sunnudagur, september 28, 2008

Bjarnabarnamót

Á föstudagskvöldið var komum við systkinin saman hjá honum Herði. Árný eldaði þessa fínu fiskisúpu handa okkur áður enn hún hvarf með Einar litla og skildi okkur systkinin ein eftir. Súpan rann vel niður og Helga ætlaði aldrei að geta stoppað, enda er hún að borða fyrir tvo ;).

Svo var sest niður og spjallað um lífið og tilveruna og gamlir tímar rifjaðir upp.

Það var ákveðið að slá saman einhverjum hendingum sem við gætum sungið fyrir pabba daginn eftir og afraksturinn var Bjarnabarnabögur. Þær eru sungnar við "Syngjandi hér, syngjandi þar, syngjandi geng ég alstaðar...", en viðlaginu breyttum við í "Smíðandi hér, smíðandi þar, smíðandi er hann alstaðar. Sí og æ, æ og sí, aldrei fær hann nóg af því." Sumar bögurnar eru einskonar einkahúmor en afraksturinn er svona (muniði að endurtaka fyrstu línuna og syngja viðlagið á milli)


Bjarnabarnabögur

Við gleðjumst með sjötugum gæðasmið
Sem finnst voða fyndið að reka við
Og getur ropað stafrófið

Hann Breiðuvíkurdrengur var
Stundaði böllin og kvennafar
Og hitti mömmu okkar þar

Fjórum börnum hann kom á ról
Svo tók han saman sín smiðatól
Og fluttist vestur á Kirkjuból

Í sveitinn þar var kyrrð og ró
Nema þegar pabbi mömmu sló
Lét á rassinn og skellihló

Við áttum hrút sem að Múli hét
Eftir að hann dó ég sárast grét
Því alltaf var í matinn Múlakjet

Eftir að komu Önundarfjörð
Innan um beljur og lambaspörð
Gátu þau Boggu, Helgu og Hörð

Sem bóndi gaf hann sjónum gaum
Þar til hann uppfyllti gamlan draum
Á Fífu, Tomma, Nökkva og Straum

Þrátt fyrir að eiga öll þessi börn
Fær hann bara kaffikvörn
Hann hefði átt að nota getnaðarvörn

Oftast erum við prúð og pen
Því við höfum þessi gæðagen
Frá honum Bjarna Thorarensen

föstudagur, september 26, 2008

Kominn til landsins

Ég er kominn til landsins. Fluginu seinkaði um 2 tíma og vélin fór í loftið klukkan 23:25.

Það var dálítið fyndið hvað áhöfnin var alltaf að minna farþegana á að flýta sér að setjast niður svo þeir gætu farið af stað. Þeir voru dálítið stressaðir. Svo þegar vélin var að fara í loftið heyrði ég á tali þeirra að ef vélin hefði ekki verið farin af stað klukkan 23:28 þá hefði hún verið kyrrsett þangað til um morguninn. Bara 3 mínútur eftir. Flugvöllurinn lokar nefnilega yfir nóttina.

Ég fékk þetta fína sæti aftarlega í vélinni þar sem neyðarútgangurinn var og þess vegna mikið pláss fyrir fæturna. Ég var líka einn í sætisröðinni. Þetta var eins og á Saga Class.

Hér er rok og rigning (ekta enskt sumarveður) en það á víst að lagast.

fimmtudagur, september 25, 2008

Tafir

Það verður komið fram yfir midnætti þegar ég kem til Íslands. (Geisp)

--
Sent from Google Mail for mobile | mobile.google.com

Stórafmæli

Það er kominn tími til að því að fara af stað útá flugvöll, stíga inní vél og leggja í hann til Íslands því hann pabbi á stórafmæli í dag.

Til hamingju með daginn!

þriðjudagur, september 23, 2008

Sumarblíða

Sumarið loksins byrjað, allavega í nokkra daga.  

Það var indæl blíða á helginni og það bærðist ekki hár á höfði eins og sést á myndinni hérna.



Lindsey fór með vinkonu sinni á línuskautum sínum í kring um vatnið okkar í góða veðrinu.

Og vegna þess hvað sumarið hefur verið lélegt hingað til þá var örtröð af fólki við vatnið að ganga, skokka, hjóla og gefa öndunum.

laugardagur, september 20, 2008

Explorer Scouts

Hávar er farinn í enn eina útileguna með skátunum.  Hann er orðinn of gamall fyrir skátahópinn sem hann var í og er núna að athuga með Explorer Scouts þar sem eru eldri krakkar.  Hann fór með þeim í gær, föstudag, og kemur til baka á sunnudaginn.  En það er ekkert víst að hann haldi áfram því þeir hittast á fimmtudögum þegar hann er í leikhúshópnum sínum og á föstudögum þegar hann er í litlu ungmennafélagi aðra hverja viku.  En við sjáum til.

laugardagur, september 13, 2008

miðvikudagur, september 10, 2008

Svarthol? Hvar?

Núna fyrir skömmu, á landamærum Sviss og Frakklands, stóð hvítklæddur vísindamaður fyrir framan rauðan takka með yfirskryftinni: "LHC ON/OFF" og ýtti á hann.

Á sama tíma stóð mannkynið á andanum og beið eftir því að vera gleypt af svartholi búið til af manna höndum, en ekkert gerðist.

Nú bíður maður bara eftir fréttum...

þriðjudagur, september 02, 2008

Back to school


Í dag er fyrsti skóladagur ársins, krakkarnir komnir í nýja skólabúinginn og tilbúin í slaginn.