föstudagur, september 29, 2006

Vinna og meiri vinna...

Þið verðið að fyrirgefa hvað ég hef verið latur að skrifa. Búinn að vera önnum kafinn við að vinna. Ég hef verið að vinna með fyrirtæki sem heitir Metasolv við verkefni fyrir Cable & Wireless í Bracknell (fyrir vestan London). Hellingur að gera og mikið stress. Ég hef gist í hótelum því umferðin hefur verið svo leiðinleg - slys, vegavinna, o.s.f.v. Ef ég keyri fram og til baka þá er það allavega 5 tímar í keyrslu á dag sem er allt of mikið.

Hávar er að fara í útilegu yfir helgina með skátunum í kvöld. Þeir fara til Blackwell Court sem er aðstaða fyrir skáta í héraðinu. Veðurspáin er þó ekki alltof góð, skúrir alla helgina, en ég er viss um að þeir eigi eftir að skemmta sér vel. Það er hellingur fyrir þá að gera: go-karts, grassleðar, abseiling (sig ??), sundlaug, bogfimi og margt annað.

mánudagur, september 25, 2006

Íslendingar í Redditch

Það er komin viðbótarsending af íslendingum til Redditch, hjón með 3 börn. Hann er að vinna með Magnúsi í Marel og við hittum þau í matarboði hjá Guðrúnu og Magnúsi á laugardaginn. Þetta var skemmtilegt kvöld, góður matur og svo leikir á eftir. Ég veit ekki hvort þeim nýju hafi litist á lýðinn, þau voru frekar hljóð til að byrja með en svo fór þetta allt að ganga. Hann heitir Alli og hún Linda en við höfum ekki hitt börnin (þetta var bara fyrir fullorðna fólkið).

Alison fór líka út á föstudagskvöldið. Þær fóru út saman 10 vinkonur út að borða og dansa og það var líka Robbie Williams "look-alike" sem var að skemmta.

laugardagur, september 23, 2006

Köngulær

Þetta er búið að vera gott ár fyrir köngulær í Bretlandi, eða svo segja fræðimenn, og ég er sammála. Það er búið að vera mikið um að stórar, feitar og loðnar köngulær komi í heimsókn inní hús. Þessa vikuna erum við búin að drepa 6 slíkar. Alion er stórilla við þær og öskrar hátt þegar hún rekst á þær óvænt. Þær eru lófastórar og snöggar í hreyfingum þannig að maður verður að vera snöggur til að ná þeim.

Ástæðan fyrir þessari risastærð er víst góð tíð síðastliðinn vetur og sumar, þurt og hlýtt. Mér finnst alveg ágætt að hafa köngulær til að halda öllum hinum skordýrunum í skefjum en kanski ekki inni í húsi.

fimmtudagur, september 21, 2006

Atvinnuhugleiðingar

Síðustu tvær vikurnar hef ég verið að vinna með fyrirtæki sem heitir Metasolv að verkefni fyrir Cable & Wireless í Bracknell. Það er gott að vera farinn að vinna að alvöru verkefni aftur (þó að það er ekki langt) því áður en við fórum í sumarfríið okkar í Frakklandi, og í nokkrar vikur á eftir, var voðalega lítið að gera. En það virðist vera farið að glæðast til.

Ég hef verið að velta því fyrir mér í nokkurn tíma að fara að vinna sjálfstætt. Ég er búin að senda CV-ið mitt (starfsreynslulýsing ??) á eina internet leitarvél fyrir IT fólk og er farinn að heyra frá atvinnuskrifstofum sem vilja skaffa mér vinnu sem sjálfstæður ráðgjafi en þetta eru yfirleitt störf í London eða Hollandi. Hvað fynnst ykkur, á ég að skella mér í þetta?

mánudagur, september 18, 2006

River Wye

Helgin var reglulega ánægjuleg, sérstaklega sunnudagurinn. Við fórum öll til Ross-on-Wye, með Ron, pabba Alison og Chris systur hennar og börnum. Í Ross fórum við í stutta gönguferð eftir ánni og svo til baka til að fá okkur að borða á góðum veitingastað. Á eftir keyrðum við svo áfram til Symonds Yat þar sem áin Wye sniglast í gegnum fallegt gljúfur (eða þröngan dal). Við gengum þar eftir ánni og veðrið var alveg frábært, sól og logn og allur skógurinn bergmálaði af alskonar dýrahljóðum. Svo fórum við yfir ána á göngubrú og gengum til baka á hinum árbakkanum og tókum svo litla ferju yfir aftur því bílarnir voru auðviðað þeim meginn.

Þegar við höfum farið til Symonds Yat áður þá höfum við venjulega keyrt uppá gilbrúnina og horft á útsýnið þar en þetta var í fyrsta skyftið sem við höfum gengið eftir ánni niðri í gljúfrinu.

Það eru nokkrar myndir frá ferðinni í myndasafninu.

laugardagur, september 16, 2006

Svart poppkorn

Við þurfum að kaupa okkur nýjan örbylgjuofn. Sá gamli er ekki ónýtur, virkar ágætlega, en í hvert skyfti sem hann er opnaður ilmar allt af brendu poppkorni.

Við fórum út að skemmta okkur á síðustu helgi og þegar barnapían kom skellti Alison poppkorni í ofninn. En þetta var í fyrsta skyfti sem Alison sá um að poppa og hún stillti klukkuna á 4 mínutur í staðinn fyrir 2 og hálfa og fór svo upp til að bursta á sér hárið eða eitthvað svoleiðis. Þið getið alveg giskað á kvað skeði næst. Brunalykt! Ég hljóp inní eldhús sem var byrjað að fyllast af reyk og henti popp-pokanum út um bakhurðina. Reykskynjarinn fór að væla og mökkurinn var heldur þykkur en ekkert brann. Það var heppni.

Húsið ilmaði í nokkra daga á eftir þó að það er orðið betra. En í hvert skyfti sem við þurfum að nota ofninn köfnum við af brunafýlu. Við þurfum að kaupa okkur nýjan örbylgjuofn!

þriðjudagur, september 12, 2006

Troðningur

Þegar ég hef verið að ferðast til London síðastliðna 12 mánuði eða svo hef ég yfirleitt farið með lest frá Birmingham til London Euston og gengið þaðan þangað sem ég var að vinna.

Síðustu vikurnar hef ég þurft að skreppa nokkrum sinnum til London með lest en þurft að taka neðanjarðarlestina á háannatímanum, 20 mínútur í níu. Það dálítið fyndið að fylgjast með örtöðinni. Þetta er heill hafsjór af fólki sem troðar sér niður rúllustigana, í gegnum miðahliðin, niður fleyri rúllustiga og útá platformin. Þar er beðið eftir lest og það þarf yfirleitt ekki að bíða lengi, aðeins ein eða tvær mínútur á milli, en það er troðningurinn í lestunum sem mér fynnst fyndinn. Það er alveg eins og í teiknimyndum þar sem fígúrurnar eru með andlitin þrýst uppað rúðunum og geta sig ekki hreyft. Lestirnar eru fullar þegar þær koma, nokkrir fara út og svo troðast eins margir inn og hægt er. Þeir sem eru næst hurðunum verða að gæta sín að þær klippi ekki höfuðið af þeim þegar þær skellast aftur. Þeir sem komast ekki inn verða bara að bíða eftir næstu lest. Á endanum hættir örtröðin og lestirnar verða aftur hálffullar.

Sem betur fer þarf ég ekki að ferðast langt því það er ekki þægilegt að standa í svona þrengslum. Og sem betur fer þarf ég ekki að ferðast svona oft en það er hellingur af fólki sem þarf að gera þetta uppá hvern dag.

Sumir eru bara heppnari en aðrir.

mánudagur, september 11, 2006

Nálar

Það var voða fínt veður í gær og við fórum öll í hjólreiðarferð til Forge Mill Needle Museum. Í gamladaga var Redditch frægt fyrir framleiðslu á nálum, önglum og þessháttar. Þegar framleiðslan stóð sem hæst voru 90% af öllum nálum í heiminum framleiddar í Redditch. Safnið sýnir hvernig framleiðlan fór fram.

Þegar við komum heim var reynslu okkar af nálum ekki lokið. Alison var að sauma myndir á Brownies búninginn hennar Lindsey og nálin hlýtur að hafa dottið af borðinu á gólfið. Lindsey var á leiðinni í háttinn og steig hún á saumnálina sem rakst djúpt inní ilina á henni. Greyið litla meiddi sig náttúrulega mikið. Það var lán í óláni að nálin hafði ekki rekist í bein og brotnað.

Fimm ár síðan 9/11

Það eru heil fimm ár síðan 9/11. Muna ekki allir hvar þeir voru á þeim degi?
Ég var að vinna að verkefni fyrir Cable & Wireless í Birmingham þegar ég fékk símhringingu frá Alison sem var heima og horfði á allt í beinni útsendingu í sjónvarpinu og var að reyna að útskýra fyrir mér hvað hefði skeð. Það var voðalega erfitt að fá upplýsingar. Breskar og amerískar fréttasíður á internetinu virkuðu ekki en mogginn virkaði svona nokkurnveginn og ég varð að þýða fréttirnar fyrir fólkið sem ég var að vinna með.

miðvikudagur, september 06, 2006

Tönnin er farin

Þegar Lindsey kom heim úr skólanum í dag þá var lausa tönnin hennar heldur betur laus. Eftir matinn fórum við og snöruðum hana með tvinna og kipptum í. Tönnin flaug úr og nú liggur hún í littlu skríni undir koddanum hennar þar sem Tannálfurinn á eftir að finna hana. Þegar Lindsey vaknar um morguninn verður tönnin horfinn en í staðinn verður þar £1.

Skólinn er byrjaður

Lindsey byrjaði í skólanum í gær og við fórum öll með henni í skólann. Hún er komin í 3. bekk og er þess vegna í Juniors (í fyrra var hún í Infants) sem hún er stolt af.
Hún er missa tönn númer 3. Tönnin er voða laus og angrar hana og meiðir en hún vill ekki að ég kippi í hana. Hún hlýtur að fara að detta úr. Eitthvað var hún stúrin í morgun og hún var ekkert spent við að fara í skólan, grét bara stelpuanginn. Trúlega vegna þess að tönnin er að angra hana og líka vegna þess að nokkrar af bestu vinkonum hennar frá því í fyrra hafa flutt í annann skóla. Það bætir heldur ekki úr skák að Hávar hefur tveggja daga lengra frí en hún sem henni fynnst náttúrulega grautfúlt. Hann byrjar í skólanum sínum á morgun.
Haustveðrið hefur farið í felur og við erum búin að hafa nokkra ágætis daga.

laugardagur, september 02, 2006

Haust

Það er komið haust. Það var allavega haust í dag. Vindgustar léku sér útum allt og fannst gaman að hrista laufið úr trjánum og jafnvel brjóta greinar. Það var líka úðarigning.
Hér eru allir nema ég búnir að vera slappir með magaverk í allan dag, sérstaklega Hávar. Við fórum í litla gönguferð í kvöld til að hressa uppá okkur (það var hætt að rigna) og gangstígurinn var þakinn greinabútum, akornum og laufum. Kominn september og sumarið búið.
Annars er ekki hægt að kvarta, sumarið er búið að vera frábært. Og ég er viss um að sumarið er ekki alveg búið. Við eigum eftir að fá fleiri góða daga. Alveg viss um það.