fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Fleyri hljóðfæri

Lindsey er nokkuð góð á blokkflautunni sinni, getur spilað nokkur lítil lög og hefur gaman af. Kennarinn sem kennir henni tónlist fékk hana til að prufa alvöru flautu fyrir nokkrum vikum og Lindsey varð ofslega spennt og vildi endilega fá flautu sjálf. Við vildum ekki kaupa flautu strax því þær geta verið nokkuð dýrar, þannig að við tókum eina á leigu. Hún er búin að hafa hana í fáeinar vikur og reynir á hverjum degi en hún á dálítið erfitt með að fá úr henni almennilegt hljóð. Hún er trúlega of stór fyrir hana. Það er hægt að fá flautur sem eru bognar og því auðveldari fyrir stutta handleggi en við sjáum til.

Um daginn fór hún í heimsókn til vinkonu sinnar sem er að læra á fiðlu, og þegar ég sótti hana hélt hún "tónleika" fyrri mig. Á eftur sagði hún að hún vildi frekar læra á fiðlu því það var miklu auðveldara að ná úr henni hljóði heldur en flautunni.

Aaarrrgh...

mánudagur, nóvember 27, 2006

Leyndarmálið er upplýst

Við höfum haldið Íslandsförinni leyndri frá börnunum hingað til en það var farið að vera alltof mikið um að við Alison glöprum einhverju út úr okkur um "þegar við förum til Íslands" eða eitthvað "um jólin". Og það verður alltaf erfiðara að koma með útskýringar sem halda vatni. Í gærkvöldi ákváðum við að segja þeim frá leyndarmálinu og Alison skrifaði nokkrar gátur á sneppla sem við földum út um allt hús. Krakkarnir urðu svo að finna sneplana og ráða gáturnar. Síðasta gátan var sundurklippt setning sem las "Við förum til Íslands yfir jólin" (eða eitthvað á þá leið) þegar rétt var raðað saman.

Krakkarnir eru alveg himinlifandi og geta ekki beðið. Hávar gat ekki sofið í nótt því hann var svo spenntur.

23. Des 2006 - 2 Jan 2007 - Sjáumst þá !!

Við fórum til Stratford-upon-Avon í gær og þar eru komnar jólaskreytingar upp um allan bæ. Við sáum líka nokkur íbúðarhús þar sem jólaljósin voru komin útí glugga. Mér hefur alltaf verið illa við hvað þetta byrjar alltaf snemma en ætli maður verði ekki að vera snemma í þessu sjálfur þetta árið, annars er það ekki þess virði að setja neitt upp, við verðum ekki hérna til að njóta þess.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Manchester

Ég er búinn að vera í Manchester alla þessa vikuna en ég ætla að fara heim í kvöld og vinna heima á morgun. Og í næstu viku ætla ég að reyna að vinna heima á miðvikudaginn, það ætti að brjóta vikuna upp þannig að ég þarf aðeins að gista hér tvær nætur í staðin fyrir þrjár eða fjórar. Þetta er voðalega einmanalegt líf að lifa á hótelum.

Það tók mig smá tíma að finna hótelið á mánudaginn. Ég var búinn að athuga á internetinu með leiðina þangað en einhvernveginn tókst mér að taka vitlausa götu til að byrja með og endaði inn í miðbæ. Ég fann leið út og í áttina að hótelinu en misti af svo gatnamótunum og lenti á hraðbrautinni til Liverpool. En mér tókst að snúa við og fann hótelið á endanum.

Veðrið hefur ekki verið nógu gott þessa vikuna til að fara að skoða miðbæinn og það er líka orðið dimmt þegar maður hættir að vinna og það er ekki hægt að sjá mikið í myrkrinu. Hótelið sem ég hef verið á þessa vikuna er aðeins fyrir utan miðbæinn í iðnaðarhverfi og þar er ekkert athygglisvert að sjá. Nema hvað það er útsýni yfir Manchester og það sem grípur helst augun er þessi svaka háa bygging sem er víst hæsta íbúðablokk í Englandi (og jafnvel Evrópu) og hæsta bygging í Englandi fyrir utan London. Það er Hilton Hotels skillti á henni og þeir eru með 285 lúxus herbergi en það eru víst íbúðir líka. Og svo á að vera bar á efstu hæðinni. Turninnn er dálítið skrýtinn í laginu, sverari að ofan en að neðan þannig að maður býst við að hann eigi eftir að detta yfirum ef það gustar. Turninn heitir Beetham Tower.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Nýtt verkefni

Þá er maður kominn til Manchester aftur. Ég kláraði verkefnið í Bracknell á föstudaginn var en einhverra hluta vegna gátu þeir ekki farið "live" á helginni (ekki það sem ég var að vinna að). Vonandi lagfæra þeir það í þessari viku.

Þetta byrjar rólega hér hjá Thus. Ég er bara að lesa gamlar skrár og gögn til að undibúa mig . Ég er reyndar ekki búinn að fá það á hreint hvað það er sem ég á að gera en það kemur allt í ljós.


Ég tók krakkana í innanhúss klifur á helginni. Lindsey fer þangað í afmælisveislu í vikunni og okkur langaði bara að prufa þetta og athuga hvort hún hefði gaman af því.

Auðvitað hafði hún gaman af því !!

Við tókum líka einn af vinum Hávars með til að hafa ofan af fyrir honum, því ég varð að fylgjast með litlu dömunni.

laugardagur, nóvember 18, 2006

Gönguferð yfir Malvern

Hávar fór snemma í morgun með nokkrum félögum úr skátunum í gönguferð yfir Malvern hæðirnar. Hann var útbúinn með bakpoka og nesti og skemmti sér voðalega vel. Þegar hann kom heim klukkan fimm hafði hann bara smá tíma til að fá sér að borða og svo fór hann í afmælisveislu hjá einhverri stelpu úr bekknum hanns. Hann var að koma heim rétt í þessu og er orðinn ansi þreyttur. Það er búið að vera mikið að gera hjá gaurnum í dag.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Þeysingur

Það er búinn að vera þeysingur á mér síðustu daganna.

Verkefnið sem ég hef verið að vinna að í Bracknell átti að vera búið síðasta fimmtudag og næsta verkefnið, sem er með THUS í Manchester, byrjaði á föstudaginn. An á mánudaginn varð ég að fara aftur til Bracknell til að hjálpa þeim aðeins og svo ætlaði ég að byrja á fullu í Manchester í gær. Fór þangað og var búinn að panta hótel fyrir næstu 3 nætur en þá komu upp einhver vandræði í Bracknell. Ég varð að afpanta hótelið, fara heim og svo til Bracknell snemma í mogun. Planið var að fara aftur til Manchester á morgun en það hefur breyst og ég verð að vera hérna á morgun líka þannig að ég ætla að gista hér. Svo er planið að fara aftur til Manchester á föstudaginn.

Þetta er endalaus þeysingur og umferðin er ekkert til að grínast með :-)

mánudagur, nóvember 13, 2006

Einelti

Lindsey hefur ekki skemmt sér voðalega mikið í skólanum síðustu vikurnar. Nokkrar stelpur í bekknum hennar hafa lagt hana í dálítið einelti, komið inn á milli vina hennar og útilokað hana frá leikjum. Hún var hætt að vilja fara í skólan á morgnanna og kom oft grátandi heim.

Við Alison fórum og töluðum við skólastjórann og hann talaði svo við Lindsey og bekkinn en það virtist ekki hafa nein áhrif. Við reyndum svo að kenna Lindsey að svara fyrir sig og vera ekkert smeyk við þessar stelpur og þar virðist hafa virkað. Hún er miklu ánæðari núna, kemur stolt heim og segir okkur frá hvernig hún hafði svarað fyrir sig þegar stelpurnar hafi angrað hana, og gerir það nógu hátt svo að kennarinn og allir hinir krakkarnir heyri líka. Þá verða þær skömmustulegar og hætta.

Flott hjá henni !

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Donald Rumsfeld

Þegar fréttir komu af því að Donald Rumsfeld hafði sagt af sér mundi ég eftir hanns frægu spakmælum:

"There are known knowns.
These are things we know that we know.
There are known unkowns.
That is to say, there are things we know we don't know.
But, there are also unknown unknowns.
These are things we don't know we don't know."
Muniði eftir þessu rugli hanns? George Bush hefur líka komið frá sér svipað gáfulegum "spakmælum".
"Most of our imports come from outside the country."
"It's not pollution that is damaging our little ones' health
it's the impurities in our air and water"
Kíkiði bara á Google til að finna fleyri.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Eldhúsinnrétting

Það er kominn tími á eldhúsið hjá okkur. Uppþvottavélin gaf upp öndina fyrir nokkrum vikum, ísskápurinn er orðinn gamall, slitinn og alltof lítill og þvottavélin er háöldruð líka. Það þarf líka að endurnýja skápana þannig að við erum að spá í að endurnýa allt í eldhúsinu og endurhanna útlitið líka.

En það stoppar ekki þar.

Brennarinn fyrir gaskyndinguna er í eldhúsinu og við viljum færa hann inn í skáp á efri hæðinni til að gefa okkur meira pláss í eldhúsinu en til að gera það þarf nýjar gas og vatnslagnir.

Rafmagnstaflan í húsinu er gamaldags með víraöryggjum í staðin fyrir rofa og við þurfum að endurnýja hana á sama tíma og lagt verður í eldhúsið.

Og svo þarf að ákveða hvaða tæki fara í eldhúsið, hvar þau eigi að vera, velja innréttingu og hönnun á henni, velja flísar á gólfið og veggina, o.s.f.v.

Þetta á eftir að verða heljar verkefni.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Glaumbær

Í gærkvöldi fórum við Alison með vinum okkar Alison og Gerry til Birmingham. Alison á afmæli daginn á undar mér og við gerum oft eitthvað saman um þetta leiti til að halda uppá afmælisdaginn okkar. Við fórum á The Glee Club sem er staður þar sem brandarakarlar fara á kostum. Við fengum okkur að borða þar og svo var mikið hlegið á eftir. Þetta var voða gamam.

Í kvöld er bonfire night og það eru brennur hingað og þangað og mikið um flugelda og sprenginar. Veðrið er frábært fyrir svoleiðis hluti en við ætlum bara að halda okkur heimavið og horfa á dýrðina út um gluggan.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Enn eitt ár...

Þá er maður orðin enn einu árinu eldri. Lindsey litla söng "happy birthday to you" fyrir mig í símann í morgun sem var gaman. Ég ætlaði að vinna heima í dag en planið breyttist og ég varð að gista í Bracknell og er hér í dag líka en vonandi kemst ég heim á góðum tíma því við ætlum út að borða í kvöld og Ron tengdapabbi líka. Morgunmaturinn á hótelinu í morgun var góður og þeir höfðu meira að segja skotskan Haggis á boðstólum sem er svipaður og lifrapylsa, bara betri. Mmmm.

Fyrsta næturfrost vetrarinns var í gærmorgun og svo aftur í morgun og ég varð að skafa frostið af bílnum áður en ég lagði af stað í vinnuna. En það er gullfallegt úti, heiðskírt og stillt.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Hrekkjavaka

Í gær var hrekkjavaka og það var dálítið um heimsóknir frá litlum djöflum og nornum sem voru eftir nammi.

Lindsey fékk vinkonu sína í heimsókn eftir skólann og þær bökuðu kökur með Alison. Um kvöldið fóru þær klæddar í búningum í heimsóknir til nokkura vina. Lindsey var svartur köttur og vinkonan var norn. Voða gaman.

Hávar er auðvitað orðinn alltof gamall til að standa í svona barnalátum en hann lét sig hafa það að fara aðeins út með félögum sínum þegar þeir bönkuðu uppá hjá okkur í sínum búningum. Það er alltaf gaman að fá nammi!