þar þetta fallega haustveður, stilla og sólskin.
Við tékkuðum okkur inná hótelið sem var fyrir utan miðbæinn þar sem var rólegt. Þegar ég pantaði hótelherbergið þá tók ég tilboði um að breyta í "suite" sem var einskonar smá-íbúð með holi, svefnherbergi, stofu og baðherbergi. Mjög þægilegt. Það var Metró stöð hinumegin við götuna svo tókum við Metróinn beint niður í bæ til að skoða okkur um.
Við gengum heilmikið um og skoðuðum, svo mikið að okkur verkjaði í fæturna daginn eftir. Það var klifrað upp turna (það er hellingur af þeim þarna) til að skoða útsýnið og gengið eftir fallegum götum. Okkur fannst þetta allt voða gaman.
Maturinn þarna var góður. Við borðuðum alltaf niðrí bæ á kvöldin því það var svo skemmtilegt andrúmsloft, mikið af fólki að skoða sig um.
Veðrið á sunnudeginum var jafnvel betra en á laugardeginum og það var gaman að ganga um í Petrin garðinum sem er á hæð vestan við Moldána. Haustlitirnir voru frábærir og útsýnið yfir borgina líka.
Það var smá úði á mánudagsmorguninn en það hélst ekki lengi. Við skoðuðum gyðingahverfið og það var dálítið dapurlegt að ganga um í gamla kirkjugarðinum sem var ekkert voðalega stór en þar voru 12,000 legsteinar og um 100,000 manns jarðaðir.
Þetta var vel heppnuð helgarferð og við Alison erum mjög ánægð þrátt fyrir að vera ansi þreytt.
Svo þegar við komum heim til Englands var drullukalt og snjór á bílnum. Og á leiðinni heim var stórhríð (í hálftíma).
Við tókum slatta af myndum sem ég verð að flokka og hlaða upp á Picasa fyrir ykkur en ég hef ekki haft tíma til þess enþá. Kanski á helginni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Skildu eftir skilaboð handa mér...