sunnudagur, nóvember 01, 2009

Veikindi og hrekkir

Skólaárið byrjaði ekkert voðalega vel hjá Lindsey. Hún hefur verið veik og frá skólabekk í einn eða tvo daga flestar vikur síðan skólinn byrjaði og svo hafa flestir í bekknum hennar og næsta bekk fyrir neðan. Það hefur oft verið bara um helmingur nemenda í bekknum því hinir eru heima veikir með hita, hálsbólgu, ælupest, niðurgang.... Manni langaði til að leggja til að skólinn yrði almennilega sótthreinsaður. En þetta virðist vera að batna núna, sem betur fer.

Í gær var hrekkjavaka og hópur af krökkum kom hingað í pizzu áður en þau fóru út að "hrekkja". Þetta var heljar gaman hjá þeim eins og sjá má á myndunum. Reyndar misti Lindsey af flestum "hrekkjunum" því hún fór í afmælisveislu en það var gaman þar líka.

þriðjudagur, september 08, 2009

3 Mánuðir!

Það er ekkert smá. Komnir meira en þrír mánuðir síðan ég kíkti hingað síðast til að skrifa! Maður hefur eitt of miklum tíma á Fésbókinni.

Krakkarnir byrjuðu í sumarfríinu sínu um endaðan Júlí. Hávar fór strax af stað með vini sínum og fjölskyldu hans til norður hluta Írlands (ekki Norður-Írlands) í viku frí. Það var náttúrulega voða gaman fyrir hann. Þetta fer að verða eins og árlegur viðburður fyrir hann því við fórum öll til Írlands í sumarfrí í fyrra.

Þegar hann kom til baka löguðum við öll af stað í sumarfríið okkar; tvær og hálf vika á Íslandi. Það var æðislega gaman að hitta alla fjölskylduna og marga vini líka.

Ferðin var mjög vel heppnuð og skemmdi ekki fyrir að veðrið var mjög gott. Það voru sérstaklega tveir hápunktar á ferðinni.

Öll fjölskyldan, eða næstum því öll (vantaði bara Hörð, Árnýju og litla strákinn þeirra), fór vestur á firði og tók yfirráð yfir húsinu á Kirkjubóli í Korpudal, þar sem við systkinin ólumst upp fyrir mörgum árum :) Það var frábært að koma þangað aftur eftir allan þennan tíma. Þar var grillað og kveiktur varðeldur með gleðskap og söng fram yfir miðnætti. Svo fór hópur af okkur í siglingu á kajökum um vöðin, krakkarnir fórum að veiða fisk á bát með Alla og ég og Hávar fórum í litla fjallgöngu. Alveg æðislegt!

Hinn hápunkturinn var þegar við Alison og krakkarnir fengum tjaldvagn að láni (takk Bogga) og fórum austur í Skaftafell og gistum þar í tvær nætur. Ég hafði ekki komið þangað áður og það var frábært að ver svona nálægt þessum stórfenglegu fjöllum, jöklum og fossum. Við fórum líka að Jökulsárlóni þar sem við fórum í siglingu um lónið á þessum bíl-bátum. Þetta var stórskemmtileg ferð.

Myndir úr ferðinni okkar til Íslands eru á Fésbókinni minni.

Þegar við komum aftur heim til Englands fórum við Alison í smá helgarferð til Symonds Yat, gistum eina nótt og fórum út að ganga á þessum fallega stað meðfram ánni Wye. Við leigðum okkur líka kanóa og fórum í smá ferð upp og niður ána.

Skólarnir hér í Englandi voru að byrja í þessari viku. Lindsey byrjaði í gær í 6. bekk, sem er síðasti bekkurin sem hún er í "primary school" áður en hún fer í "high school". Hávar byrjaði í 11. bekk í morgun sem er síðasti bekkurinn fyrir hann áður en hann fer í "college" (Iðnskóli/Fjölbrautaskóli) eða "6th form" (Mentaskóli).

miðvikudagur, júní 03, 2009

Hitt og þetta

Fyrir viku fór Hávar með vini sínum til Birmingham á tónleika með Nickleback, sem er uppáhalds grúppan hanns. Ég skutlaði þeim þangað um eftirmiðdaginn svo þeir gætu rölt um og fengið sér að borða áður en tónleikarnir byrjuðu og pabbi vinar hanns sótti þá um kvöldið þegar allt var búið. Þetta var víst ofsalega gaman, sem ég get alveg trúað. Þetta er stórgott band þó ég sé ekki klár í nútímatónlist.

Hávar senti nokkrar myndir af dýrum sem hann hafði tekið í ljósmyndakeppni fyrir skóla sem Oki prentarar stóðu fyrir. Hann vann verðlaun fyrir sinn árgang sem var myndvél fyrir hann og prentari fyrir skólann. Ekki slæmt það. Aðalverðlaunin voru 3 daga ferð á safari til Suður Afríku.

Fyrir rúmri fór Alison í 4 daga frí til Prague með vinkonu sinni. Það var vel heppnað í alla staði og veðrið var gott. Við Alison fórum þangað í Október í fyrra og líkaði vel.

Það er búið að vera svo gott veður uppá síðkastið að það hefur verið tilvalið að elda á BBQ grilli og borða úti í garði en við höfum bara átt gamaldags grill þannig að við ákváðum að splæsa í nýtt gas grill handa okkur. Ég setti það saman í fyrradag og við notuðum það í fyrsta skyfti í gær. Alveg súper, grillaði gammon steikur, pulsur, tómata og sveppi og steikti lauk og spældi egg, allt á grillinu. Það verður gert meira af því að grilla í þessu húsi héðan í frá.

sunnudagur, maí 31, 2009

Þögull maí mánuður

Það hefur verið þögn í bloggheimum hjá mér þennan mánuðinn en það hefur ekki verið með öllu tíðindalaust.

Hávar hefur verið í prófum og gengið bara vel. Hann hefur líka verið í starfskynningu á tveimur stöðum, eina viku á hvorum stað. Fyrst var hann hjá OCM sem sér um að viðhalda tölvukerfum fyrir ýmis fyrirtæki og hann ferðaðist með þeim til viðskiptavina þeirra til að setja up tölvur og lagfæra þegar eitthvað hætti að virka. Honum fannst bara gaman af því. Seinni vikuna var hann að vinna hjá "Youth Afloat" sem hefur klúbba fyrir krakka til að kenna þeim að sigla á seglbátum og kæjökum á vatninu hér í Redditch, og hjólreiðaferðir í nágrenninu. Honum fannst alveg ofsalega gaman þar og þeir voru ánægðir með hann og buðu honum að aðstoða meira í sumar, sem hann ætlar að gera.

Lindsey hefur verið að suða um að fá gæludýr en við erum ekki mikið fyrir það. Við hittum vinkonu hennar (og mömmu hennar líka) um daginn og þau áttu "stick insect" sem voru búin að fjölga sér og vildu gefa henni. Við létum undan því það er ekki mikið sem þarf að hafa fyrir þessum dýrum. Hún er komin með búr með fjórum litlum kvikinudum og hún er alveg í skýjunum.

Vorið, og það sem af er sumri, hefur verið mjög gott. Margir góðir dagar. Síðasta vinnuvika var stutt. Það var frídagur á mánudaginn og svo hafði ég frí á fimmtudaginn og föstudaginn. Veðrið hefur verið alveg frábært, sól og hiti og svotil blankalogn. Þó að það sé gott að hafa svona fínt veður er það aðeins of gott til að vera að vinna úti í garði. En það þarf að gera þessa hluti. Við vorum búin að henda garð-skúrnum sem var fyrir aftan bílskúrinn, því hann var farinn að fúna og við ætlum að fá annan stærri í staðinn en það hefur verið smá vandamál með vatnsleka inn í bílskúrinn þegar það rignir mikið því jarðvegurinn er vel uppfyrir vatnsmörk. Ég varð að grafa frá veggnum og halda jarðveginum frá með hellum og svo þarf að stækka planið fyrir garð-skúrinn. Stóri rósarunninn sem var þarna líka varð að hverfa. Svo höfum við líka verið að fúaverja timbur, róluna hennar Lindseyar og rimlarirðingin við inganginn í garðinn.

Ég verð feginn því að vinnuvikan er að byrja á morgun. Ég þarf að slappa aðeins af eftir svona erfiðisvinnu í þessum hita.

föstudagur, maí 01, 2009

Afturábak

Við gerum margt afturábak í þessu húsi.

Um dagin þreif ég gluggana að utan, því þeir voru orðnir dálítið skítugir, og bögraðist með þungan stigann í kringum húsið. Þetta er venjulega ekki í sögur færandi en við vorum búin að panta verkamenn til að setja upp nýja panel-girðingu í hringum garðblettinn okkar og þeir hringdu stuttu seinna og vildu fara að byrja á verkefninu, sem þeir gerðu eftir helgina. En auðvitað urðu þeir að saga steypta staurana og millibita og við það varð mikið ryk sem settist á nýþvegna gluggana.

Þegar nýja girðingin var komin upp, skínandi falleg, datt okkur í hug að þrífa patíóið. Það var orðið svolítið mosavaxið. Við fengum háþrýstidælu að láni frá nágranna okkar og við Alison, aðalega Alison, stóðum í þessu í tvo daga. Patíóið okkar er orðið eins og nýtt en girðingin varð gerð dálítið drullug.

Eins og ég sagði, við gerum margt afturábak.

laugardagur, apríl 11, 2009

Cornwall

Við erum komin í páskafrí; við, systir Alison og fjölskylda hennar og Ron afi líka.

Þetta er útsýnið yfir fjöruna þar sem við gistum í Cornwall. Þorpið heitir Mawgan Porth og bara fáein hús. Við fórum í gönguferð í morgun til Watergate Bay þar sem er svaka stór fjara.

Veðrið hefur verið mjög gott, sól og blíða.

föstudagur, mars 27, 2009

Mikið að gera

Það var mikið að gera hjá okkur á síðustu helgi:

Á laugardaginn fórum við Alison á góðgerðarball sem fyrirtækið sem hún vinnur hjá stóð fyrir. Það var verið að safna fyrir "Warwickshire & Northamptonshire Air Ambulance" og þeir buðu þangað viðskiptavinum og fólki úr fyrirtækjum sem þeir vinna með. Alison var þarna að "vinn" þar sem hún átti að sjá um að fólkið á borðinu okkar. En þett var svo sem eingin vinna, bara gaman.

Á sunnudaginn fórum við öll til Birmingham og skoðuðum "Back-to-Backs" húsin sem eru varðveitt frá því um 1800 þegar iðnaðarbyltingin var í fullum gangi og það varð að byggja mikið af ódýrum húsum fyrir allan mannskapinn sem flykktist til borgarinnar. Svo var farið á sýningu með Cirque du Soleil sem var voðalega gaman. Þessi dagur var hluti af afmælisgjöf til krakkana.

Lindsey átti svo afmæli á mánudaginn en það verðu ekki fyrr en á sunnudaginn kemur að hún býður vinkonum sínum í partý. Við ætlum að taka þær til "SnowDome" og láta þær leika sér í innanhús snjóbrekkunni þar. Ætti að vera gaman fyrir þær.

laugardagur, mars 21, 2009

Er vorið komið?

Síðustu daga/vikur hefur verið voðalega fallegt veður og trén eru komin í fullann blóma. Ég meira að segja sló blettinn í gær.

fimmtudagur, mars 19, 2009

Á Fésbókinni

Það eru bara fáeinar vikur síðan ég kom Alison fyrir á Fésbókinni og núna er hún þar flesta daga. Eins gott að ég á auka tölvu fyrir hana annars fengi ég ekki að sjá mína.

Þessi auka talva er gamla vinnutölvan mín. Krakkarnir hafa verið að nota hana en einhvernveginn tókst þeim að fá einhvern vírus á hana þannig að allt hætti að virka. Mig hefur lengi langað til að hafa tölvu með Linux kerfi í staðin fyrir Windows þannig að þetta var gullið tækifæri til að prufa. Ég er búinn að hlaða Ubuntu Linux og líkar vel og það á að vera ómögulegt að fá vírusa á Linux.

sunnudagur, mars 15, 2009

Fallegar Malvern hæðir


Við ákváðum að nota góða veðrið í dag og fórum út að ganga um Malvern hæðirnar.

laugardagur, mars 14, 2009

Glasgow ferð

Ég skrapp til Glasgow á fimmtudaginn og kom aftur heim í gær. Tíminn líður svo hratt að það tók mig smá tíma til að fatta að það var í 2007 þegar ég var þar síðast og hitti mömmu þar. Það er eins og það var bara síðasta sumar. Þetta var bara stutt ferð og enginn tími til að skoða sig um, bara vinna. Þegar ég var lentur í Birmingham fór ég og hitti Alison í Solihull þar sem við skruppum á Tapas bar til að borða á meðan Hávar var í bíói með vinum. Lindsey var á "sleep-over" hjá vinkonu sinni.

Það eru einhverjar þrengingar hjá fyrirtækinu sem ég vinn hjá þessa dagana. Ég var að frétta að það er búið að gera einhverjum hóp af fólki viðvörun um að það muni missa vinnuna. Þetta kom svolítið á óvænt því það hefur verið mikið að gera hjá mér og þeim sem ég vinn með en það þarf náttúrulega ekki að vera sama saga allstaðar annarstaðar. Einn af þeim sem er að fara er franskur vinnufélagi og vinur sem ég hef unnið með nokkrum sinnum síðastliðin ár. Þetta eru harðir tímar.

Hávar hélt uppá 15 ára afmælið sitt á síðustu helgi. Einn daginn hafði hann nokkra vini í heimsókn til að spila tölvuleiki, borða pizzur og horfa á bíómyndir. Við Alison og Lindsey skruppum í staðin í heimsókn til vina svo stákarnir höfðu húsið fyrir sjálfa sig. Og annan daginn fór hann með öðrum vinum í bíó og Pizza Hut. Gaman hjá honum.

Það kemur svo að Lindsey á næstu helgi þegar hún á afmæli.


mánudagur, mars 02, 2009

Internet Cafe


Ég hjálpaði Alison að koma sér fyrir á Fésbókinni um daginn því hún á vini sem ég er viss um að hún hefði gaman að hafa samband við á þennan hátt.

Hún var frekar treg til að byrja með en eins og þið sjáið á myndinni eru dömurnar mínar komnar með yfirráð yfir tölvunum og húsið okkar er eins og hvert annað Internet Cafe.

mánudagur, febrúar 23, 2009

Hálfannarfrí í Torquay

Það var hálfannarfrí í skólanum hjá krökkunum í síðustu viku og við skelltum okkur til Torquay í suður Englandi. Við fengum þetta fína veður flesta daga þó að það suddaði aðeins á okkur.

Við ætluðum að fara þangað á mánudagsmorgun en við fengum óvænt boð um að gista hjá vinum í Chard á sunnudagsnóttina þannig að við pökkuðum í skyndi fórum af stað á seinnipartinn á sunnudeginum. Á mánudeginum rúntuðum við til Sidmouth á leiðinni til Torquay. Vinir okkar frá Chard komu með okkur og gistu á hótelinu í eina nótt. Við skruppum til Paignton Zoo á þriðjudaginn sem var gaman og það sem eftir var vikunar fórum við meðal annars til Brixham, Dartmouth, Totnes, og Buckfastleigh.

Myndirnar í blog-færslunum hér á undan sendi ég úr símanum mínum meðan við vorum í fríinu.

Í morgun fóru krakkarnir svo aftur í skólann og ég til Bracknell í vinnuna.

föstudagur, febrúar 20, 2009

Höfnin í Torquay


Vikunni okkar í Torquay er að ljúka í svaka góðu veðri.

Torquay


Falleg spegilmynd í höfninni í Torquay.

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Á hestbaki


Gott að eiga stórann bróður þegar fæturnir eru þreyttir.

föstudagur, febrúar 06, 2009

...og enn snjóar

Það er ekkert lát á snjónum. Það snjóar á hverjum degi og þó að það sé ekkert svakalega mikið er það nóg til að raska öllu.

Skólarnir hafa margir verið lokaðir og fólk unnið heima ef það er hægt. Skólinn hanns Hávars lokaði á þriðjudaginn og fimmtudaginn en var opinn í morgun. Skólinn hennar Lindseyar var opinn á þriðjudaginn (sem hún var ekki ánægð með) en lokaði svo í gær og er enn lokaður. Hún fór í heimsókn til vinkonu sinnar í morgun og myndin að ofan er frá því þegar ég tók hana þangað. Trén verða alltaf svo falleg þegar það snjóar.

Ég var að vinna að heiman á mánudaginn og þriðjudaginn en hef verið heima síðan. Það hefur ekki tekið því að leggja í langar ferðir vegna þess að það tekur svo langan tíma og svo er stórhættulegt að vera úti að keyra á "sumardekkjunum".

mánudagur, febrúar 02, 2009

Snjór



Það snjóaði aðeins á Bretlandseyjum í síðustu nótt. Það var smá grá föl heima í morgun þegar ég lagði af stað í vinnuna en það var aðeins meira þegar sunnar dró og það endaði með umferðaröngþveiti.

Það hélt svo áfram að snjóa og spáin er köld næstu daga.

Þetta finst krökkunum náttúrulega stórfínt því það þar ekki nema smá snjó til að skólum er lokað og börnin send heim. Þau fóru bæði í skólann í morgun en Hávar var sendur heim um miðjan daginn. Lindsey varð að sitja út skóladaginn en það lítur út fyrir að þau verði bæði heima á morgun.

föstudagur, janúar 09, 2009

Undir mistilteini

Þarna fundu gömlu hjónin mistiltein og nýttu sér tækifærið, þó að það þurfi ekki mistiltein til þess.

Á tali

Litla daman er komin í samkeppni við móður sína um hvor þeirra hefur aðalnotin af símanum.

Það verður áhugavert að fylgjast með þessu þegar fram líður.

mánudagur, janúar 05, 2009

Nýtt ár

Þá eru jólin búin og nýja árið byrjað.

Jólin voru mjög róleg hjá okkur. Að venju opnuðum við jólgjafir frá Íslandi á Aðfangadagskvöld og ég sendi ykkur kærar þakkir fyrir þær. Hérna má sjá krakkana í þessum líka fínu lopapeysum og með húfur og vettlinga. Þetta hefur komið sér mjög vel því það er búið að vera frekar kalt um jólin og nýárið.

Á Jóladag og annann í jólum fórum við í mat til systur Alison. Við skiptumst venjulega á um að sjá um jólamatinn og það var komið að okkur að slappa af.

Eitt af því sem ég fékk í jólagjöf frá Alison var Íslenskt hangikjöt og niðursoðnar baunir. Þessu tókst henni að smygla til landsins og við elduðum gómgætið á milli hátíðanna og átum hressilega. Sérstaklega ég og Hávar.

Það var oft sofið út en við fórum líka oft út að ganga í góða, kalda veðrinu. Venjulega eru nokkrir sígaunar sem gista í nágrenni okkar um hver áramót og hér erum við að gefa hestunum þeirra epli sem þeim fannst náttúrulega voða góð.

Núna er hversdagsleikinn byrjaður aftur. Krakkarnir byrjuðu í skólanum í dag og ég fór í vinnuna.