sunnudagur, desember 23, 2007

Jólaörtröð

Þá eru Jólin alveg að koma.

Við Alison fórum út að versla aðeins í jólamatinn í morgun og hvílík örtröð. Það var svona líka svaka löng biðröð af bílum fyrir utan Tesco, því bílastæðin voru öll full. Við snérum við og fórum til Morrisons í staðin. Það var svosem ekkert betra þar en biðröðin inn á bílastæðin var ekki eins löng.

Inni í búðinni voru allir að berjast um að fá grænmeti og annað ferskt og inkaupakerrurnar voru að rekast saman út um allt. Alison var stressuð til að byrja með en mér fanst þetta allt voða fyndið og á endanum vorum við farin að hlæja að öllu saman. Gaman að fylgjast með fólkinu.

Í gærkvöldi fórum við til vina í mat, pöntuðum kínverskt "take-away" og höfðum það gott.

Í dag ætlum við líka að taka því rólega. Ég var að raka upp laufum í garðinum og fyllti fjóra stóra svarta ruslapoka sem ég verð að fara með uppí "Sorpu" . Svo erum við að spá í að fara í bíó. Annars fóru Alison og krakkarnir í bíó í gær. Alison, Lindsey og vinkona hennar fóru á Enchanted sem þeim fannst voða gaman af en Hávar fór með vini sínum á The Golden Compass.

Blogged with Flock

mánudagur, desember 17, 2007

Beyglaður bíll

Ég lenti í smá óhappi með bílinn minn á helginni.

Ég skrapp með Lindsey inn í bæ til að versla aðeins fyrir jólin og lagði bílum í bílastæði. Ég bakkaði inn í stæði, eins og ég geri venjulega, en svo fattaði ég að stæðið var bara fyrir fatlaða þannig að ég fór áfram í stæði fyrir framan mig.

Þegar við vorum búin að versla og vorum að fara heim athugaði ég ekki að það var stálbiti (þakstoð) við hliðina á bílnum. Ég byrjaði að beygja of snemma og skellti bílnum í bitann og beyglaði farþegahurðina og braut spegilinn af.

Árans óheppni, en það er ekkert við það að gera. Maður borgar víst tryggingafélögunum fyrir að sjá um svona lagað og engin þörf á að hafa áhyggjur yfir neinu.

Við lentum við í smá vandræðum með jólakalkúninn á helginni. Hann var í gamla frystinum í bílskúrnum og þegar ég skrapp þangað með eitthvað annað sá ég að allt var þar hálffrosið.

Frystirinn hafði gefið sig. Það var eins gott að þetta uppgötvaðist ekki á jóladag.

Það var ekkert annað að gera en skutlast út í búð og kaupa annan og til að láta ekkert fara til spillis elduðum við þann sem var farinn að þiðna og borðuðum í gær. Ron tengdapabbi og Lynn vinkona Alison komu í mat því það var nóg af kjötinu.

Jólatréð var skreytt fyrir viku og jólastemmingin er aðeins farin að láta sjá sig þó að anddyrið sé óklárt.

Blogged with Flock

þriðjudagur, desember 11, 2007

Hörður og Árný

Við fengum frekar óvænta heimsókn á helginni.  Hörður bróðir hafði samband við mig um miðja síðustu viku.  Hann og Árný voru á leið til London í helgarreisu og ætluðu að kíkja á okkur.

Við vorum í algeru drasli.  Nýbúið að múra veggina en ekki búið að ganga frá neinu en það varð bara að hafa það.

Þau komu svo til okkar á laugardaginn en því miður var veðrið frekar leiðinlegt (blautt) þannig að það var ekkert hægt að fara með þau út að keyra eða að ganga.  Og við vorum frekar upptekin við að skutla Hávari hingað og þangað en við fórum með þau inn í bæ að versla og svo fórum við út að borða um kvöldið. 

Þau fóru svo aftur til London á sunnudagsmorgun. 

Takk fyrir komuna!

Þetta sem Hávar var að þeysast í var fyrst ferð með vinum í The Snowdome í Tamworth og svo í partý með leikhúshópnum.

Blogged with Flock

þriðjudagur, desember 04, 2007

Crowded House

Við Alison fórum á Crowded House tónleika með nágrönnum okkar, Bob og Yvonne á mánudagskvöldið. Þetta voru alveg stórgóðir tónleikar og við skemmtum okkur vel. Yvonne er frá Nýja Sjálandi eins og hljómsveitin.

Þeir byrjuðu á að spila lög af nýju plötunni sinni en það sem allir voru að bíða eftir voru þessi gömlu góðu sem komu á endanum og þeir voru klappaðir upp aftur og aftur.

Frábær skemmtun.

Blogged with Flock