föstudagur, mars 27, 2009

Mikið að gera

Það var mikið að gera hjá okkur á síðustu helgi:

Á laugardaginn fórum við Alison á góðgerðarball sem fyrirtækið sem hún vinnur hjá stóð fyrir. Það var verið að safna fyrir "Warwickshire & Northamptonshire Air Ambulance" og þeir buðu þangað viðskiptavinum og fólki úr fyrirtækjum sem þeir vinna með. Alison var þarna að "vinn" þar sem hún átti að sjá um að fólkið á borðinu okkar. En þett var svo sem eingin vinna, bara gaman.

Á sunnudaginn fórum við öll til Birmingham og skoðuðum "Back-to-Backs" húsin sem eru varðveitt frá því um 1800 þegar iðnaðarbyltingin var í fullum gangi og það varð að byggja mikið af ódýrum húsum fyrir allan mannskapinn sem flykktist til borgarinnar. Svo var farið á sýningu með Cirque du Soleil sem var voðalega gaman. Þessi dagur var hluti af afmælisgjöf til krakkana.

Lindsey átti svo afmæli á mánudaginn en það verðu ekki fyrr en á sunnudaginn kemur að hún býður vinkonum sínum í partý. Við ætlum að taka þær til "SnowDome" og láta þær leika sér í innanhús snjóbrekkunni þar. Ætti að vera gaman fyrir þær.

laugardagur, mars 21, 2009

Er vorið komið?

Síðustu daga/vikur hefur verið voðalega fallegt veður og trén eru komin í fullann blóma. Ég meira að segja sló blettinn í gær.

fimmtudagur, mars 19, 2009

Á Fésbókinni

Það eru bara fáeinar vikur síðan ég kom Alison fyrir á Fésbókinni og núna er hún þar flesta daga. Eins gott að ég á auka tölvu fyrir hana annars fengi ég ekki að sjá mína.

Þessi auka talva er gamla vinnutölvan mín. Krakkarnir hafa verið að nota hana en einhvernveginn tókst þeim að fá einhvern vírus á hana þannig að allt hætti að virka. Mig hefur lengi langað til að hafa tölvu með Linux kerfi í staðin fyrir Windows þannig að þetta var gullið tækifæri til að prufa. Ég er búinn að hlaða Ubuntu Linux og líkar vel og það á að vera ómögulegt að fá vírusa á Linux.

sunnudagur, mars 15, 2009

Fallegar Malvern hæðir


Við ákváðum að nota góða veðrið í dag og fórum út að ganga um Malvern hæðirnar.

laugardagur, mars 14, 2009

Glasgow ferð

Ég skrapp til Glasgow á fimmtudaginn og kom aftur heim í gær. Tíminn líður svo hratt að það tók mig smá tíma til að fatta að það var í 2007 þegar ég var þar síðast og hitti mömmu þar. Það er eins og það var bara síðasta sumar. Þetta var bara stutt ferð og enginn tími til að skoða sig um, bara vinna. Þegar ég var lentur í Birmingham fór ég og hitti Alison í Solihull þar sem við skruppum á Tapas bar til að borða á meðan Hávar var í bíói með vinum. Lindsey var á "sleep-over" hjá vinkonu sinni.

Það eru einhverjar þrengingar hjá fyrirtækinu sem ég vinn hjá þessa dagana. Ég var að frétta að það er búið að gera einhverjum hóp af fólki viðvörun um að það muni missa vinnuna. Þetta kom svolítið á óvænt því það hefur verið mikið að gera hjá mér og þeim sem ég vinn með en það þarf náttúrulega ekki að vera sama saga allstaðar annarstaðar. Einn af þeim sem er að fara er franskur vinnufélagi og vinur sem ég hef unnið með nokkrum sinnum síðastliðin ár. Þetta eru harðir tímar.

Hávar hélt uppá 15 ára afmælið sitt á síðustu helgi. Einn daginn hafði hann nokkra vini í heimsókn til að spila tölvuleiki, borða pizzur og horfa á bíómyndir. Við Alison og Lindsey skruppum í staðin í heimsókn til vina svo stákarnir höfðu húsið fyrir sjálfa sig. Og annan daginn fór hann með öðrum vinum í bíó og Pizza Hut. Gaman hjá honum.

Það kemur svo að Lindsey á næstu helgi þegar hún á afmæli.


mánudagur, mars 02, 2009

Internet Cafe


Ég hjálpaði Alison að koma sér fyrir á Fésbókinni um daginn því hún á vini sem ég er viss um að hún hefði gaman að hafa samband við á þennan hátt.

Hún var frekar treg til að byrja með en eins og þið sjáið á myndinni eru dömurnar mínar komnar með yfirráð yfir tölvunum og húsið okkar er eins og hvert annað Internet Cafe.