Alveg er þetta magnað með þetta veður. Venjulega er febrúar sá mánuður þegar veðrið er leiðinlegast en það er bara vor í lofti.
Við fórum í helgarferðina okkar (á síðustu helgi) og það var blíða uppá hvern dag. Þegar við vorum hjá vinum okkar í Chard, fórum við í skoðunarferðir til Exeter, Lime Regis and Sidmouth og nutum þess að ganga um í góða veðrinu. Hitinn fór upp í 15 stig á daginn en var um frostmark á næturnar því það var heiðskírt.
Við fórum út að borða á kínverskum veitingastað þar sem ég borðaði á mig gat og þurfti ekki að borða mikið næstu tvo daga.
Á mánudagsmorgun lögðum við af stað til London. Leiðin þangað lá framhjá Stonehenge og auðvitað stoppuðum við þar. Þetta var í fyrsta skifti sem ég hef komið þangað.
Í London fórum við á sýningu gersema Tutankhamun (ungi faraóinn) sem var gaman, sérstaklega fyrir Lindsey því hún er að læra um Egypta í skólanum.
Daginn eftir fórum í skoðunarferð um BBC (Breska sjónvarpsöðin) og svo í London Eye parísarhjólið. Um kvöldið var svo lagt af stað á Lion King en það var eitthvað vesen á neðanjarðarlestinni og hún sat föst á Piccadilly Circus þegar það voru aðeins 20 mínútur þangað til sýningin átti að byrja þannig að við urðum að hlaupa að Covent Garden. Það var svaka mannþröng við Leicester Square þar sem Silvester Stallone var að opna frumsýningu á nýjustu Rambo myndinni sinni. Við urðum að ryðja okkur í gegnum allt liðið í flýti og höfðum ekki tíma til að líta á Stallone en við heyrðum í honum. Við náðum að komast á sýninguna rétt í þann mund er hún var að byrja og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var ein sú besta sýning sem við höfum séð.
Á miðvikudaginn fórum við á National History Museum og skoðuðum aðeins þar en það er bara svo svakalega stórt (og flott) að það var engin von um að klára það. Svo var haldið heim á leið.
Í dag fórum við út að ganga í Leamington Spa og aftur var veðrið frábært, kalt í skugganum og frost á jörðu en hlýtt í sólinni sem skein í heiðbláum himni og logni. Blóm eru farin að koma upp úr jörðinni og á trjánum sem er hættulegt því þetta getur ekki staðið lengi.
Og það er fleira en blóm og skordýr sem eru að koma úr vetrardvala. Ís-bílar eru út um allt en venjulega sér maður þá ekki nema um hásumarið.