föstudagur, október 26, 2007

Hálfannarfrí

Eins og minntist á síðast hafa krakkarnir verið í hálfannarfríi frá skólanum þessa vikuna og það hefur lent á Alison að þeysast með þau út og suður.

Lindsey fór á námskeið í dansi í nokkra daga (sem hún hefur gert áður) og Hávar hefur verið önnum kafinn við að æfa fyrir leikritið sem hann er í.

Á meðan hef ég verið í Manchester á kafi í vinnu. Ég ætlaði að koma heim á miðvikudaginn en það var bara svo mikið að gerast að ég komst ekki heim fyrr en seint í gærkveldi. Í dag er ég að vinna heima en hér er tómt hús. Hávar er einhverstaðar úti með félögum sínum og Alison tók Lindsey og nokkra vini hennar í bíó.

Það er aldrei stoppað.

mánudagur, október 22, 2007

Slæm íþróttavika

Þetta er búin að vera slæm vika fyrir Breska íþróttamenn. Fyrst töpuðu þeir fyrir Rússum í fótbolta, á laugardaginn létu þeir í lægra haldi fyrir Suður Afríku í rúgbý, og svo fór agalega fyrir Lewis Hamilton á sunnudaginn þegar hann náði ekki að verða heimsmeistari í F1.

En ég skemmti mér vel.

Ég fylgist venjulega ekki með íþróttum en ég horfði á England - S-Afríku spila rúgbý og hafði æðislega gaman af. Hávar fylgist aðeins með og hann útskýrði fyrir mér reglurnar og þetta var stórskemmtilegt. Almennilegt mannasport, engar væluskjóður eða leikarar sem þykjast detta, eins og er í Enska fótboltanum.

Í gær, sunnudag, fórum við með Ron tengdapabba til Kinver í göngutúr í fallega haustveðrinu. Þar eru rústir af "hellahúsum" sem var búið í þangað til 1965.

Þegar við komum heim var F1 að byrja og ég horfði á keppnina með Ron. Þetta var fyrsta F1 keppnin sem ég hef séð þetta keppnistímabil og það var gaman að fylgjast með þó að Hamilton hafi ekki unnið.

Krakkarnir eru í hálfannarfríi þessa viku.


mánudagur, október 15, 2007

Flautueigandi

Það er bráðum orðið eitt ár síðan Lindsey byrjaði að spila á þverflautu. Fyrst tókum við eina á leigu í fáeina mánuði því við vildum ekki eyða stórum fúlgum í eitthvað sem hún myndi missa áhugann á. Svo fengum við gamla flautu að láni frá vinkonu Alison, og Lindsey hélt áfram að læra og spilar núna lítil lög. Hún æfir ekki mikið heima en þó svona aðeins og svo fær hún smá kennslu í skólanum, einu sinni í viku.

Á helginni tókum við okkur til og keyptum handa henni splunkunýja þverflautu og hún er svo ánægð með hana. Og það verður að segjast að hún hljómar mikið betur en gamla lánflautan.

Það verður að halda henni við. Hún er sú eina í fjölskyldunni sem spilar á eitthvað hljóðfæri.

Hávar var ekki mikið heima þessa helgina. Einn af vinum hanns úr leiklistarhópnum átti afmæli og hann var þar mestalla helgina. Á meðan héldum við Alison áfram að undirbúa veggina í húsinu. Hún er búin að finna einhverja verkmenn sem geta gert það sem við viljum svo nú er bara að plana hlutina svo þeir geti gerst.

miðvikudagur, október 10, 2007

Tímamót

Þá er sá tími á enda að ég sé sá stærsti í þessari fjölskyldu okkar.

Ég var að mæla Hávar áðan og við erum jafnháir, 188cm (6' 2'' á enskann máta).

Um jólin verður hann orðinn stærri en ég og farinn að líta niður á hann pabba sinn.

þriðjudagur, október 09, 2007

Asni, álfur, bjálfi...

Voðalega var ég vitlaus í gær.

Fór að heiman án þess að taka peningaveskið með mér.

Fattaði ekkert fyrr en ég var komin á hótelið, þar sem ég stóð og gramsaði í vösum og töskum en fann náttúrulega ekkert veski. Sem betur fer veit fólkið á hótelinu hver ég er, eða allavega að ég gisti hjá þeim í hverri viku, þannig að ég fæ að gista og borða.

Á meðan situr veskið á sínum vanastað heima.

mánudagur, október 08, 2007

Hitt og þetta

Hvað, kominn mánudagur aftur? Damm, hvað tíminn líður hratt.

Það var mikið að gera í vinnunni í síðustu viku en ég gat þó farið heim á fimmtudaginn og unnið heima á föstudaginn. Ég hafði meira að segja tíma til að fara með Lindsey til Tanworth og horfa og hlusta á hana og krakkana úr skólanum hennar í "Harvest festival".

Hávar er að æfa nýtt leikrit með leiklistarhópnum sínum. Það heitir "The Magician's Nephew" og er úr "The Chronicles of Narnia". Þetta eru stórfínir krakkar í þessum hóp og hann á marga góða vini þar. Eftir æfingar á föstudagskvöldið var honum boðið hann í afmælisveislu og það var næstum komið miðnætti þegar hann kom heim. Við Alison vorum dauðþreytt eftir daginn, hún var komin í háttinn en ég varð að vaka eftir honum því hann hafði ekki lykla á sér. Þessir krakkar stækka svo fljótt.

Á laugardaginn fór Hávar svo í litla útilegu með skátunum og kom heim seint í gærdag. Alltaf mikið að gera...

... Líka hjá Lindsey. Hún fór líka í afmælispartý á sunnudaginn og þeman var "Pamper party". Það var lagt á henni hárið og andlitið málað. Svaka flott.

En hjá okkur Alison fór sunnudagurinn í að taka veggfóðrið niður í svefnherberginu okkar. Já, við erum næstum búin að rústa holinu stigaganginum og núna svefnherberginu. Og það gengur ekkert hjá okkur að finna fagmenn. Við lifum bara í voninni að það rætist úr því.

Á meðan rústum við húsinu bara meira.

mánudagur, október 01, 2007

DIY

Ég er aftur komin til Manchester. Vonandi verður þetta aðeins styttri vika heldur en sú síðasta og ekki eins "stressuð". Annars lítur þetta allt betur út, gamli hugbúnaðurinn aftur starfshæfur og sá nýi að skríða saman.

Helgin fór í að taka niður gamla veggfóðrið í stigaganginum og þá á ég bara eftir holið uppi og klára það á næstu helgi. Þetta tekur svo mikinn tíma hjá mér að standa í svona DIY - ég gæti aldrei orðið atvinnumaður í þessu.