Við erum komin heim
Þá er páskafríið okkar í Cornwall á enda. Það var vel heppnað og afslappandi.
Fyrstu vikuna gistum við í húsi í bæ sem heitir Hayle. Við tókum það á leigu frá gömlu konuni sem á fyrirtækið þar sem Alison vinnur. Veðrið var gott, dálítil gjóla en sólskin og gott gönguveður. Það er voðalega gaman að ganga eftir ströndinni hér í Cornwall, útsýnið er stórgert og tilkomumikið og svo eru litlar strendur inn á milli klettana. Á einum staðnum sáum við hóp af selum sem voru að spóka sig, trúlega um 80 stykki. Við fórum líka með krakkana til Flambards sem er skemmtigarður þar sem við skemmtum okkur vel á rússíbönum og parísarhjólum. Við fórum einnig til Sennen Cove og gengum til Lands End sem er vestasti hluti Englands.
Seinni vikuna fórum við til Mawgan Porth og gistum í sama húsinu sem við höfðum í páskafríinu okkar í fyrra. Chris, systir Alison og fjölskylda hennar og Ron pabbi hennar voru þar líka. Þaðan fórum við í fleiri gönguferðir eftir ströndinni og lékum okkur þar með krökkunum í fjörunum. Veðrið varð bara betra og betra, heiðskýrt og hlýtt, alveg eins og það væri mitt sumar.
Í fyrra dreifðum við öskunni hennar Dot við ströndina hérna því hún og Ron komu hingað oft. Ron var búinn að kaupa bekk með nafnplötu til minningar um Dot og bekkurinn var á góðum stað í Newquay með fallegt útsýni eftir ströndinni.
Ég las tvær bækur í þessu fríi. Sú fyrsta var bók eftir Dan Brown sem heitir Digital Fortress, mjög góð spennusaga í sama ritstíl og hinar bækurnar hans sem ég hef lesið: The da Vinci Code, Angels and Demons og Deception Point. Hin bókin hét The Piano Tuner og er eftir Daniel Mason. Þessi var allt öðruvísi, saga af manni sem ferðast frá London til Burma árið 1886, á meðan Burmastríðin voru að ganga, til að stilla píanó. Sagan er alveg heillandi, falleg og spennandi með frábærum lýsingum á stöðum og fólki sem hann hittir. Ég held að það sé búið að gera mynd eftir sögunni þó ég hafi ekki séð hana en þegar maður les bókina er eins og maður sé að horfa á bíómynd.
hæ, hæ
SvaraEyðagaman að heyra að ferðin tókst vel :)
fríið hjá okkur tókst líka vel og það var frábært að koma heim í sól og 25 stiga hita
bestu kveðjur til Alison
Þetta hefur aldeilis verið fín ferð hjá ykkur heyrist mér. Alltaf gott að breyta um umhverfi og hlaða batteríin. Við vorum einmitt að koma úr sumarbústaðaferð og þótt hún hafi aðeins varað yfir helgina þá líður manni rosalega vel eftir svona helgar ;)
SvaraEyðaKnús og kremjur til Alison og krakkanna.
-Bogga-