fimmtudagur, júní 28, 2007

Sumarfrí - Loksins

Þá erum við loksins komin með plan fyrir sumarfríið okkar.

Við höfum verið í vandræðum með að finna eitthvern stað sem okkur langar til og getum varið á því það varð að vera skifti á "timeshare" íbúðinni okkar. Okkur langaði mikið til að fara til Skotlands en það var ómögulegt að finna neitt þar og það var ekkert að hafa í Frakklandi eða á Spáni heldur, nema á Kanaríeyjum en við vildum ekki þangað.

Við vorum búin að panta tveggja vikna frí í ágúst frá vinnuni en ekkert gekk að finna stað fyrir okkur og við vorum farin að hafa áhyggjur af því.

Það kom upp möguleiki fyrir nokkrum vikum að fara til Ungverjalands og okkur var farið að hlakka mikið til en þá kom í ljós að íbúðin þar var of lítil fyrir okkur fjögur. En svo á síðustu helgi fanst stærri íbúð á sama stað þannig að allt er komið í gang og við erum byrjuð að plana ferðina.

Við ætlum að fljúga til Vínarborgar og keyra þaðan til Ungverjalands. Staðurinn sem við fengum er við Balaton vatn og þar ætlum við að slappa af og skoða nágrenið. Við ætlum í helgarreisu til Budapest og við skreppum trúlega til Croatia og Serbia sem eru ekki langt frá. Eftir tvær vikur þarna förum við til baka til Vínar og verðum þar í 3 daga áður en við höldum heim á leið.

Alison fór á bókasafnið í gær og fékk nokkrar bækur um Ungverjaland sem ég er byrjaður að lesa því maður verður að vita eitthvað um landið sem maður er að heimsækja.

Loksins getum við farið að hlakka til að fara í sumarfrí.

mánudagur, júní 25, 2007

Blautir dagar koma og fara

Það er búið að vera ansi blautt á okkur síðustu vikurnar þannig að það hlýtur að vera gott veður á Íslandi. Ég vona að það sé líka gott veður í Noregi þar sem mamma og Ragnheiður eru að stússa sig á fornmanna slóðum.

Ferðin til Manchester í morgun var frekar háskaleg, mikil umferð og það rigndi stanslaust. Þurkurnar höfðu varla undan.

Einhvernvegin hélst hann þurr mestmegnið af deginum í gær. Jóhanna, systurdóttir Alison var að ferma sig.

Þetta var tvöföld athöfn. Fyrst var hún "babtised" heima hjá prestinum þar sem henni, og öðrum, var dýft í vatn (sundlaug í bakgarðinum) og seinna var það svona samskonar kirkju ferming og á íslandi, þó ekki með neinum veisluhöldum eftirá.

Ekki fann ég þó fyrir neinum heilagleika, fannst það alveg vanta þó að ég sé ekkert sértstaklega trúaður. Venjulega þegar maður fer í kirkju þá líður manni vel eftirá en það var eitthvað of mikið af leikaraskap og halelúja dóti. Mér fannst ekkert sérstaklega gaman að þessu. Kanski var það bara ég.

fimmtudagur, júní 21, 2007

þrettán

Hvað er það með töluna 13 sem lætur menn trúa að hún valdi ólukku?

  • Á leiðinn heim frá Glasgow í gær sat ég í 12. sætisröð og ég tók eftir að það var engin röð númer 13 heldur var röð 14 fyrir aftan mig.
  • Á nýju skrifstofunni í Manchester (sem ég hef ekki séð ennþá) vildi engin sitja við borð númer 13, þannig að ég tók það.
  • Við búum í húsi númer 14 en það er ekkert hús númer 13 í götunni heldur er það kallað 12a.

Ég tékkaði aðeins á þessu og auðvitað kemst maður að því að:

  • Við síðustu kvöldmáltíðina voru 13 að borði og Jesú var svo krossfestur á föstudaginn 13.
  • Í norrænum goðasögum fór Loki óboðin í matarboð fyrir 12 og olli dauða Baldurs.
  • Í apríl 1970 var Apollo 13 á loft klukkan 13:13 (mið Ameríku tími) og 13. Apríl sprakk súrefnistankur um borð.
  • o.s.f.v. o.s.f.v. o.s.f.v.

Það er auðvitað hægt að draga ályktanir af öllu sem maður sér og heyrir og ef úrtakið er nógu stórt (sem það er) er hægt að koma með svörin sem maður vill heyra. Ef svarið er "13 er ólukku númer" þá er bara að finna ólukkulega hluti sem gerðust þann 13. eða þar sem 13 manns voru saman komin eða manneskjan hafði 13 bólur á rassinum eða eitthvað álíkt.

Algert rugl!

miðvikudagur, júní 20, 2007

Mýrin

Ég var að klára að lesa Mýrina eftir Arnald Indriðason í gærkvöldi.

Mamma lánaði mér bókina þegar hún kom til Glasgow í síðustu viku. Mér fanst sagan stórgóð og hún hélt spennunni vel. Það var líka gaman að lesa sögu á íslensku því það eru orðin nokkur ár síðan ég gerði það síðast.

Núna langar mig bara að sjá myndina!

En er það ekki skrítið hvað bækur eru dýrar á Íslandi?

Á netinu get ég fengið hana á íslensku hjá edda.is fyrir 1,782 krónur en á amason.co.uk get ég fengið enska útgáfu á £1.19.

Er eitthvað vit er í þessu?

mánudagur, júní 18, 2007

Þjóðhátíðardagur

Mamma fór heim frá Glasgow á fimmtudaginn eftir að hafa farið til Edinborgar á þriðjudaginn og svo í skoðanaferð til Loch Lomond og nágreni á miðvikudaginn. Ég held að hún hafi skemmt sér ágætlega, allavega var gaman að sjá hana.

Í gær var sautjándi Júní og til að halda uppá þjóðhátíðardaginn fórum við í BBQ til Guðrúnar og Magnúsar ásamt Annie og Lúdó. Það var gaman og grillið var sértstaklega bragðgott. Það var hálf ótrúlegt að rigningin hélt sig einhverstaðar annarstaðar heldur en í Redditch því það er búið að vera ansi blautt þessa síðustu daga. Er það ekki óvenjulegt fyrir þjóðhátíðardag eða frídaga yfirleitt?

Lindsey tók það á sig til að læra helstu litina á Íslensku og gekk bara vel.

En í dag er sú litla heima með bakverk. Hún hefur verið að fá í bakið öðru hverju en á milli er hún í nokkuð góðu formi. Það á að heimsækja lækninn í kvöld til að athuga með hana. Þarna á myndinni er hún úti í garði (í góðu formi) að masa í síma við eina vinkonu sína.

Ég flaug aftur til Glasgow í morgun. Það var farið að rigna aftur í Birmingham en sólin skein í Skotlandi.

mánudagur, júní 11, 2007

Skoðanaferð

Við mamma hittumst aftur í kvöld og fórum út að borða með fáeinum úr hópnum hennar. Í þetta skifti fórum við á Kínverskan stað sem var alveg ágætur. Hinar konurnar úr hópnum voru ekki á því að fara að ganga eftir matinn og ætluðu bara til baka á hótelið.

En mamma og ég slitum skóleðrinu á götum Glasgow borgar. Við fórum í gegn um aðalgötuna og svo að háskólasvæðinu og þaðan að dómkirkjunni. Þegar við vorum komin þangað vorum við orðin of þreytt til að halda áfram að eldgömlum kirkjugarði (Necropolis) sem við sáum á hæð en þar voru leiðin skreyttir turnar og súlur. Mjög tilkomumikið.

Ég verð að fara þangað einhverntíma sjálfur að skoða.

Á morgun fara mamma og hópurinn hennar með lest til Edinborgar á fyrirlestur þar en eftirmiðdaginn geta þau svo notað til að skoða borgina.

sunnudagur, júní 10, 2007

Endurfundir

Ég komst til Glasgow á endanum...

Okkur var ekki hleypt að vélinni fyrr en það var kominn tími til að fara í loftið. Við gengum að hliðinu okkar og létum rífa af brottfararspjöldunum okkar og gengum svo í gegnum ranann að vélinni. Þar urðum við að bíða í dálítinn tíma þangað til okkur var sagt að flugstjórinn hafi orðið veikur og farið heim. Það var verið að finna annan flugstjóra en það tæki eflaust klukkkutíma. Okkur var svo snúið við og rekin til baka inn í flugstöð en þá var tilkynt að það væri "búið að finna flugstjóra og gætum við snúið til baka að hliðinu okkar", sem við gerðum. En að því að það var búið að rífa af brottfaraspjöldunum þá varð að tjékka hvern mann af lista, sem tók sinn tíma. Og svo voru einhverjir standaglópar sem heyrðu ekki tilkinninguna um brottför og fundust ekki þannig að það varð að fara og finna farangurinn þeirra og taka hann úr vélinni.

Þetta hófst þó á endanum og ég var komin til Glasgow um 16:00 í staðinn fyrir 14:30.

Ég hitti mömmu fyrir utan hótelið sem við gistum á (við erum á sama hóteli og sömu hæð) og það var heppni því gemsinn hennar virkaði ekki (pin númerið) og textinn sem hún senti mér frá öðrum síma komst aldrei til skila. Ég reyndi að texta og hringja í hana en það virkaði ekkert. En við semsagt hittumst og röltum um bæinn í góðu veðri, skýjað en hlýtt.

Um kvöldið fórum við út að borða á indverskum veitingastað með heilum hóp af (háværum) íslenskum kennurum. Það var gaman að heyra og tala íslensku og maturinn var góður enda er indverskur matur í uppáhaldi hjá mér.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Góðar fréttir

Góð frétt númer eitt:

Þá er búið að ganga frá því að ég flýg til Glasgow á sunnudaginn og verð fram á fimmtudag, sömu daga og mamma verður þar. Við getum hist á kvöldin, farið út að rölta og þessháttar.

Það verður gaman.

Góð frétt númer tvö:

Kristján Erlings og Oddatáin hans ætla að taka við rekstri Kambs á Flateyri. Maður varð smeykur þegar það fréttist að Kambur væri að loka en núna lítur allt betur út. Flott hjá Stjána!

Það er alltaf gaman að fá góðar fréttir!

miðvikudagur, júní 06, 2007

Veltikarl

Eitthvað átti ég skilt með Veltikarlinum úr Leikfangabæ í gærkvöldi.

Ég var að fara með stól ofan af efri hæðinni niður stigann þegar ég steig á möppu sem Hávar hafði skilið eftir á einu þrepinu og ég sá ekki. Annar fóturinn flaug undan mér og hinn bögglaðist undir mig þegar ég hrundi niður stigann.

Ekki fór eins illa og á horfði, bara nokkrar litlar skrámur og marblettir, en blessunin hún Lindsey vaknaði með andfælum við allann hávaðann og kom hágrátandi niður.

Eitthvað þykir henni vænt um klaufann hann pabba sinn.

sunnudagur, júní 03, 2007

Hidcote

Veðrið hélst gott yfir helgina.

Í dag fórum við til Hidcote með picnic og röltum um garðana. Þetta var í fyrsta skifti þetta árið sem við förum þangað en venjulega förum við þangað allavega einu sinni á ári. Það voru miklar rigningar í síðustu viku þannig að garðurinn var kanski ekki uppá sitt besta en samt fallegur.

þegar við komum heim borðuðum við kvöldmatinn okkar úti í garði. Indælt!

laugardagur, júní 02, 2007

Strik í reikningnum

Ég var búinn að ákveða að vinna frá Glasgow vikuna sem mamma verður þar og var búinn að kaupa flugmiða og allt en í gær kom smá strik í reikninginn.

Fyrirtækið sem ég er að vinna fyrir í Manchester og Glasgow er ekki búið að ganga frá greiðslu fyrir vinnuna þannig að það var ákveðið að hætta að vinna að verkefninu þangað til búið er að ganga frá því.

Það þíðir að ég verð að vinna að öðrum verkefnum þangað til og það gæti þítt að ég get ekki unnið frá Glasgow. Og ég sem var farinn að hlakka svo til að hitta mömmu. Kanski ég skreppi bara í skotferð. Við sjáum til, en vonandi verður búið að ganga frá hlutunum.

Hér er annars þetta fína veður, 25 stiga hiti, og við erum að skella okkur í grill til vina.