laugardagur, mars 31, 2007

Páskafrí

Þá erum við búin að pakka flestu í bílinn og leggjum af stað í fyrramálið til Cornwall í páskafrí, í tvær vikur. Ég sendi kanski einhverjar myndir hingað á blogginn úr símanum.

Gleðilega Páska!

Hasar

Fyrir fáeinum vikum, þegar Alison var í helgarreisu með vinnunni, vorum við Lindsey heima að taka til þegar við heyrðum þennan mikla hávaða fyrir utan. Við litum út um alla glugga en gátum ekki séð neitt. Það var ekki fyrr en við fórum út að við sáum að það var lögregluþyrla svotil fyrir ofan okkur. Þarna hékk hún í rúman hálftíma og ég tók þessa mynd af henni en ég vissi aldrei hver ástæðan var fyrir þessu.

Í fyrradag fór Alison út að borða með vinkonum sínum og þá frétti hún af því sem gerðist. Það voru víst einhverjir strákar, um 15 ára gamlir, í byssuleik og voru að elta hvorn annan á milli húsana og trjánna og einhver hafði hringt í lögregluna og haldið að þeir væru að þessu með alvöru byssur. Þyrlan var þarna til að fylgjast með en svo voru vopnaðir lögreglumenn sendir á staðin. Strákarnir voru náttúrlega handteknir á staðnum, eða svoleiðis. Ég veit ekki alveg hvernig þetta endaði en strákarnir eru komnir á glæpamannaskrá fyrir leik sinn.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Glasgow

Ég gisti á voða fínu Thistle hóteli í gær. Ég kom mér fyrir og fór svo í labbitúr um bæinn. Glasgow er mikið flottari en ég var að búast við. Þeir sem ég hafði spurt sögðu að það væri ekkert varið í borgina, full af glæpamönnum og húsum í niðurníðslu. Það er eflaust eitthvað um svoleiðis lagað en ég var bara hrifinn af miðbænum. Ég ætlaði bara í stuttan labbitúr en það var alltaf eitthvað sem ég vildi skoða lengra í burtu. Gömul og stórfalleg hús, járnbrautastöðvar, Town Hall, listasöfn og endalausar verslunargötur. Það voru reyndar allar búðir lokaðar eða að loka en það var gaman að skoða byggingarnar og göturnar. Og vegna þess að Breski sumartíminn (GMT+1) byrjaði á sunnudaginn er bjartara á kvöldin.

Síðustu vikurnar hefur Hávar verið mjög slæmur í maganum og hefur tekið nokkra daga frá skólanum og við höfum stundum orðið að sækja hann heim um miðjan daginn. Í síðustu viku tók Alison hann enn einu sinni til læknisins sem stakk upp á að hætta að gefa honum brauð í smá tíma til að athuga hvort hann væri með ofnæmi fyrir hveiti. En Alison vildi gera betur en það og tók hann algerlega af öllu sem inniheldur hveiti eða gluten í matnum sem hann borðar og hann hætti að kvarta um magaverk strax daginn eftir. Við ætlum að halda þessu áfram í nokkra daga til að vera viss og gefa honum svo smátt og smátt hitt og þetta með hveiti og athuga hvort verkurinn kemur aftur (eða ekki).

mánudagur, mars 26, 2007

Glasgow


Dr. Who er mættur à stadinn.

Glasgow


War Memorial

Glasgow


Town Hall

Afmælispartí

Afmælispartíið hennar Lindsey var á laugardaginn. Við fórum með 9 vinkonur hennar í lítið leikhús í Birmingham þar sem var verið að sýna "Litlu Hafmeyjuna". Það var auðvitað voða gaman. Alison hringdi á undan okkur og lét leikhúsið vita af afmælisbarninu og á einum stað var atriði þar sem komið var með afmælisköku handa hafmeyjunni og það var sungið "Happy birthday dear Lindsey" í staðin fyrir "Ariel". Það vakti mikla lukku hjá stelpunum. Þegar leikritið var búið fengu þær að fara baksviðs, spjalla við leikarana og skoða græjurnar. Um kvöldið komu Chris, systir Alison, og fjölskylda hennar ásamt Ron pabba hennar í mat.

Ég flaug til Glasgow snemma í morgun. Það átti að setja upp hugbúnað en þegar ég kom á skrifstofuna þá komu skilaboð frá öðru fyrirtæki sem ætlaði að sjá um uppsetninguna að þeir gætu ekki komið. Viðskiftavinurinn er náttúrulega ekkert alltof ánægður með þetta en það er ekkert sem ég get gert. Ég ætla að gista hérna í eina nótt og fara svo heim á morgun. Kanski maður rölti aðeins um og kíki á miðbæinn.

föstudagur, mars 23, 2007

Afmælisbarn

Lindsey á afmæli í dag, orðin 8 ára gömul.

Auðvitað vaknaði hún snemma því hún var svo spent, allir þessir pakkar! Hún var voða ánægð með sitt og fór glöð í skólann með nammi til að gefa krökkunum.

Það var foreldrakvöld í gær og það var ekkert nema gott að frétta af því hvernig henni gengur við námið. Það eina sem við þurftum að koma á framfæri var að hún skilar ekki alltaf af sér heimaverkefnunum, þau gleymast og sitja bara í skólatöskunni. Það virðist vera að hún gleymi að skila af sér á réttum tíma og er eitthvað smeyk við að gera það daginn eftir. En það er búið að lagfæra það og hún veit núna að hún getur skilað af sér verkefnum þó að það sé aðeins of seint.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Severn Bore

Ég var að lesa grein um "The Severn Bore" í blaði yfir morgunkaffinu áðan og datt í hug að deila fróðleik með ykkur.

Áin Severn er ein af þeim stærri í Bretlandi og ármynnið er sérstaklega stórt og það er ástæðan fyrir því að þar er næstmesti munur á milli flóðs og fjöru í heiminum, um 14.5 metrar. Þegar það flæðir að gengur flóðbylgja upp ánna. Nokkrum sinnum á ári eru flóðin sérstaklega stór og þá getur bylgjan orðið meira en 2 metra há. Það var víst ein svoleiðis á helginni og þá fóru brimbrettagarpar á staðinn til að spreita sig. Heimsmet í lengsta brimbrettabruni var set á þessari á fyrir nokkrum árum þó að það hafi verið betrumbætt síðan.

miðvikudagur, mars 21, 2007

Í næstu viku...

Ég ætla að skreppa til Glasgow í nokkra daga í næstu viku. Höfuðstöðvar “Thus” (fyrirtækið sem ég er að vinna fyrir) eru þar. Það á að setja up nýjan hugbúnað og ég ætla að fylgjast með og kanski læra eitthvað (??).

Vikuna þar á eftir förum við fjölskyldan til Cornwall í páskafríið okkar. Heilar tvær vikur og engin vinna! Það verður frábært, vonum bara að veðrið verði gott.

sunnudagur, mars 18, 2007

Helgarfrí

Alison, Lindsey og ég ákváðum með stuttum fyrirvara að skella okkur í smá helgarreisu í gær. Við pöntuðum okkur hótel í Telford klukkan tvö og lögðum af stað stuttu seinna. Ég safna punktum þegar ég gisti í með vinnunni og fæ ókeypis gistingu á Holiday Inn þegar ég er komin með nógu mikið af punktum. Þegar við komum til Telford ætluðum við í Wonderland, sem er barnagarður við hliðina á hótelinu, en hann var þá að loka þannig að við fórum á leikvöll og svo þaðan í verslunarmiðstöð í grendinni.

Þegar við nálguðumst búðirnar sáum við þrjár stelpur sem voru að rífast og þegar við gengum framhjá þeim fóru þær að slást og stuttu seinna voru tvær þeirra farnar að sparka í þá þriðju sem lá þá á jörðinni. Ég fór í að stía þeim í sundur því þær voru að sparka í höfuðið á þeirri sem lá. Það var hellingur af fólki í kring en enginn kom til að hjálpa þó að Alison væri að kalla til þeirra og biðja þau að að skoða. Þetta tókst á endanum og við tókum stelpuna inn í búð þar sem hún gat jafnað sig. Þetta fór illa í hana Lindsey litlu að sjá svona slagsmál og hún vildi bara fara á hótelið. Það er alveg ótrúlegt að fólk bara stendur hjá og horfir á þegar svonalagað skeður.

Á hótelinu fórum við í sund sem var gaman, og svo fengum við okkur að borða.

Í dag fórum við svo í Wonderland. Sumarið er ekki alveg byrjað þannig að það voru ekki margir þar en það var samt gaman.

Hávar kom til baka seinni partinn í dag eftir góða ferð til Dovedale. Það voru 14 skátahópar sem byrjuðu gönguna en aðeins tveir kláruðu og hópurinn hans Hávars var einn af þeim. Hinir villtust eða fundu ekki stöðvarnar sem þeir áttu að finna. Flott hjá Hávari. Við erum svaka stolt af drengnum.

laugardagur, mars 17, 2007

Dovedale

Hávar lagði af stað í gærkvöldi í helgarferð til Dovedale með skátunum. Þeir verða þar fram á sunnudag. Í dag eru þeir að ganga 10 mílur með bakpoka og græjur og engin fullorðin með þeim, bara chekpoint aðra hverja mílu. Þeir verða að lesa á kort og finna leiðina sjálfir. Á sunnudaginn verður bara slappað af áður en lagt verður af stað heim.

Hann er mikið betri í maganum en þó ekki alveg nógu góður en vonandi verður hann í lagi. Þeir sem stjórna þessu vita af því og segja að ef hann treystir sér ekki til að klára þá verði það allt í lagi.

Þarna á myndinni er hann með bakpokann sinn, tilbúinn að leggja í hann.

föstudagur, mars 16, 2007

Red Nose Day

Í dag er Red Nose Day. Hann er einu sinni á ári og þá er safnað peningum fyrir góðgerðastarfsemi. Þetta eru brandarakarlar Bretlands sem standa að þessu, Comic Relief.

Krakkarnir fara í skólann án þess að vera í skólabúningi og klæðast einhverju rauðu. Voða gaman hjá þeim.

Hérna er Lindsey á leiðinni í skólann.

fimmtudagur, mars 15, 2007

Ónæðisöm nótt

Ég hafði frekar ónæðisama nágrana á hótelinu í síðustu nótt. Þeir voru fullir og voru að rífast eitthvað um penginga og svo spörkuðu þeir og lömdu í húsgögn og veggi. Ég hringdi niður á skiftiborð og þeir komu upp tvisvar til að byðja þá um að taka því rólega. Á endanum fóru þeir að sofa en þá var klukkan orðin hálf þrjú. Þetta er er óvenjulegt því hingað til hefur ekkert gerst á meðan ég er þar.

Allir nota Google, er það ekki? Vitið þið af Google Calculator? Hann er innbyggður inn í Google og þegar spurt er stærðfræðilegrar spurningar eins og "123*456" eða "6 foot 2 inches in cm" þá kemur Google Calculator með svarið. En það eru víst líka nokkrir brandarar byggðir inn, eins og þegar spurt er: "the answer to life the universe and everything", þá er svarið 42.

Ég get varla beðið eftir afmælinu mínu, þá fæ ég öllu svarað!

miðvikudagur, mars 14, 2007

Ný talva

Ég fékk nýja tölvu fyrir vinnuna á föstudaginn í síðustu viku. Það var svo sem ekkert að þeirri gömlu, sæmilega kraftmikil og allt það en skjárinn fór ekki hærra en 1024*768 sem er ekkert ef maður notar flókinn hugbúnað með helling af gluggum og listum og þess háttar. Sú nýja er aðeins kraftmeiri og skjárinn er bjartur, skarpur og fer upp í 1400*1050, allt annað líf. En það tekur smá tíma að millifæra allan hugbúnaðinn sem maður notar frá degi til dags. Ég dundaði aðeins við það á helginni og svo er ég í Manchester þessa vikuna og ætti að klára þetta. Ég sit hérna uppá hótelherbergi og er að reyna að ganga frá þeirri gömlu því hún á að fara til London á morgun með Demo kerfi en það er að gera mig vitlausan. Ekkert virðist vika.... Argh!

Annars rakst ég á svolítið sniðugt pluggin fyrir Firefox vafarann minn; Íslenska orðabók sem ritskoðar það sem ég er að skrifa. Það ætti að vera minna um ritvillur hjá mér þegar ég er að blogga en það stoppar mig ekki frá því að skrifa rugl og vitleysu.

Verð að fara að sofa. Bæ!

laugardagur, mars 10, 2007

Ooops!

Fréttamynd 423092Það getur verið erfitt að leggja bílnum stundum eins og tvær ungar dömur komust að á Skólavörðustígnum, en hvernig fóru þær að þessu? Ekki getur verið að þær hafi verið að bakka í rólegheitunum, það hefur þurft einhverja smá ferð að komast svona uppá tréð.

Nýir símar

Ég var að fá nýjan síma (Sony Ericsson K610i) og ég get tekið myndir og send þær beint upp á blogginn minn. Frábært!

Það verður örugglega meira um myndir hérna í framtíðinni. Kanski ekki mikið um texta nema þegar ég get bætt við hann á netinu; ég er voðalega hægfara við að skrifa SMS.

Hávar fékk líka nýjan síma (Motorola L6) í afmælisgjöf og er voða ánægður með hann, aðalega vegna þess að hann er með Bluetooth, sem er það sem allir vinir hanns eru með.

Alison ætlar svo að fá gamla símann hanns Hávars því hennar sími er ekkert spes, og svo eigum við eitt auka SIM kort sem við getum notað í hann fyrir Lindsey að leika sér með.

föstudagur, mars 09, 2007

Konan er farin

Þá er konan mín farin frá mér. Hún pakkaði því helsta niður í ferðatösku og fór snemma í morgun.

Þetta er kanski ekki eins alvarlegt og það hljómar, hún er bara í helgarreisu með nokkrum vinnufélögum til suðurhluta Englands og Isle of Wight. Þetta er árlegur viðburður hjá þeim. Þau fara hingað og þangað, skoða hótel og bæji svo þau viti af reynslunni hvernig hótelin sem þau eru að senda kúnnana á eru. Í kvöld er hún í Isle of Wight og hefur það fínt.

Hávar hefur ekki verið heilsuhraustur þessa vikuna. Hann hefur verið með mikin verk í maganum og við höfum orðið að sækja hann úr skólanum og í dag fór hann ekki í skólann. Ég tók hann til læknisins en hann heldur að þetta sé bara harðlífi. Vonandi er það ekkert alvarlegra en það. Annars átti drengurinn afmæli í gær, orðinn táningur, 13 ára. Ekkert skemmtilegt að vera illa haldinn á afmælisdaginn sinn...

Í dag var annar gullfallegur dagur og heiðskýrt. Ég varPublish að vinna heima en varð að skreppa til Coventry í smá tíma. Á leiðinni þangað tók ég eftir því hvað það er mikil óhemja af rusli meðfram götunum. Á Íslandi fýkur svonalagað á haf út en hérna festist það í trjám og runnum og sýnir sig sérstaklega þegar veðrið er svona gott. Bæjarfélögin ættu að senda herlið af fólki til að hreinsa til áður en það fer að grænka af ráði því þá hverfur allt ruslið þangað til í haust.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Snemmkomið vor

Ég var að lesa dagblað yfir morgunkaffinu áðan og þar var grein um að sumir íkornar hérna í Englandi eru farnir að eiga unga núna (veðrið hefur verið frekar milt) heilum mánuði of snemma. Broddgeltirnir eru líka farnir að vakna þó ekki sé mikið fyrir þá að éta. Þeir borða aðalega snigla og þessháttar góðgæti sem sést ekki enþá þannig að sumir eru farnir að taka þá inn og gefa þeim að borða.

Þetta er svakalegt!

sunnudagur, mars 04, 2007

Tunglmyrkvi

Sáuð þið tunglmyrkvan í gærkvöldi? Við fórum út með vinum í leikhús að horfa og hlusta á fólk syngja lög úr söngleikjum. Það var alveg ágætt en samt ekki eins gott og við vorum að búast við. Á leiðinni heim var myrkvinn að byrja og þegar við komum heim var hann svo til alger. Ég reyndi að taka mynd af tunglinu og hér er útkoman. Kanski ekkert voðalega skýr en samt ágæt.

laugardagur, mars 03, 2007

World Book Day

Á fimmtudaginn var "World Book Day" og Lindsey fór í skólann klædd í Jasmine búninginn sinn (þetta er Jasmine prinsessa úr Aladin). Allir krakkarnir í skólanum komu klæddir sem söguhetja úr einhverri sögu og það voru hellingur af Öskubuskum og Þyrnirósum, Sjóræningjum og Sætabrauðsdrengjum. Ég sá líka Jóa sem hafði baunagrasið með sér og ein af Ljótu Systrunum var þarna líka. Þetta er árlegur viðburður hjá þeim og allir hafa gaman af. Venjulega tekur það smá tíma fyrir hana að vakna á morgnana og koma sér í fötin en á svona dögum eru hún komin upp fyrir allar aldir og komin í fötin. Ekkert svona gaman hjá Hávari, bara venjulegur dagur.

Ron tengdapabbi er búinn að tengjast internetinu með ADSL, hátæknikarlinn. Hann fór og keypti sér nýja tölvu með Window Vista og stórum flötum skjá og svo ADSL tengingu á netið. Hann hafði haft gamla tölvu með litlum CRT skjá og módem en hann er farinn að sjá svo illa að hann gat ekki notað hana af viti. Ég er ekki búin að sjá herlegheitin en hann er ánægður með græjurnar.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Hvað er RSS?

Helga frænka spyr: Hvað er RSS?

RSS er skammstöfun fyrir Really Simple Syndication. Þetta og eru XML skrár sem eru notaðar til að gefa út lista af fréttum eða bloggum Þessir listar eru svo lesnir af RSS lesurum sem geta verið hugbúnaður á tölvunni eða vefsíður á netinu.

Ég nota RSS til að fylgjast með bloggsíðum og fréttum af Mogganum, BBC og svoleiðis. Ég er búinn að prufa nokkra en sá sem mér líkar best við er NetVibes. Til að fylgjast með bloggum eða fréttum verður þú að gerast áskrifandi af RSS listanum. Hann er best fundið með því að leita af RSS merkinu sem er oftast þar sem addressan af vefsíðunni er á vafaranum en stundum er merkið einhverstaðar á síðunni.

Til dæmis er RSS-ið fyrir bloggin minn: http://ingvarbjarnason.blogspot.com/feeds/posts/default

RSS gerir það mikið auðveldara að fylgjast með bloggsíðum og svoleiðis. Ég er alltaf með NetVibes opið og kíki á reglulega ef eitthvað nýtt hefur bæst við.