miðvikudagur, febrúar 27, 2008

The Eyre Affair

Ég ætla bara að deila með ykkur hvað ég er að lesa þessa dagana.

Það er "The Eyre Affair" eftir Jasper Fforde.

Ég fékk hana að láni frá kunningja sem mælti með henni og það geri ég líka. Stórskrítin en stórgóð bók. Öðruvísi saga þar sem ekki er allt sem sýnist...

Jarðskjálfti

Það reið víst jarðskjálfti yfir Bretland um eitt leitið í nótt.

Ég svaf bara og fann ekki neitt, enda er ég ekki viss um að hann hafi fundist í Newbury, en Alison vaknaði og það var allt á skjálfi. Hún fór á fætur til að athuga hvað þetta hafi verið og tuttugu mínútum seinna kom það í ljós að grunsemdir hennar voru réttar því þetta fór að birtast í fréttunum í sjónvarpinu.

Svona lagað er fréttnæmt því það gerist ekki svo oft hér á slóðum.

laugardagur, febrúar 23, 2008

Konan farin til Írlands

Núna er konan farin frá mér í sína árlegu reisu með vinnunni að skoða hótel. Í þetta skifti fóru þau til Írlands, en ekki gekk það allt samkvæmt áætlun. Hún lagði af stað eldsnemma í gærmorgun út á flugvöll því flugvélin átti að leggja af stað til Dublin rétt fyrir 8 en hún vildi ekki fljúga allavega var ekki hægt að loka hurðinni. Hópurinn fór því úr vélinni til að athuga með aðrar vélar sem var ekki auðvelt en á endanum fundu þau pláss og komust til Dublin um tvö leitið.

Þetta er svolítið skondið að hún hafi farið til Írlands því við ætlum þangað í sumarfríið okkar í Ágúst. Erum búin að bóka svotil allt og erum spennt. Ég býst við að hún komi með hauga af bæklingum um staði sem hún vill skoða í sumar.

Það var líka annað sem var skondið í síðustu viku. Ég er nýbyrjaður á nýju verkefni hjá Vodafone í Newbury og ég var að setja upp tölvupóstfangið mitt hjá þeim á fimmtudaginn og var að lesa póstinn sem var í innboxinu þegar ég sé póst frá einhverjum á Englandi til fólks á Íslandi. Ég vissi ekki af hverju ég var að fá þennann póst en bjóst við að einhver hafði bætt mér óvart við listann. Þegar ég var búinn að lesa allann póstinn kemur nýr póstur frá einhverjum Pétri sem var að forðast yfir því afhverju einhver hafði bætt þessum Ingvari Bjarnasyni á póstlistann. Honum fanst þetta sniðugt því hann ætti mág í Englandi með þessu nafni.

Auðvitað var þetta hann Pétur Rúnar mágur minn, og ég svaraði og sagði hver ég væri og að ég væri líka mágur hanns Péturs. Þetta var skrítin tilviljun.

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Vor í lofti

Alveg er þetta magnað með þetta veður. Venjulega er febrúar sá mánuður þegar veðrið er leiðinlegast en það er bara vor í lofti.

Við fórum í helgarferðina okkar (á síðustu helgi) og það var blíða uppá hvern dag. Þegar við vorum hjá vinum okkar í Chard, fórum við í skoðunarferðir til Exeter, Lime Regis and Sidmouth og nutum þess að ganga um í góða veðrinu. Hitinn fór upp í 15 stig á daginn en var um frostmark á næturnar því það var heiðskírt.

Við fórum út að borða á kínverskum veitingastað þar sem ég borðaði á mig gat og þurfti ekki að borða mikið næstu tvo daga.

Á mánudagsmorgun lögðum við af stað til London. Leiðin þangað lá framhjá Stonehenge og auðvitað stoppuðum við þar. Þetta var í fyrsta skifti sem ég hef komið þangað.

Í London fórum við á sýningu gersema Tutankhamun (ungi faraóinn) sem var gaman, sérstaklega fyrir Lindsey því hún er að læra um Egypta í skólanum.

Daginn eftir fórum í skoðunarferð um BBC (Breska sjónvarpsöðin) og svo í London Eye parísarhjólið. Um kvöldið var svo lagt af stað á Lion King en það var eitthvað vesen á neðanjarðarlestinni og hún sat föst á Piccadilly Circus þegar það voru aðeins 20 mínútur þangað til sýningin átti að byrja þannig að við urðum að hlaupa að Covent Garden. Það var svaka mannþröng við Leicester Square þar sem Silvester Stallone var að opna frumsýningu á nýjustu Rambo myndinni sinni. Við urðum að ryðja okkur í gegnum allt liðið í flýti og höfðum ekki tíma til að líta á Stallone en við heyrðum í honum. Við náðum að komast á sýninguna rétt í þann mund er hún var að byrja og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var ein sú besta sýning sem við höfum séð.

Á miðvikudaginn fórum við á National History Museum og skoðuðum aðeins þar en það er bara svo svakalega stórt (og flott) að það var engin von um að klára það. Svo var haldið heim á leið.

Í dag fórum við út að ganga í Leamington Spa og aftur var veðrið frábært, kalt í skugganum og frost á jörðu en hlýtt í sólinni sem skein í heiðbláum himni og logni. Blóm eru farin að koma upp úr jörðinni og á trjánum sem er hættulegt því þetta getur ekki staðið lengi.

Og það er fleira en blóm og skordýr sem eru að koma úr vetrardvala. Ís-bílar eru út um allt en venjulega sér maður þá ekki nema um hásumarið.

föstudagur, febrúar 08, 2008

Helgarferð

Í fyrramálið leggjum við af stað í langa helgarferð.

Fyrst förum við til Chard í Devon, suður Englandi, og gistum hjá vinum í tvær nætur og svo förum við til London í aðrar tvær nætur.

Í London ætlum við að fara í leikhús og sjá The Lion King og svo ætlum við á sýningu Tutankhamun. Við ætlum líka að skoða BBC Studios og einhver söfn. Þetta á eftir að vera gaman.

Hef ekki tíma til að skrifa meira. Bæ í bili.

laugardagur, febrúar 02, 2008

Hvert fór snjórinn?

Í gær komu Alison og Lindsey heim mjög æstar og sögðu að við yrðum að drífa okkur út í búð og kaupa sleða því snjórinn væri á leiðinni.

Þær höfðu af því áreiðanlegar heimildir. Einhver hafði sagt þeim að það væri farið að snjóa í Birmingham og dökkt snjóský væri á leiðinni suður.

En klukkan var orðin hálf sex og allar búðir farnar að loka þannig að engann keypti ég sleðann.

Svo byrjaði að snjóa, í heilar fimm mínútur, og þá var það búið. Var ekki nóg til að fá gráa hulu, hvað þá að fara í sleðaferð.

Og Lindsey var ekkert ánægð í morgun heldur. Það fyrsta sem hún gerði var að kíkja útum gluggann til að athuga hvort það hefði snjóað um nóttina, en það var enginn snjór.

Það er kanski sem betur fer því Hávar fór af stað með skátahópnum sínum í morgun í helgarreisu. Þeir eru að æfa sig fyrir Dovedale göngu og ætluðu í næturgöngu í nótt með bakpoka og allar græjur.