mánudagur, október 30, 2006

Sýningarhelgi

Það var mikið að gera hjá Alison þessa helgina. Johnsons Coaches (þar sem hún vinnur) hafa árlega sýningu í skólanum hanns Hávars í Henley til að kynna nýja ferðabæklinginn sinn. Það kemur hellingur af fólki til að panta ferðir og til að fá sér te bolla og kökur. Hávar fór og aðstoðaði við sýninguna á laugardaginn, sá til að allt stafsfólkið hafði nóg að drekka borða. Hann stóð sig ofsalega vel og allir hældu honum mikið. Á sunnudaginn fór Alison svo aftur í vinnuna til að vinna úr pöntununum sem höfðu verið teknar.

Þegar hún kom heim fórum við í hjólreiðatúr niður að vatninu. Veðrið var voðalega gott og það lá við að það hafi verið vor í lofti. Hitinn 15-17 stig og við sáum meira að segja stóra drekaflugu á sveimi.

Nú er breski sumartíminn búinn og búið að seinka klukkunni þannig að tíminn hér hjá okkur er sá sami og á Íslandi. Morgnarnir verða bjartari en það skyggir fyrr.

laugardagur, október 28, 2006

Ítalía

Það er heldur farið að hitna í kolunum fyrir Íslandsferðina okkar yfir jólin og það er farið að plana samkomur. Við systkynin mín, systrabörnin hennar mömmu og makar ætlum öll að fara til Ítalíu á milli hátíðana. Þetta er veitingastaðurinn Ítalía, ekki landið við Miðjarðahafið sem lítur út eins og stígvél. Þetta verður gaman, við höfum ekki hist svona öll saman síðan ég man ekki hvernær. Var það ekki á ættarmóti á suðurlandi fyrir mörgum (6?) árum?

Við Alison erum orðin voðalega spennt en krakkarnir vita ekkert um Íslandsferðina ennþá. Það verður gama að sjá á þeim andlitin þegar við segjum þeim frá því.

föstudagur, október 27, 2006

Ákvörðun

Takk fyrir tilmælin frá ykkur, Bogga og Helga. Ég er búinn að taka tilboðinu um launahækkun og hafna verkefninu í Hatfield. Það gerði ákvörðunina auðveldari að fá launahækkunina því það hefði ekki verið gaman að gista alla daga á hótelum og geta ekki séð fjölskylduna. Núna get ég bara tekið því rólega við að leita að réttu verkefni á réttum stað.

fimmtudagur, október 26, 2006

Hvað á ég að gera?

Síðustu vikurnar hef ég verið að sækja um ýmis störf sem sjálsfstæður ráðgjafi og hef heyrt frá mörgum atvinnuskrifstofum en yfirleitt hefur það kælt á þeim þegar ég skýri út fyrir þeim að ég sé ekki búinn að segja upp störfum, heldur sé ég að bíða eftir starfi sem getur beðið í 4 vikur, sem er uppsagnartíminn hjá mér. Ég vill nefnilega spila þetta öruggt og ekki fara í neinar ógötur. En fyrr í þessari viku kom eitt starf upp sem er möguleiki en vandamálið við það er að það er í Hatfield sem er bær fyrir norðan London. Það tekur alltof langan tíma til að fara þangað með lest (margar skyftingar) og umferðin á götunum gerir það ógerlegt að keyra þangað á hverjum degi (meira en 3 tímar hvora leið), þannig að ég yrði að gista þar sem er auka kostnaður. En þetta er gott starf og góð laun.

Ég fór og spjallaði við yfirmann minn og útskýrði fyrir henni hvað ég var að plana en hún vildi að ég biði aðeins með þetta meðan hún athugaði hvort hún gæti komið með annað tilboð frá CACI. Daginn eftir kom hún með tilboð með launahækkun uppá 33%. Það er ekki auðvelt að fúlsa við svona tilboði þannig að ég er í vandræðum með að ákveða hvort ég ætti að stoppa þar sem ég er eða takast á við nýtt starf.

Hvað á ég að gera?

Ég verð að ferðast við það sem ég er að gera en það eru alltaf dagar inn á milli þegar sem ég get unnið heima. Ég þekki líka alla sem ég er að vinna með og þetta er ágætis lið. Vandamálið er að það er ekkert alltof mikið um stór verkefni eins og er.

Hitt starfið er gott og verkefnið er stórt en það verður endalaust hótellíf. Launin væru aðeins betri en þó ekkert alltof mikið.

sunnudagur, október 22, 2006

Conkers

Lindsey fékk eina af vinkonum sínum (Katie) í heimsókn í gær . Við fórum með þær í göngutúr í grend við Packwood House og söfnuðum "conkers" hnetum. Katie er mikil útivista stelpa og hefur gaman að svoleiðis hlutum. Hún er líka svolítið slysagjörn. Það var einn lítill pollur á stóru túni og hún vildi vaða í hann í stígvélunum sínum en pollurinn var aðeins of djúpur, vel uppfyrir hné, þannig að hún varð heldur blaut og drullug. En þær höfðu mikið gaman þessu. Hún svaf hjá okkur um nóttina og fór heim í morgun.

Hávar er komin heim eftir ævintýraferð um skipaskurðina í nágreninu. Blautur en ánægður - það er búið að haugrigna í allan dag. Þeir fóru í gegn um 17 skipastiga, sem er erfiðisvinna, og urðu svo að fara sömu leið til baka.

fimmtudagur, október 19, 2006

Nú er það svart...

Svakalega var morgunhimininn svartur þegar ég lagði af stað í vinnuna í morgun. Ég legg venjulega af stað um 6:30 (þegar ég vinn í og við London) og það hefur verjulega verið stutt í morgunroðann, en í morgun var skýað að suddi og kolniðamyrkur. Sem betur fer á það ekki eftir að gerast mikið lengur því breski sumartíminn breytist á síðasta sunnudegi í octóber og fer þá aftur um einn tíma (sami tími og á Íslandi). Bjartari morgnar en dimmri kvöld.

Hávar fer í annann leiðangur með skátunum á helginni. Þeir ætla að fara í siglingu um skipaskurði hérna í grendinni. Þeir gista á bátnum í þrjár nætur og svo verða þeir að koma sér í gegnum heilmargar skipaliftur (locks). Ætti að vera ævintýri fyrir þá.

Annars eru krakkarnir í hálfannar-fríi frá skólanum alla næstu viku.

laugardagur, október 14, 2006

Tom Jones

Við Alison vorum að koma heim af tónleikum með Tom Jones í kvöld. Það voru ódýrir miðar að ganga þar sem Alison er að vinna því þau höfðu ekki náð að selja þá alla. Hún fékk fjóra miða og við fórum með vinafólki okkar. Þetta var ágætis skemmtum þó að þetta er ekki mússík sem höðvar sérstaklega til mín. Hann hefur ennþá góða rödd karlinn og hann svitnar alveg ofsalega. Skyrtan hanns var alveg rennandi blaut af svita þegar hann fór úr jakkanum, og ég meina rennandi blaut. Hann söng blöndu af gömlum og nýjum lögum (gömlu lögin eru mikið betri) en það var sama hvað hann söng, hann fékk alltaf jafn góðar móttökur frá kvennþjóðinni.

miðvikudagur, október 11, 2006

Dýrt hótel

Ég gat hvergi fundið hótel í Bracknell í gær, þar sem ég er að vinna, en á endanum fann ég herbergi á Holiday Inn í Maidenhead. En það var ekkert smá dýrt, £180 fyrir eitt lítið herbergi sem var alveg ágætt en þó ekkert frábært. Ég er vanur að gista á stöðum sem kosta minna en helming af þessu og þá er morgunmatur oft innifalinn og herbergið yfirleitt stærra. Ekki vildi ég borða kvöldmatinn í þessu okurhúsi svo ég fór í göngutúr inn í miðbæinn og fékk mér góða steik. Morgunmaturinn kostaði mig svo heil £11 en það verður að segjast að hann var góður og ég átt svo mikið að ég á ekki að þurfa að borða aftur fyrr en seint í kvöld.

sunnudagur, október 08, 2006

16 ár

Í gær voru 16 ár liðin frá því við Alison giftum okkur í litlu kirkjunni í Holti. Það munaði littlu að við gleymdum þessu sjálf; það var komið fram á miðjan dag þegar við mundum eftir því. En við höfum alltaf annað tækifæri til að halda uppá dagin þann 10. nóvember þegar við vorum blessuð í kirkju hér á Englandi.

fimmtudagur, október 05, 2006

Patrol Leader

Hávar er búinn að hækka í tign hjá skátunum og er orðin "Patrol Leader" sem þýðir að hann er einhverskonar foringi yfir nokkrum strákum í sínum hóp en það eru 3 hópar í skátagrúppunni hanns. Hann er náttúrulega voðalega ánægður með þetta og það kom honum líka nokkuð á óvart. Hann var nýbúinn að skyfta um grúppu, bara búinn að vera þar í fáeinar vikur, og var ekkert að búast við að fá titil. Ég er ekki alveg viss um hvað fylgir þessum titli en hann verður víst að draga fánann upp og niður þegar þeir hittast og segja einhverjar skipanir. Ég er viss um að hann á eftir að standa sig vel.

Hér er farið að kólna og við erum nýfarin að kynda upp í kotinu á kvöldin. Suma daga (eins og í dag) er hálf nöturlegt útivið, kuldagjóla og suddi, en aðra daga er getur verið alveg yndælt. Fyrr í vikunni var heiðskýrt og sól og heitt undir suðurveggnum þar sem ég er að vinna og mér var hugsað til Kirkjubóls og suðurveggjarinns þar. Við krakkarnir fórum þar stundum í sólbað og fannst nokkuð heitt en þegar það var gengið fyrir hornið á húsinu og maður stóð í hafgjólunni þá varð manni hálf kalt. Þetta var einmitt svona hérna, heitt undir suðurveggnum en kul í golunni handan við hornið.

miðvikudagur, október 04, 2006

Blokkflautusnillingur

Lindsey er að læra að spila á blokkflautu í skólanum. Við höfum átt flautu síðan Hávar var lítill og Lindsey hefur verið að blása í hana öðru hverju en þetta hljómaði alltaf eins og einhver væri að kyrkja kött. Til að ná nótum úr flautunni söng hún eða purraði og blés á sama tíma. Hræðileg óhljóð. En núna, eftir að hafa farið í nokkra kennslutíma, er hún orðin nokkuð góð (allavega mikið betri). Hún spilar einföld barnalög úr nótnabókinni sinni og heldur tónleika fyrir okkur.

Hún á líka eldgamalt orgel sem amma hennar átti þegar hún var lítil og gaf henni. Það er með rafmagnsmótor sem blæs lofti fyrir nóturnar. Hún hefur verið að stauta sig við að spila á það líka. Við verðum endilega að kaupa almennilegt hljóðfæri fyrir hana þar sem hún er farin að sýna sig sem smá "snillingur".

Mikið er annars gaman hvað þið eruð orðin dugleg við að kommentera hjá mér. Þetta er allt annað líf. Ég er ekki vanur því að fólk lesi þetta bull hjá mér.

mánudagur, október 02, 2006

Blautir skátar

Hávar kom heim úr útilegunni með skátunum í gær, skemmti sér víst rosalega vel og hafði margar sögur að segja. Þeir fengu ágætisveður á laugardaginn en það var ansi blautt á sunnudaginn, aðalega seinnipartinn. Það rigndi svo hart þegar ég var að sækja hann að fólk varð að stoppa á götunum því það var ekki hægt að sjá neitt og þegar keyrt var undir trjám ringdi líka yfir mann akornum og littlum greinum. Vegirnir urðu eins og ár og bílarnir eins og bátar. Þetta var skrítin þrumuskúr því það stytti up og sólin fór að skýna og himininn var blár í eina mínútu áður en þetta byrjaði allt aftur.

Lindsey fékk vinkonu sína í heimsókn á laugardaginn fram á sunnudag og við fórum með hana í sund.