föstudagur, desember 22, 2006

Slæmt ferðaveður

Þá er bráðum komið að því að við leggjum af stað. Við förum til Stanstead eldsnemma á morgun og lendum eftir hádegið, það er að segja, ef það verður flogið. Hér er búin að vera mikil og þykk þoka síðustu daga sem hefur stoppað mikið af flugvélum, aðalega í Heathrow. Þar eru tugþúsundir standaðir. Stanstead hefur ekki haft eins mikla þoku þannig að við erum að vona að það stoppi okkur ekki. En það er svo von á öðru óveðri á Íslandi í nótt, ofan á allt sem er búið að ganga á, þannig að það er allt óvíst.

Við vonum samt hið besta.

Hjá okkur er hellingur að gera við að klára að pakka og svoleiðis. Við Alison ætlum að kíkja í partý hjá vinum okkar í kvöld í smá tíma áður en við lúllum okkur.

Hér eru allri spenntir...

Sjáumst fljótlega.

laugardagur, desember 16, 2006

Það styttist í íslandsför

Ég er búinn að vera í Manchester megnið af vikunni. Á miðvikudaginn fór ég með hóp af vinnufélögum út að borða. Ég fór aftur í vinnuna á eftir en sumir héldu áfram á barnum fram undir nótt og þar var veskinu stolið af einni stelpunni sem ég er að vinna með. Hún stoppaði öll kortin sín eins fljótt og hún gat en þeir sem tóku það voru sneggri en það og tókst að versla fyrir £12,000 á stuttum tíma. Alveg ótrúlegt. Það er meira að segja búið að skyfta um kortakerfi hér og allir eiga að slá inn pin númer í staðin fyrir að skrifa undir, en einhvernveginn hefur þeim tekist að skrifa undir í staðinn. Það er stundum hægt ef fólk getur ekki munað pin númerið sitt.

Við fengum nokkra vini í mat í gær og í kvöld er planið að við förum í mat til annara vina okkar. Á sunnudaginn kemur Chris, systir Alison, og fjöldkylda hennar ásamt Ron og bróður Dot og maðurinn hennar í mat til okkar. Það er semsagt mikið að gera hjá okkur um helgina við að fara og bjóða í mat.

Í næstu viku verð ég aftur í Manchester þannig að það liggur allt á Alison að pakka og gera allt klárt fyrir jólaferðina til Íslands. Krakkarnir komast ekki í jólafrí fyrr en á föstudaginn 22. desember, sem þau eru dálítið spæld yfir en þau byrja ekki aftur fyrr en mánudaginn 8 janúar.

Það styttist í við komum til Íslands. Bara 7 dagar...

mánudagur, desember 11, 2006

Jólamarkaður í Bath

Við fórum til Bath í gær (sunnudag) til að líta á jólamarkaðinn þar. Þetta er árlegur viðburður hjá Johnsons Coaches, þar sem Alison vinnur. Starfsfólkið getur farið í ódýra rútuferð eitthvert í Englandi þar sem er jólamarkaður. Ferðin var skemmtileg þó að það var dálítil rigning. Markaðurinn var ekkert voðalega stór, aðeins um 200 stallar en við fórum í Rómversku baðhúsin (safn) þarna til að skoða. Lindsey er að læra um Rómverjana í skólanum og fannst gaman að skoða.

Á laugardaginn ávkváðum við hvaða eldhúsinnréttingu við ætlum að fá okkur þannig að allt er að fara í gang þar. Það lítur út fyrir að vinna við það verði hafinn í endaðann Janúar á næsta ári. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta er dýrt. Það væri ódýrara að kaupa sér lúxusbíl.

þriðjudagur, desember 05, 2006

Jólatré

Þá er jólatréð komið upp. Það fór upp á sunnudaginn og hefur aldrei verið jafn snemma á ferðinni og í ár. Við verðum að njóta jólaskreytinganna í okkar eigin húsi í smá tíma áður en við förum til Íslands því þegar við komum til baka verðum við að taka allt dótið niður aftur.

Við erum líka búin að pakka öllum gjöfunum krakkana og velja nokkar (ekki of stórar) til að taka með okkur. Hún Alison mín er búin að vera voðalega dugleg við að versla og undibúa allt sem er eins gott því maðurinn hennar er með fóbíu fyrir búðarápi.

Ég er að dunda mér í vinnunni, hér í Manchester. Það er nóg að gera hjá mér þó að það sé ekkert alltof áhugavert eins og er. Er að kanna hvernig kanna hvernig tvö Cramer kerfi sem þeir hafa hér, virka svo ég get komið með áætlun um hvað það eigi eftir að kosta að uppfæra og sameina þau. Ég er búinn að vera hérna síðan á mánudaginn en fer heim í kvöld. Svo verð ég á litlu námskeið í Coventry á fimmtudag of föstudag.

Veðrið er búið að vera hundleiðinlegt síðustu dagana, rok og rigning. Alison sagði mér í gær að stóri rósarunninn fyrir framan húsið okkar hafi fokið niður og liggur bara í rúst. Þetta er árlegur viðburður. Ég varð að hlaupa út í bíl í morgun en ég varð samt blautur eins og hundur af sundi. En mikið vorkendi ég fólkinu sem var á gangi því það gengu svona líka svaka gusur frá bílunum þegar þeir keyrðu framhjá þeim.

sunnudagur, desember 03, 2006

Classical Spectacular

Við Alison fórum á tónleika í gærkvöldi með Magnúsi og Guðrúnu. Þetta var Classical Spectacular með frábærri klassískri tónlistarblöndu með kórsöng, óperu, lasersjóvi og endaði svo með 1812 Overture eftir Tchaikovsky með fallbyssuskotum, riffilskotum og innanhús-flugeldum.

Stórgóð skemmtun! Við verðum að gera þetta aftur á næsta ári.

Krakkarnir höfðu vini í heimsókn um kvöldið (sleep over) og barnapían varð að passa allt liðið meðan við skemmtum okkur en allt fór vel fram.