sunnudagur, mars 18, 2007

Helgarfrí

Alison, Lindsey og ég ákváðum með stuttum fyrirvara að skella okkur í smá helgarreisu í gær. Við pöntuðum okkur hótel í Telford klukkan tvö og lögðum af stað stuttu seinna. Ég safna punktum þegar ég gisti í með vinnunni og fæ ókeypis gistingu á Holiday Inn þegar ég er komin með nógu mikið af punktum. Þegar við komum til Telford ætluðum við í Wonderland, sem er barnagarður við hliðina á hótelinu, en hann var þá að loka þannig að við fórum á leikvöll og svo þaðan í verslunarmiðstöð í grendinni.

Þegar við nálguðumst búðirnar sáum við þrjár stelpur sem voru að rífast og þegar við gengum framhjá þeim fóru þær að slást og stuttu seinna voru tvær þeirra farnar að sparka í þá þriðju sem lá þá á jörðinni. Ég fór í að stía þeim í sundur því þær voru að sparka í höfuðið á þeirri sem lá. Það var hellingur af fólki í kring en enginn kom til að hjálpa þó að Alison væri að kalla til þeirra og biðja þau að að skoða. Þetta tókst á endanum og við tókum stelpuna inn í búð þar sem hún gat jafnað sig. Þetta fór illa í hana Lindsey litlu að sjá svona slagsmál og hún vildi bara fara á hótelið. Það er alveg ótrúlegt að fólk bara stendur hjá og horfir á þegar svonalagað skeður.

Á hótelinu fórum við í sund sem var gaman, og svo fengum við okkur að borða.

Í dag fórum við svo í Wonderland. Sumarið er ekki alveg byrjað þannig að það voru ekki margir þar en það var samt gaman.

Hávar kom til baka seinni partinn í dag eftir góða ferð til Dovedale. Það voru 14 skátahópar sem byrjuðu gönguna en aðeins tveir kláruðu og hópurinn hans Hávars var einn af þeim. Hinir villtust eða fundu ekki stöðvarnar sem þeir áttu að finna. Flott hjá Hávari. Við erum svaka stolt af drengnum.

1 ummæli:

  1. Ja hérna, þetta hefur verið hasarhelgi hjá ykkur heyrist mér!
    Já það er alveg ótrúlegt hvernig fólk getur aðgerðalaust horft upp á hræðilega hluti gerast. Kannski er að einhverjum hluta hægt að kenna því um að fólk er vant því að sitja í sófanum og horfa aðgerðalaust á alls konar hluti í sjónvarpinu. Þess vegna bregst það við með aðgerðarleysi og heldur sig við áhorfandahlutverkið þegar svona gerist í raun og veru :(
    Flott hjá Hávari að komast á leiðarenda með skátahópnum sínum, duglegur strákurinn :)
    Bið að heilsa hinum,
    knús og kremjur - Bogga -

    SvaraEyða

Skildu eftir skilaboð handa mér...