þriðjudagur, janúar 30, 2007

Skíðabrekka

Ég gisti á nokkuð fínu hóteli í gær sem heitir Coppid Beach og lítur út eins og Svissneskur skíðaskáli. Ég keyri framhjá þessu hóteli í hvert skyfti sem ég kem til Bracknell en hafði aldrei gist þar. Ég vissi þó ekki er að það er skíðabrekka á bakvið hótelið með skíðalyftu og öllum græjum. Það er reyndar ekki alvöru snjór í brekkunni heldur einhvernskonar gerfiefni. Einhverjir kappar voru þarna að renna sér á snjóbrettum og stökkva af pöllum en það getur ekki verið eins skemmtilegt og í alvöru snjó.

Ég er búinn að lesa einu bókina sem ég fékk í jólagjöf. Þetta var nýasta bókin eftir Bill Bryson, "The Life and Times of the Thunderbolt Kid" og ég hafði mjög gaman að lesa hana. Ég er búinn að lesa nokkrar bækur eftir hann og þær eru allar góðar. Mér fannst sérstaklega gaman að lesa "A Short History of Nearly Everything" sem er örðruvísi en allar hinar bækurnar hanns. Vísindi í einföldu og áhugaverðu formi.

mánudagur, janúar 29, 2007

Afmælisbarn dagsins...

... er mamma! Til hamingju með afmælið. Vona að þú hafir gert þér eitthvað til gamans í dag.

Það var klárað að innrétta eldhúsið okkar á laugardaginn en við þurfum að bíða aðeins lengur eftir flísunum á veggina en það verður vonandi seinnipart vikunnar. Gólfið verður svo lagt í byrjun febrúar. Þetta lítur allt vel út en það eru einhver vandræði með þvottavélina. Alison skelltí í vélina í gær og hún fór í brjálæðiskast og hristist og skalf, þ.e.a.s. þvotavélin, ekki Alison. Það þarf trúlega að stilla fæturna aðeins betur. Svo getur verið að það þurfi að skyfta um eina skápahurð því hún er dálítið öðruvísi á litinn en hinar hurðirnar. Að öðru leiti er það flott og við ánægð með allt.

Ég er með lagið "Segðu mér" á heilanum, búinn að vera humma það í allan dag. Það verður að komast á toppinn og til Helsinki.

Ég er í Bracknell og verð hér í nokkra daga, sem er ágæt tilbreyting frá Manchester.

laugardagur, janúar 27, 2007

Frábært

Frábært hjá ykkur, Trausti og Ragnheiður. Alveg frábært lag og geysilegur kraftur í röddinni hans Jónsa. Nú verðum við bara að bíða eftir lokakeppninni þann 17. febrúar.

Segðu mér...

Þá er komið að seinna laginu hans Trausta í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2007, "Segðu mér", og textinn er eftir hana Ragnheiði. Annað stórgott lag sem við vonum öll að gangi vel.

Aðvitað hlustum við og horfum á herlegheitinn á netinu.

Hér er enþá verið að vinna í eldhúsinu, jafnvel þó að það sé komin helgi. Það er komin mynd á hlutina, allar vélar komnar á sinn stað og verið að leggja síðustu hönd á verkið. Þeir eru að vonsast til að klára í dag en við sjáum bara til.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Engar breytingar í eldhúsinu

Það er búið að vera rólegt í eldhúsinu í dag. Karlarnir sem byrjuðu að vinna í því í gær eru faðir og sonur. Sonurinn á litla dóttur sem er með hvítblæði og hann varð að fara með hana á spítalann í dag og faðir hans var með einhverja magakveisu. Ég sletti málningu á loftið í gærkvöldi því það er mikið auðveldara að gera það meðan allt er í drasli (maður þarf ekkert að passa sig að það slettist ekkert).

Í gær fórum við Alison út að borða í hádeginu, Hávar borðaði í skólanum og Lindsey fór í heimsókn til vinkonu sinnar og borðaði þar. Í kvöld förum við til vina í mat. Svona verður þetta að vera þegar engin er aðstaðan.

mánudagur, janúar 22, 2007

Eldhúsið í rúst

Þá er eldhúsið komið í rúst. Það eru tveir karlar búnir að vera hjá okkur í dag við að rífa gömlu innréttinguna og henda henni út og svo er hérna líka rafvirki sem hefur verið að brjóta up veggi til að leggja nýjar lagnir og skyfta um öryggistöflu. Þetta er allt voða spennandi og það verður gaman að sjá þetta þegar það verður tilbúið.

Við fengu líka annan karl í heimsókn til að mæla fyrir nýrri PVC útidyrahurð. Sú gamla er úr tré og ramminn er farinn að fúna, og svo er hún óþétt og lokast ekki nógu vel. Það verður trúlega einhverntíma í Febrúar sem við fáum hana.

laugardagur, janúar 20, 2007

Blómabörn

Vona að allt gangi vel hjá Trausta bróður í kvöld í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2007 með lagið sitt "Blómabörn", og næsta laugardag með lagið "Segðu mér".

Go go Trausti!!

Meiri bílaraunir

Bíllinn hennar Alison er kominn heim af verkstæðinu. Sem betur fer var þetta ekki of alvarlegt en hefði getað orðið það ef hann hefði ofhitnað meira. Það var leki við vatnslásinn sem er búið að gera við.

En þar er ekki lokið bílaraunum. Alison fékk bílinn minn lánaðann í gær (ég var að vinna heima) og á leiðinni heim, eftir að hafa sótt krakkana í skólann, sprakk á honum og það á dálítið hættulegum stað. Hún hafði gleymt farsímanum sínum heima og varð að stoppa mann á bíl til að fá síma lánaðann. Ég var að nota símann heima þannig að hún hringdu í vinkonu sína og bað hana að ná í mig. Þegar vinkonan bankaði uppá hjá mér náði Alison loks að hringja í mig og þá var maðurinn sem hún stoppaði búinn að hjálpa henni við að skyfta um dekk.

Á mánudaginn verður byrjað að rífa gömlu eldhúsinnréttinguna þannig að þessa helgina verðum við í því að búa um okkur í borðstofunni með ískáp og helstu nauðsynjar í kössum. Við getum ekkert notað eldhúsið alla næstu viku en það ætti að vera svo til tilbúið næstu helgi, bara flísaleggja og mála vikuna á eftir. Vonandi á það eftir að verða flott.

föstudagur, janúar 19, 2007

Rok og bilaður bíll

Hér var mikið rok í gær og það voru víst 10 manns sem létust út af veðrinu. Ég var í Manchester og lagði af stað heim rétt eftir klukkan þrjú og það tók mig 3 klukkutíma að komast fyrstu 25 kílómetrana. En svo fór umferðin að lagast og ég var komin heim korter yfir átta, rúmum 5 tímum eftir að ég lagði af stað. Það voru 25 lokanir á hraðbrautunum vegna veðurs, aðalega þar sem voru háar brýr, og hellingur að minni vegum þar sem tré höfðu fallið á veginn.

Alison lenti í því að bíllinn hennar bilaði (sýndi viðvörunarljós) á leiðinni heim úr vinnunni í gær og hún varð að kalla út aðstoð frá AA en þeir gátu ekki fundið neitt að bílnum. Þeir fylgdu henni þó heim til vonar og vara. Þegar hún skutlaðist seinna með Hávar í leiklistarklúbbinn þá fór vélin að hitna allt of mikið og þegar að var gáð var allt kælivatn farið. Bíllinn fór á verkstæði í morgun og við bíðum eftir fréttum of honum.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Ælupest

Lindsey litla var veik fyrrinótt og varð að fara á fætur og æla á klukkutíma fresti alla nóttina. Ég var í Manchester þannig að Alison varð að standa í þessu ein. Sem betur fer fór ælan ekki útum allt, eins og stundum gerist, heldur beint í klósettið. Auðvitað gat sú stutta ekki farið í skólann í gær en hún braggaðist þegar á daginn leið og í morgun fór hún í skólann.

Við vitum ekki hvað olli þessu hjá henni því allir aðrir eru hraustir.

mánudagur, janúar 15, 2007

Skegghýjungur

Hávar hefur verið að suða í mér í nokkrar vikur um að fá að raka sig. Hann er með smá hýjung á efri vörinni sem er orðinn svolítið áberandi. Alison var búin að kaupa handa honum rakblöð, sápu og spíra og hann hefur verið að iða í skinninu til að nota græjurnar frá því fyrir jól. Í gærkvöldi tókum við okkur til og hann rakaði sig í fyrsta skyftið, tólf ára drengurinn.

Þetta gekk allt fínt og nú lítur hann út eins og smástrákur, með hárlausa efri vör, en stóránægður með sjálfan sig.

Á laugardaginn áttum við í smá vandræðum við að komast í partíið hjá fyrirtækinu hennar Alison vegna rafmagnsleysis en það bjargaðist allt á endanum. Við fórum með krakkana til systur hennar þar sem þau gistu yfir nóttina. Kvöldið var stórgott og við skemmtum okkur vel.

Rafmagnið var komið í samband seinna um kvöldið.

laugardagur, janúar 13, 2007

Rafmangsleysi

Við Alison ætlum að fara út í kvöld á Casino Night hjá fyrirtækinu hennar en það lítur ekki vel út. Hér er allt rafmagnslaust og við bara með kerti út um allt. Það kom víst eldur upp í rafmagnsdreifistöð sem sló öllu út. Við sáum reykjarmökkinn þegar við komum heim en núna er komið rökkur og ekkert sést. Barnapían er á standby en við viljum ekki fara frá þeim með ekkert rafmagn. Kanski getum við komið krökkunum eitthvert annað í staðinn.

Ég get þó farið á netið því talvan er á battaríum.

Hér er búið að vera voðalega milt síðustu daga og mikill vindur, jafnvel rok (og rigning öðru hverju). Það er ágætt að það er svona milt því ekki virkar gas kyndinging ef ekkert er rafmagnið, jafnvel þó hún sé ný.

mánudagur, janúar 08, 2007

Kyndingin komin í stand

Þá er svo til búið að skyfta um kyndinguna hjá okkur, bara eftir að skyfta um sturtu sem á að gera á morgun. Gamla sturtan okkar var með pumpu til að auka þrýstingin á heita vatninu en nýja kerfið þarf ekki á því að halda því krafturinn er sá sami á heita og kalda vatninu. Núna er svona líka yndælt og hlítt í kotinu okkar.

Ekki svo að ég fái að njóta þess, ég er kominn aftur til Manchester.

Hávar byrjaði í skólanum í dag en Lindsey byrjar á morgun.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Gleðilegt Nýtt Ár !!

Jóla og nýárskveðjur til ykkar allra!

Ferðin okkar til Íslands heppnaðist vel í alla staði nema það vantaði kanski snjóinn en það voru nokkrir dagar með frostföl í staðinn. Það var gaman að sjá alla aftur, sérstaklega krakkana sem sum okkar höfðum ekki séð, og það var líka gaman hvað krakkarnir komu sér vel saman þó þau hittast sjaldan. Við vorum í góðu yfirlæti hjá pabba og mömmu og höfðum full afnot af jeppanum þeirra (kærar þakkir). Það var líka gott að borða íslenskan jólamat aftur: hamborgarahrygg, hangikjöt og lamb. Nammi namm! Lindsey var matvönd eins og venjulega en Hávar hámaði allt í sig, ánægður með að fá stórar sneiðar af kjöti.

Við vorum alveg gapandi hissa yfir öllum látunum á gamlárskvöld í Reykjavík. Ég hef ekki verið í Reykjavík yfir áramót síðan ég var lítill strákur. Þá var mikið um að vera en núna er þetta alveg ótrúlegt. Eitthvað sem allir verða að sjá. Íslendingar verða dálítið brjálaðir í kollinum um áramótin og vilja sprengja allt í loft up.

Það var náttúrulega dálítið af fólki sem við komumst ekki yfir að sjá en við sendum okkar bestu jóla og nýárskveðjur til ykkar allra.

Ferðin til baka gekk frekar seint. Við urðum að mæta eldsnemma í gær til að ná í vélina sem átti að fara í loftið korter yfir sjö. Vegna hagstæðra vinda átti flugið aðeins að taka 2 tíma og 16 mínútur sem allir voru kátir yfir en þegar við áttum að fara af stað þá festist sláin á milli flugvélarinar og dráttarbílsinns og það tók langan tíma til að laga það. Þegar það var búið þá þurftum við að bíða eftir flugvirkjarnir skoðuðu skemdirnar og þá höfðum við beðið það lengi að það varð að bæta meira eldsneyti á vélina. Svo þegar það var búið var dráttarbíllinn farinn eithvert annað og við urðum að bíða eftir honum. Við fórum loksins í loftið rétt fyrir klukkan 9 og lentum hálf tólf.

Núna er allt í rulsi hjá okkur. Það er verið að skyfta um kyndingu sem á eftir að taka nokkra daga og það verður kalt hjá okkur á meðan. Sem betur fer er milt veður eins og er.

Krakkarnir byrja ekki í skólanum fyrr en eftir helgi sem þau eru ánægð með en ég byrjaði í dag. Ekkert svosem mikið að gera; er bara að dunda mér heimavið, en á morgun og föstudaginn verð ég að vinna í London.