sunnudagur, júlí 29, 2007

Litlir sumadagar

Vonandi er þessi rigningatíð að ljúka. Það rignir ekki á hverjum degi og þurru dagarnir eru jafnvel indælir.

Krakkarnir hafa haft mikið að gera í sumarfríinu sínu. Það er svo stutt að það verður að troða eins miklu að og hægt er. Þau hafa farið í bíó, keilu, heimsóknir til vina, o.s.f.v. Í gær var veðrið nógu gott til að fara í vatnsbardaga og það var hópur af krökkum með vatnsbyssur og fötur í götunni hjá okkur. Allir haugblautir. Voða gaman.

Hávar er að undibúa sig til að fara í viku útilegu með skátunum. Það er heill hellingur af skátum samankomnir í Chelmsford í Essex til að halda uppá 100 ára afmæli skátahreyfingunar. Það komast ekki allir að þar en þeir fara samt í útilegu til að halda uppá afmælið. Svo verður farið í dagsferð til Chelmsford á fimmtudaginn. Það verður mikið að gera í þessari útilegu hjá þeim og vonandi verður veðrið gott.

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Eru flóð góð?

Eftir nokkra góða (sæmilega) daga þá er farið að rigna aftur - ooojjj.

Kanski verður maður bara að reyna að líta á góðu hliðarnar.

Það hefur ekki verið vandamál með maura þetta árið. Venjulega er maður á varðbergi og úðar mauraeitri þegar það eru farnar að koma mauraþúfur á milli rifana á hellunum í kringum húsið. Maurar hafa varla sést það sem af er sumri. Það er gott.

Það sama má segja um vespur. Ég man ekki eftir að hafa séð nema fáeinar í vor (og svo þessa tvo risa geitunga sem buðu sjálfum sér inní hús í vor). Það er gott líka.

En svo verður manni hugsað til dýranna sem geta ekki forðað sér undan flóðunum: broddgeltir, moldvörpur, o.s.f.v. Greyið þau.

Nei, þessi flóð eru ekki góð.

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Ofurhiti

Hvað er ég að fara til Ungverjalands þegar það er svona svakalega heitt þar. Ég er ekkert mikið gefinn fyrir ofurhita þó að það sé gott þegar það er vel hlýtt.

Vonandi verður farið að kólna aðeins þegar við förum þangað. Ég er jafnvel að búast við að rigningarnar og flóðin sem við erum orðin vön við, elti okkur þangað.

laugardagur, júlí 21, 2007

Gegnsósa

Hvenær ætlar þessari rigningatíð að ljúka?

Það er búið að rigna svotil stanslaust á okkur í 6 vikur, eða kanski meira en það. Þetta rennur allt saman í hausnum á manni; heilinn er gegnsósa.

Mikið var ég feginn að ég var að vinna heima í gær því stór hluti samgöngukerfisins lagðist niður í gær vegna úrkomunnar. Ég ætlaði að fara til Coventry og vinna á skrifstofu okkar þar en hætti við það á síðustu stundu því mér leist ekkert á alla rigninguna.

Gærdagurinn var síðasti skóladagurinn hjá krökkunum. Þau eru loksins komin í sumarfrí, ef það er hægt að kalla þetta sumar. Það er júlí og maður verður að skella kyndingunni í gang öðru hverju til að ná úr manni hrollinum og rakanum. Ég man ekki eftir öðru eins sumri - eins og vorið var nú gott.

Alison lagði af stað í vinnuna í morgun en varð að snúa við því það var flóð á leiðinni. Hún kom heim og fór svo aftur af stað á mínum bíl, fór aðra leið og komst alla leið.

Síðasta bókin um Harry Potter kom út í gær um miðnættið. Ég fór með Hávari og Lindsey inní bæ til að standa í biðröð til að kaupa eina. Biðröðin var orðin ansi löng áður en búðin opnaði en sem betur fer vorum við nær framendanum og þurfum ekki að bíða of lengi eftir að geta gripið eintak af bókinni.

Hávar byrjaði strax að lesa hana.

mánudagur, júlí 16, 2007

BBQ í rigningu

Okkur var boðið í BBQ til nágrana okkar í gær. Annar sonur þeirra er fer í sama skóla og Hávar. Veðrið var dálítið tvísýnt en það var ekkert dokað við hlutina og grillið fór í gang. Það hélst þurt meðan við vorum að grilla en svo fór að sudda þegar við byrjuðum að borða en við hörkuðum af okkur og borðuðum úti undir stórri sólhlíf sem gegndi hlutverki regnhlífar. Það var mjög gaman og við borðuðum alltof mikið.

Ég var að athuga með veðrið í mið-Evrópu áðan og það er aldeilis hitinn þar, um og yfir 40° og fer hækkandi. Vonandi verður ekki alveg svona heitt þegar við verðum þar í ágúst. En ég býst svosem alveg við því að við tökum rigninguna með okkur.

föstudagur, júlí 13, 2007

Afmælisbarn dagsins...

Alison á afmæli í dag og það er byrjað að rigna, aftur, en vonandi ekki of lengi.

Hún fór út að versla með vinkonum sínum í tilefni dagsins en í kvöld ætlum við að fara út að borða og svo á sýninguna hanns Hávars. Frumsýningin á leikritinu var í gær og gekk vel og hann var var mjög ánægður.

Þetta virðist vera mjög dökkt leikrit, það er allavega mikið af blóði og bardögum. Verður spennandi að sjá það í kvöld.

Það er föstudagurinn 13. í dag. Er einhver hjátrúarfullur?

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Joseph og Narnia

Hávar og Lindsey hafa í mörgu að snúast þessa dagana, í sambandi við leiklist og söng. Hávar hefur verið að æfa fyrir leikrit, The Lion, the Witch and the Wardrope (Narnia), sem verður frumsýnt á morgun í Palace leikhúsinu okkar í Redditch. Hann er ekki með stórt hlutverk en það verður samt að æfa stíft. Síðasta æfingin er í kvöld og verður frá 5 til 10. Hann á eftir að vera svo þreyttur þegar þetta er allt búið.

Lindsey hefur verið að æfa "Jacob and the Amazing Technicolor Dreamcoat" með skólafélögum sínum. Fyrsta sýning var í gær og sú næsta verður á morgun. Hún er aðallega í kórnum en hún er með smá hlutverk á sviðinu líka. Við Alison fórum á frumsýninguna í gær og skemmtum okkur vel. Það er alltaf svo gaman að sjá þessa krakka á sviði.

Það virðist sem stórrigningarnar sem hafa verið að hrjá okkur séu í hjöðnun. Síðasta helgi var alveg ágæt og ég náði að slá villigarðinn sem hefur verið eins og mýri en var orðin nokkuð þurr. Við þurfum að fá fleiri svona daga því þurfum að aðlaga okkur að hitanum (sem ég er að búast við) í Ungverjalandi áður en við förum þangað. :)

föstudagur, júlí 06, 2007

Fjöruferð

Skólinn hennar Lindseyar fer í fjöruferð til Burnham-on-Sea á hverju ári og í ár er sá dagur í dag.

Alison var búin að plana að fara með Lindsey en það er búið að vera svo tvísýnt með veðrið uppá síðkastið að þær hafa verið óákveðnar um hvort þær færu nokkuð. En það var engin rigning í morgun og spáin alveg sæmileg, nokkuð þurt en samt skýjað og vindasamt, þannig að þær lögðu í það. Ég veit ekkert hvernig þær hafa það því síminn hennar Alison er dauður (það gleymdist að hlaða hann) en vonandi eru þær að skemmta sér. Mér sýnist á web cam myndinni að það er sól þar þessa stundina.

En svo á allt aðra hluti...

Ég var að vafra um netið um daginn og rakst á video á TED.com þar sem Hans Rosling talar um hvernig hann hefur komið upplýsingum um fátækt og aðra hluti í myndrænt form sem er auðvelt að skilja. Hugbúnaðurinn sem hann hannaði var svo nýlega keyptur af Google sem gerði hann aðgengilegann á netinu. Horfiði á video-ið fyrst og prufið svo Trendalizer frá Gapminder. Það er margt þar sem kemur á óvart.



þriðjudagur, júlí 03, 2007

Tölvudrasl

Sem betur fer gerist það ekki oft að tölvur fari í skapið á mér, sem er eins gott því ég verð að umgangast þær á hverjum degi, en ég var orðinn ansi pirraður seinnipartinn í dag.

Talvan mín tók uppá þeim óskunda snemma í morgun að neita tengingum í gegnum vafarann hvort sem það var á netið eða einhverstaðar annarstaðar á servum í fyrirtækinu þar sem ég er að vinna. Tengingar á gagnagrunna virkuðu illa líka.

Ég mætti í vinnuna klukkan átta í morgun og byrjaði strax að reyna að leysa úr þessu og ég var að finna ástæðuna. Það tók mig næstum því tíu klukkutíma, en ég var ekki á því að hætta. Ástæðan á endanum var einhver hugbúnaður sem fyrirtækið mitt hafði setti á tölvuna þegar hún var ný til að fylgjast með netnotkun og einhvernvegin hafði hugbúnaðurinn truflast eitthvað og neitað mér að tengjast neinu. Ég var búin að prufa allt sem mér gat dottið í hug og var að íhuga síðasta úrræðið, að endurhlaða XP.

Sem betur fer fór allt vel.


Á meðan íslendingar eru að sólbrenna í góða veðrinu erum við í Bretlandi að drukkna í allri þessari rigningu. Það ætlar bara ekkert að hætta að rigna. Allt komið á kaf og flóð og vandræði útum allt.

En ég er samt viss um að þegar/ef það hættir að rigna þá verður farið að kvarta yfir vatnsskorti. Það þarf alltaf að kvarta yfir einhverju.

sunnudagur, júlí 01, 2007

Sofið með ljónum og tígrisdýrum

Héðan er það helst að frétta að Hávar fór í reisu með skátunum á föstudagskvöld og við eigum von á honum til baka seinnipartinn í dag. Þeir fóru til West Midlands Safari Park til að skemmta sér og svo ætluðu þeir að tjalda í túni við hliðina á ljónasvæðinu. Það var mikið grín gert að því að þeir ættu að sofa inn á ljónasvæðinu og skiftast á að standa vörð. Við höfum ekki heyrt af honum en vonandi var gaman hjá þeim. Þeir eru eflaust haugblautir því það er búið að rigna alla helgina.

Þá er England loks orðið reyklaust. Bann við reykingum á almennum stöðum fór í gang klukkan 6 í morgun. Engin reykjafýla í fötunum þegar komið er heim af pöbbunum.

Lífið hér í Englandi er eins og að lifa í spennusögu með allar þessar hryðjuverkaárásir/tilraunir á helginni, í London og á flugvellinum í Glasgow. Fjölskyldan mín er með miklar áhyggjur af þessu því ég er alltaf að ferðast.