sunnudagur, desember 23, 2007

Jólaörtröð

Þá eru Jólin alveg að koma.

Við Alison fórum út að versla aðeins í jólamatinn í morgun og hvílík örtröð. Það var svona líka svaka löng biðröð af bílum fyrir utan Tesco, því bílastæðin voru öll full. Við snérum við og fórum til Morrisons í staðin. Það var svosem ekkert betra þar en biðröðin inn á bílastæðin var ekki eins löng.

Inni í búðinni voru allir að berjast um að fá grænmeti og annað ferskt og inkaupakerrurnar voru að rekast saman út um allt. Alison var stressuð til að byrja með en mér fanst þetta allt voða fyndið og á endanum vorum við farin að hlæja að öllu saman. Gaman að fylgjast með fólkinu.

Í gærkvöldi fórum við til vina í mat, pöntuðum kínverskt "take-away" og höfðum það gott.

Í dag ætlum við líka að taka því rólega. Ég var að raka upp laufum í garðinum og fyllti fjóra stóra svarta ruslapoka sem ég verð að fara með uppí "Sorpu" . Svo erum við að spá í að fara í bíó. Annars fóru Alison og krakkarnir í bíó í gær. Alison, Lindsey og vinkona hennar fóru á Enchanted sem þeim fannst voða gaman af en Hávar fór með vini sínum á The Golden Compass.

Blogged with Flock

mánudagur, desember 17, 2007

Beyglaður bíll

Ég lenti í smá óhappi með bílinn minn á helginni.

Ég skrapp með Lindsey inn í bæ til að versla aðeins fyrir jólin og lagði bílum í bílastæði. Ég bakkaði inn í stæði, eins og ég geri venjulega, en svo fattaði ég að stæðið var bara fyrir fatlaða þannig að ég fór áfram í stæði fyrir framan mig.

Þegar við vorum búin að versla og vorum að fara heim athugaði ég ekki að það var stálbiti (þakstoð) við hliðina á bílnum. Ég byrjaði að beygja of snemma og skellti bílnum í bitann og beyglaði farþegahurðina og braut spegilinn af.

Árans óheppni, en það er ekkert við það að gera. Maður borgar víst tryggingafélögunum fyrir að sjá um svona lagað og engin þörf á að hafa áhyggjur yfir neinu.

Við lentum við í smá vandræðum með jólakalkúninn á helginni. Hann var í gamla frystinum í bílskúrnum og þegar ég skrapp þangað með eitthvað annað sá ég að allt var þar hálffrosið.

Frystirinn hafði gefið sig. Það var eins gott að þetta uppgötvaðist ekki á jóladag.

Það var ekkert annað að gera en skutlast út í búð og kaupa annan og til að láta ekkert fara til spillis elduðum við þann sem var farinn að þiðna og borðuðum í gær. Ron tengdapabbi og Lynn vinkona Alison komu í mat því það var nóg af kjötinu.

Jólatréð var skreytt fyrir viku og jólastemmingin er aðeins farin að láta sjá sig þó að anddyrið sé óklárt.

Blogged with Flock

þriðjudagur, desember 11, 2007

Hörður og Árný

Við fengum frekar óvænta heimsókn á helginni.  Hörður bróðir hafði samband við mig um miðja síðustu viku.  Hann og Árný voru á leið til London í helgarreisu og ætluðu að kíkja á okkur.

Við vorum í algeru drasli.  Nýbúið að múra veggina en ekki búið að ganga frá neinu en það varð bara að hafa það.

Þau komu svo til okkar á laugardaginn en því miður var veðrið frekar leiðinlegt (blautt) þannig að það var ekkert hægt að fara með þau út að keyra eða að ganga.  Og við vorum frekar upptekin við að skutla Hávari hingað og þangað en við fórum með þau inn í bæ að versla og svo fórum við út að borða um kvöldið. 

Þau fóru svo aftur til London á sunnudagsmorgun. 

Takk fyrir komuna!

Þetta sem Hávar var að þeysast í var fyrst ferð með vinum í The Snowdome í Tamworth og svo í partý með leikhúshópnum.

Blogged with Flock

þriðjudagur, desember 04, 2007

Crowded House

Við Alison fórum á Crowded House tónleika með nágrönnum okkar, Bob og Yvonne á mánudagskvöldið. Þetta voru alveg stórgóðir tónleikar og við skemmtum okkur vel. Yvonne er frá Nýja Sjálandi eins og hljómsveitin.

Þeir byrjuðu á að spila lög af nýju plötunni sinni en það sem allir voru að bíða eftir voru þessi gömlu góðu sem komu á endanum og þeir voru klappaðir upp aftur og aftur.

Frábær skemmtun.

Blogged with Flock

föstudagur, nóvember 30, 2007

Önnur vika liðin

Við erum búin að vera að bíða eftir verkmönnum til að klára andirið, stigann og holið og í gær kom múrarinn. Hann ætlaði að byrja hjá okkur um miðjan desember en það losnaði eitthvað til hjá honum. Hann kom semsagt í gær og rústaði öllu, braut af múrhúð sem var farin að springa og fyllti aftur í holurnar. Svo setti hann nýjar gifsplötur í loftið. Hann ætlaði að koma í dag og halda áfram en gat það ekki því frændi hanns dó í nótt.

Vonandi kemur hann á morgun því við erum í algeru drasli.

Alison er úti að skemmta sér með vinkonum sínum úr vinnunni í kvöld á meðan ég er að sálast í hálsinum og bakinu. Ég er búinn að vera vinna heima þrjá daga á viku sem er frábært en aðstaðan er ekki svo góð. Það er ekkert þægilegt að sitja við borstofuborðið í borðstofustól að pikka á tölvuna. Ég verð að finna mér betri stól.

I Flock

Ég er annars að prufa nýjan browser þessa dagana sem heitir Flock. Ég hef notað Firefox hingað til en það hefur alltaf verið vandamál með hvað hann notar mikið minni. Flock er Firefox í nýjum umbúðum með skemmtilegar nýjungar og hann notar ekki eins mikið minni. Ég sé á blogginum hennar Boggu að hún er farin að nota Flock líka.

Blogged with Flock

mánudagur, nóvember 26, 2007

Tattoo og Thanksgiving

Á laugardaginn fórum við með Guðrúnu og Magnúsi á Birmingham International Tattoo sem er sýning lúðrasveita hjá hernum og annað skilt. Ron tengdapabbi fór á þetta um árið og fanst mikið gaman af þannig að Alison langaði að skella sér líka.

Eitthvað var þetta öðruvísi en við bjuggumst við. Ekki slæmt bara ekki eins flott og við höfðum ímyndað okkur. Kanski var það vegna þess að salurinn í NIA er svo stór. Inn á milli voru önnur atriði eins og fallbyssukeppni, hunda "flyball", fimleikar, og diskódanshópur. Ég er ekki alveg viss hvað sumt af þessu á við herinn.

Skemmtilegustu hljómsveitirnar komu frá Belarus og Ítalíu.

Belarus var í hermannalegum fötum og svo kom söngvari inn með þeim sem leit út eins og hershöfðingi. En hljóðneminn virkaði ekki almennilega fyrir hann og fyrsta lagið söng hann án þess að nokkuð heyrðist í honum (það átti að vera "Volga, Volga"). Ég var alveg eins að búast við því að hann myndi draga upp byssuna sína og skjóta á liðið fyrir að vanvirða hann svona. Og það var ekki betra á síðasta atriðinu þegar allar hjómsveitirnar komu saman, þá komu tvær sópransöngkonur og byrjuðu að syngja með hershöfðingjanum og hvað haldiði: hljóðneminn hanns virkaði ekki í þetta skifti heldur.

Ítalirnir voru fyndnir. Þeir hafa fáránlega hatta, með heilmiklum fjaðrakúf, og þeir gengu ekki um eins og hinar hjómsveitirnar heldur hlupu þeir útum allt með trompetana sína.

Svo voru auðvitað Skotarnir þarna með sekkjapípurnar sínar.

Ég efast um að við förum aftur á næsta ári. Það er best að prufa eitthvað annað.

Á sunnudaginn fórum við í heimsókn til Bob og Yvonne. Þau áttu heima í USA í einhver ár og þau héldu uppá Thanksgiving (í USA var það á fimmtudag en það gekk betur upp á helginni í UK). Það var gaman og mikið af góðum mat.

Blogged with Flock

mánudagur, nóvember 19, 2007

Fyrsti snjór vetrarins

Klukkan hálf tíu í gærkvöldi kom Lindsey hlaupandi niður (hún átti að vera farin að sofa) og lét okkur vita með miklum hávaða að það væri farið að snjóa, og mikið rétt, úti fyrir var þessi fallega drífa og flestallt hulið hvítu.

Hún var svo spennt að hún gat varla farið að sofa aftur.

Það var búið að vera ískalt allan daginn og eilíf rigning sem svo varð að þessari fallegu snjókomu.

En dýrðin var ekki langlíf.

Klukkutíma seinna var farið að rigna aftur og þegar við fórum á fætur í morgun var allt horfið.

Snjómyndir á BBC

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Eighties Night

Við Alison áttum 17 ára brúðkaupsafmæli á laugardaginn síðasta.

Reyndar eigum við tvö slík á hverju ári, það fyrra 7. Október þegar við giftum okkur í Holti og það seinna 10. Nóvember þegar við létum blessa okkur hér í Englandi.

Það er kanski eins gott, því við gleymum venjulega því fyrra og rétt munum eftir því seinna. Þetta minnisleysi ágerist með aldrinum :)

En á laugardaginn fórum við út með nokkrum vinum á "Eighties Night", þar sem við fengum okkur að borða og svo var svona diskó á eftir þar sem var spiluð tónlist frá þegar við vorum unglingar.

Með öðrum orðum, tónlist frá áttunda áratugi síðustu aldar.

Það hljómar eins og það sé voðalega langt síðan - á síðustu öld...

En tónlistin var ekki alveg við allra hæfi. Ég man til dæmis ekki eftir því að öll tónlist frá þessum áratugi hafi verið með Duran Duran og Erasure. Það var örugglega eitthvað annað spilað inn á milli. Og það voru örugglega einhverjar grúppur sem sem höfðu alvöru trommara í staðin fyrir trommuheila á lyklaborðinu.

En það var svosem ekki tónlistin sem maður fór þangað til að skemmta sér við heldur félagskapurinn: Guðrún og Magnús, Bob og Yvonne og Sue og Richard. Takk fyrir kvöldið. Það var heppni að barinn var svotil hljóðeinangraður.

Sue og Richard gistu hjá okkur yfir nóttina því þau búa fyrir norðan Birmingham.


laugardagur, nóvember 03, 2007

Einu ári eldri (eða kanski ekki)

Venjulega yrði ég einu ári eldri á þessum degi en ég er búin að lifa í þeirri trú og vissu að ég varð 42 á síðasta afmælisdegi mínum þannig að í dag er ég 42 ára - aftur!

Já, ég veit, ég kann ekki að reikna en ég hugsaði bara aldrei út í það. En það er ágætt að að vera á sama ári aftur. Tíminn líður svo hratt að það gæti gerst að það hægði aðeins á hlutunum.

Hér er búið að vera þetta fína haustveður, milt og fallegt. Haustlitirnir eru mála landið í grænum, gulum, rauðum og brúnum litum.

Við fórum í leikhús í gær til að sjá Hávar á sviði. Það var mjög gaman. Fyrsta sýningin var í fyrradag og sú síðasta í dag. Reyndar verða þær tvær í dag, ein seinnipartin og önnur í kvöld. Hér er mynd af honum með andlitsmálninguna í gærkvöldi.

Lindsey er með vinkonu úr skólanum í heimsókn. Hún fór með okkur á sýninguna og gisti nóttina. Núna eru þær að dansa eitthvað sem þær hafa lært í dansskólanum.

Hrekkjavakan var um daginn og við Lindsey skárum út pumpkin í tilefni dagsins.


föstudagur, október 26, 2007

Hálfannarfrí

Eins og minntist á síðast hafa krakkarnir verið í hálfannarfríi frá skólanum þessa vikuna og það hefur lent á Alison að þeysast með þau út og suður.

Lindsey fór á námskeið í dansi í nokkra daga (sem hún hefur gert áður) og Hávar hefur verið önnum kafinn við að æfa fyrir leikritið sem hann er í.

Á meðan hef ég verið í Manchester á kafi í vinnu. Ég ætlaði að koma heim á miðvikudaginn en það var bara svo mikið að gerast að ég komst ekki heim fyrr en seint í gærkveldi. Í dag er ég að vinna heima en hér er tómt hús. Hávar er einhverstaðar úti með félögum sínum og Alison tók Lindsey og nokkra vini hennar í bíó.

Það er aldrei stoppað.

mánudagur, október 22, 2007

Slæm íþróttavika

Þetta er búin að vera slæm vika fyrir Breska íþróttamenn. Fyrst töpuðu þeir fyrir Rússum í fótbolta, á laugardaginn létu þeir í lægra haldi fyrir Suður Afríku í rúgbý, og svo fór agalega fyrir Lewis Hamilton á sunnudaginn þegar hann náði ekki að verða heimsmeistari í F1.

En ég skemmti mér vel.

Ég fylgist venjulega ekki með íþróttum en ég horfði á England - S-Afríku spila rúgbý og hafði æðislega gaman af. Hávar fylgist aðeins með og hann útskýrði fyrir mér reglurnar og þetta var stórskemmtilegt. Almennilegt mannasport, engar væluskjóður eða leikarar sem þykjast detta, eins og er í Enska fótboltanum.

Í gær, sunnudag, fórum við með Ron tengdapabba til Kinver í göngutúr í fallega haustveðrinu. Þar eru rústir af "hellahúsum" sem var búið í þangað til 1965.

Þegar við komum heim var F1 að byrja og ég horfði á keppnina með Ron. Þetta var fyrsta F1 keppnin sem ég hef séð þetta keppnistímabil og það var gaman að fylgjast með þó að Hamilton hafi ekki unnið.

Krakkarnir eru í hálfannarfríi þessa viku.


mánudagur, október 15, 2007

Flautueigandi

Það er bráðum orðið eitt ár síðan Lindsey byrjaði að spila á þverflautu. Fyrst tókum við eina á leigu í fáeina mánuði því við vildum ekki eyða stórum fúlgum í eitthvað sem hún myndi missa áhugann á. Svo fengum við gamla flautu að láni frá vinkonu Alison, og Lindsey hélt áfram að læra og spilar núna lítil lög. Hún æfir ekki mikið heima en þó svona aðeins og svo fær hún smá kennslu í skólanum, einu sinni í viku.

Á helginni tókum við okkur til og keyptum handa henni splunkunýja þverflautu og hún er svo ánægð með hana. Og það verður að segjast að hún hljómar mikið betur en gamla lánflautan.

Það verður að halda henni við. Hún er sú eina í fjölskyldunni sem spilar á eitthvað hljóðfæri.

Hávar var ekki mikið heima þessa helgina. Einn af vinum hanns úr leiklistarhópnum átti afmæli og hann var þar mestalla helgina. Á meðan héldum við Alison áfram að undirbúa veggina í húsinu. Hún er búin að finna einhverja verkmenn sem geta gert það sem við viljum svo nú er bara að plana hlutina svo þeir geti gerst.

miðvikudagur, október 10, 2007

Tímamót

Þá er sá tími á enda að ég sé sá stærsti í þessari fjölskyldu okkar.

Ég var að mæla Hávar áðan og við erum jafnháir, 188cm (6' 2'' á enskann máta).

Um jólin verður hann orðinn stærri en ég og farinn að líta niður á hann pabba sinn.

þriðjudagur, október 09, 2007

Asni, álfur, bjálfi...

Voðalega var ég vitlaus í gær.

Fór að heiman án þess að taka peningaveskið með mér.

Fattaði ekkert fyrr en ég var komin á hótelið, þar sem ég stóð og gramsaði í vösum og töskum en fann náttúrulega ekkert veski. Sem betur fer veit fólkið á hótelinu hver ég er, eða allavega að ég gisti hjá þeim í hverri viku, þannig að ég fæ að gista og borða.

Á meðan situr veskið á sínum vanastað heima.

mánudagur, október 08, 2007

Hitt og þetta

Hvað, kominn mánudagur aftur? Damm, hvað tíminn líður hratt.

Það var mikið að gera í vinnunni í síðustu viku en ég gat þó farið heim á fimmtudaginn og unnið heima á föstudaginn. Ég hafði meira að segja tíma til að fara með Lindsey til Tanworth og horfa og hlusta á hana og krakkana úr skólanum hennar í "Harvest festival".

Hávar er að æfa nýtt leikrit með leiklistarhópnum sínum. Það heitir "The Magician's Nephew" og er úr "The Chronicles of Narnia". Þetta eru stórfínir krakkar í þessum hóp og hann á marga góða vini þar. Eftir æfingar á föstudagskvöldið var honum boðið hann í afmælisveislu og það var næstum komið miðnætti þegar hann kom heim. Við Alison vorum dauðþreytt eftir daginn, hún var komin í háttinn en ég varð að vaka eftir honum því hann hafði ekki lykla á sér. Þessir krakkar stækka svo fljótt.

Á laugardaginn fór Hávar svo í litla útilegu með skátunum og kom heim seint í gærdag. Alltaf mikið að gera...

... Líka hjá Lindsey. Hún fór líka í afmælispartý á sunnudaginn og þeman var "Pamper party". Það var lagt á henni hárið og andlitið málað. Svaka flott.

En hjá okkur Alison fór sunnudagurinn í að taka veggfóðrið niður í svefnherberginu okkar. Já, við erum næstum búin að rústa holinu stigaganginum og núna svefnherberginu. Og það gengur ekkert hjá okkur að finna fagmenn. Við lifum bara í voninni að það rætist úr því.

Á meðan rústum við húsinu bara meira.

mánudagur, október 01, 2007

DIY

Ég er aftur komin til Manchester. Vonandi verður þetta aðeins styttri vika heldur en sú síðasta og ekki eins "stressuð". Annars lítur þetta allt betur út, gamli hugbúnaðurinn aftur starfshæfur og sá nýi að skríða saman.

Helgin fór í að taka niður gamla veggfóðrið í stigaganginum og þá á ég bara eftir holið uppi og klára það á næstu helgi. Þetta tekur svo mikinn tíma hjá mér að standa í svona DIY - ég gæti aldrei orðið atvinnumaður í þessu.

fimmtudagur, september 27, 2007

Brjáluð vika

Svakalega er ég orðinn þreyttur.

Ég er búinn að vera í Manchester síðan á Mánudaginn og kemst ekki heim fyrr en á morgun. Planið var að fara heim í dag en þetta er búin að vera brjáluð vika, byrjað snemma á morgnanna og hætt seint á kvöldin.

Ég ætlaði að setja upp nýja útgáfu af hugbúnaðinum sem við erum að vinna að þannig að ég var viðbúinn því að vinna mikið en svo hrundi gangnagrunnurinn af á öðrum server og ég varð að koma honum aftur í gang svo hinir strákarnir gætu haldið áfram að vinna. Þetta leit illa út til að byrja með en ég er búinn að koma honum í gang og er næstum búinn að uppfæra nýja hugbúnaðinn.

laugardagur, september 22, 2007

Helgarfrí

Það hefur ekki verið mikið um skriftir hér þessa vikuna. Ég hef verið í Manchester næstum allan tímann og hef verið dálítið stressaður, ef það getur kallast stress þegar ég á í hlut. Það er búið að vera mikið að gera og ekki nógur tími til þess. Og svo er þessi hugbúnaður sem við erum að eiga við ekki nógu samvinnuþíður.

Þegar ég var að taka til í morgun fór ég að róta í kassa með gömlum kasettuspólum frá því í gamla daga. Ég fór að spila þær og það rótaði upp minningum frá því þegar ég var í Reykjavíkinni og bjó hjá ömmu á Hringbrautinni. Ég átti líka margar stundir með Steinari Þorsteinns í litlu kjallaraíbúðinni hanns á Grenimelnum þar sem við spiluðum tónlist á meðan við leystum vandamál heimsins. Það voru skemmtilegir tímar.

En aftur í nútímann. Við Alison tókum okkur til áðan og byrjuðum að rífa niður veggfóðrið og viðardrasl af veggjunum í holinu og stiganum. Við þurfum að láta endursmíða stiga handriðið, skimma yfir veggina og mála þá og leggja nýtt gólf. Þetta á eftir að taka svolítinn tíma, ég er aldrei heima og við erum ekki búin að panta neina verkmenn. En allavega erum við byrjuð á verkinu.

Í kvöld ætlum við svo á "dog racing" með Guðrúnu og Magnúsi (hann á afmæli í dag: Til hamingju með dagin!) og Bob og Yvonne (sem eru nágrannar okkar). Það verður farið út að borða og veðjað aðeins á hundana.

föstudagur, september 14, 2007

Velkomin á Toppinn

Þá er hún Ragnheiður systir mín búin að ná þeim merka áfanga að vera orðin fertug.

Hún gerir mikið af því að klífa fjöll og nú er hún búin að klífa fjall lífsreynslunnar og kominn á toppinn. Sem betur fer er þetta fjall eins og fjöllin fyrir vestan, flöt að ofan, þannig að það er hægt að ganga langa lengi áður en maður þarf að fara niður aftur. Þetta fjall er eins og önnur fjöll, það er hægt að lenda í ógöngum og sjálfheldum og það eru skriður sem geta verið erfiðar yfirferðar. En svo eru líka berjalautir sem er gaman að staldra í og það eru margir staðir á leiðinni þar sem gaman er að stoppa og virða fyrir sér útsýnið en það jafnast ekkert á við það að vera komin upp á toppinn.

Til hamingju með daginn systir góð!

fimmtudagur, september 13, 2007

Dánarfregnir og Jarðarfarir

Við Alison fórum í jarðarför í gær. Tim, faðir Clarire (sem er gömul vinkona Alison) dó fremur óvænt á mánudaginn í síðustu viku. Ég veit ekki ef einhverjir muni eftir Clarie. Hún kom og heimsótti okkur Alison þegar við vorum í Breiðadal.

Tim var ekki trúaður maður en presturinn sem jarðsetti hann þekkti hann vel og hún hafði oft haft samræður við hann um trúarbrögð og pólitík. Athöfnin var því oft skondin þegar hún rifjaði um samræður þeirra þó hún hafi verið dapurleg líka.

Þetta er ekki eina dauðsfallið því fyrrverandi vinnufélagi Alison dó á sama degi og Tim og hún verður jarðsett á morgun.

mánudagur, september 10, 2007

Unglingar á MSN

Krakkarnir byrjuðu í skólanum í síðustu viku og hlutirnir eru að komast í fastbundið form hjá þeim, skóli, skátar, dans, leiklist, o.s.f.v.

Hávar er greinilega árinu eldri og hverfur oft með vinum sínum á kvöldin til að leika sér (eins og maður gerði í gamladaga í Vesturberginu). Svo er hann oft á MSN að spjalla við vini sína og það eru margar spjallrásir í gangi í einu. Margir af þessum MSN vinum hanns eru stelpur sem hann er farinn að hafa mikinn áhuga á, sérstaklega vegna þess að sumir vina hanns eru komnir með "kærustur".

Allt þetta spjall fer fram á sérstöku tungumáli sem er ekki auðvelt fyrir gamla karla eins og mig að skilja:

hey
sup
j/cu
same
wut r u doing 2nite
n2m
cool

Hvað þýðir þetta rugl? Ég varð að tékka á þessu og þýðingin er einhvernvegin svona:
Hey
What's up?
Just Chillin'. You?
Same
What are you doing tonight?
Nothing too much
Cool

Svona gengur þetta fram og til baka.

Gvöð hvað maður er orðinn gamall!

föstudagur, ágúst 31, 2007

Vel heppnað sumarfrí

Þá erum við komin heim úr vel heppnuðu sumarfríi. Reyndar komum við heim á þriðjudaginn en ég fór beint í vinnuna dagin eftir og það hefur verið of mikið að gera við það og að undirbúa krakkana fyrir skólann til að skrifa eitthvað um ferðina á blogginn þar til nú.

Þetta var alveg æðislegt frí þó að það byrjaði aðeins erfiðlega. Fyrst voru einhver vandræði með vegabréfið mitt á flugvellinum í Birmingham. Vandræðin voru eftirnafnið mitt en á vegabréfinu er það bara Bjarnason en allstaðar annarstaðar (ökuskírteini, visakort o.s.f.v.) er það James-Bjarnason. En eftir nokkra bið var okkur sleppt í vélina.

Við millilentum svo í Frankfurt og þar misstum við næstum því af vélinni. Við gerðum okkur ekki grein fyrir því hve flugvöllurinn var stór og á endanum urðum við að hlaupa. Við fengum smá skammir fyrir en seinkuðum þó ekki flugtaki.

Í Vínarborg fórum við til Alamo til að ná í bílaleigubílinn okkar en bíllinn sem við áttum að fá var hvergi að finna. Á endanum fundu þeir Hyundai jeppa sem við gátum fengið fyrir sama verð sem við vorum hæstánægð með.

Eftir allt þetta fór allt batnandi. Við keyrðum til Balaton vatns í Ungverjalandi og vorum í viku nálægt Hevíz. Þar er mikið af heitum laugum sem við fórum oft í. Við fórum líka í siglingu á Balaton vatni, skoðuðum kastala og sáum sviðsetta bardaga miðaldariddara.

Seinni vikuna gistum við á öðrum stað, rétt hjá landamærum Slóvakíu og Króatíu. Við fórum yfir landamærin til að skoða og það er alveg ótrúlegt hvað það er augljóst að maður er í öðru landi þó að landslagið sé það sama. Í Ungverjalandi eru húsin í þorpunum lítil eins hæða hús og ekki mikið um viðhald á þeim en hinumegin við landamærin eru þau á tveimur hæðum með svölum og blómakössum.

Við fórum til Búdapest á þjóðhátíðardaginn þeirra (20. ágúst) og það var allt fullt af skrúðgöngum og herflugvélar flugu yfir. Um kvöldið var svo flugeldasýning þó að það munaði litlu að það yrði að aflýsa henni. Það kom þessi fíni þrumustormur og allir þeir sem voru saman komnir þar sem við vorum (Castle district) voru sendir í burtu því á sama degi á síðasta ári skeði það sama nema hvað stormurinn var verri og fjöldi fólks slasaðist þegar mannfjöldinn byrjaði að hlaupa í skjól og einhverjir dóu líka. En þegar stormurinn var búinn fór flugeldasýningin í gang. Daginn eftir héldum við áfram að skoða borgina og fórum í siglingu á ánni. Okkur fanst mikið gaman af Búdapest og langar til að fara þangað aftur.

Við fórum líka í dagsferð til Graz í Austurríki sem var gaman. Miðborgin er ekkert voða stór og það er auðvelt að ganga um og skoða allt.

Við enduðum fríið á því að fara til Vínarborgar og gistum þar í þrjár nætur. Við vorum ekkert alltof hrifin af Vín þó að byggingarnar séu fallegar. Það var alltof mikið af túristum og hún ilmaði ekkert alltof vel.

Þessvegna tókum við okkur til og keyrðum útúr borginni og til Schneeberg sem er hæsta fjallið í nágrenni Vínar, 2076 metrar. Við tókum sérstaka lest upp í um 1800 metra hæð og svo gengum við afganginn upp á toppinn. Þetta var alveg frábært og útsýnið einstakt. Það var mikið betra að vera í svalanum á toppnum heldur en í hitamollunni í borginni.

Síðasta daginn í Vín fórum við aftur inní borgina og það var ekki alveg eins mikið um túrista og mikið skemmtilegra. Við fórum í skoðunarferð í kerru sem var dregin af tveimur hestum og svo enduðum við kvöldið með því að horfa á hluta af óperu á risastórum skjá fyrir framan ráðhúsið.

Þið verðið að bíða aðeins með að sjá myndirnar því ég verð að velja úr yfir 500 myndum sem ég tók.

mánudagur, ágúst 06, 2007

Loksins...

Þær sálir sem kíkja hingað verða að afsaka hvað ég hef verið latur að skrifa.

Það eru tvær ástæður fyrir því:

Fyrst ástæðan er að það hefur verið mikið að gera í vinnunni. En það er svosem ekkert óvenjulegt, ég er alltaf að þeysast út og suður. Þessa vikuna er það: Kent, Manchester, Glasgow. Og vegna þess að þetta er síðast vikan áður en ég fer í sumarfríið verð ég að sýna hinum strákunum hvernig hlutirnir sem ég hef verið að vinn að, virka.

Hin ástæðan fyrir því hve pennalatur ég er: Breska sumarið er loksins byrjað. Eftir vikur og mánuði hefur hætt að rigna, flóðin hafa sjatnað og almennilegt veður komið í þess stað, með BBQ partíum, picnic ferðum og þessháttar sem er mikið betra heldur en að blogga.

Hávar kom úr vikuferðalagi með skátunum á sunnudaginn. Það var víst voða gaman (auðvitað). Þeir fóru á aðalsvæðið á fimmtudaginn en annars tjölduðu þeir nálægt Alcester þar sem farið var í kæjak ferðir, búnir til tunnuflekar, farið í kappakstur og fleira gaman. Hann er komin með góðan lit því sem betur fer byrjaði sumarið þegar þeir lögðu af stað.

Lindsey hefur haft mikið að gera með mömmu sinni á meðan Hávar var í burtu og þær hafa verið í því að gera skemmtilega hluti. Hún hefur fengið vinkonur í heimsókn og heimsótt aðrar, farið í dýragarð, leikið sér á vatnsrennibrautinni sinni í góða veðrinu og margt annað.

Við erum að vera tilbúin að leggja í sumarfríið okkar. Sem betur fer er aðeins farið að kólna í Ungverjalandi. Það er ekki lengur yfir 4o° heldur um og rétt yfir 30° sem er þolanlegt. Við erum öll svakalega spennt.

sunnudagur, júlí 29, 2007

Litlir sumadagar

Vonandi er þessi rigningatíð að ljúka. Það rignir ekki á hverjum degi og þurru dagarnir eru jafnvel indælir.

Krakkarnir hafa haft mikið að gera í sumarfríinu sínu. Það er svo stutt að það verður að troða eins miklu að og hægt er. Þau hafa farið í bíó, keilu, heimsóknir til vina, o.s.f.v. Í gær var veðrið nógu gott til að fara í vatnsbardaga og það var hópur af krökkum með vatnsbyssur og fötur í götunni hjá okkur. Allir haugblautir. Voða gaman.

Hávar er að undibúa sig til að fara í viku útilegu með skátunum. Það er heill hellingur af skátum samankomnir í Chelmsford í Essex til að halda uppá 100 ára afmæli skátahreyfingunar. Það komast ekki allir að þar en þeir fara samt í útilegu til að halda uppá afmælið. Svo verður farið í dagsferð til Chelmsford á fimmtudaginn. Það verður mikið að gera í þessari útilegu hjá þeim og vonandi verður veðrið gott.

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Eru flóð góð?

Eftir nokkra góða (sæmilega) daga þá er farið að rigna aftur - ooojjj.

Kanski verður maður bara að reyna að líta á góðu hliðarnar.

Það hefur ekki verið vandamál með maura þetta árið. Venjulega er maður á varðbergi og úðar mauraeitri þegar það eru farnar að koma mauraþúfur á milli rifana á hellunum í kringum húsið. Maurar hafa varla sést það sem af er sumri. Það er gott.

Það sama má segja um vespur. Ég man ekki eftir að hafa séð nema fáeinar í vor (og svo þessa tvo risa geitunga sem buðu sjálfum sér inní hús í vor). Það er gott líka.

En svo verður manni hugsað til dýranna sem geta ekki forðað sér undan flóðunum: broddgeltir, moldvörpur, o.s.f.v. Greyið þau.

Nei, þessi flóð eru ekki góð.

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Ofurhiti

Hvað er ég að fara til Ungverjalands þegar það er svona svakalega heitt þar. Ég er ekkert mikið gefinn fyrir ofurhita þó að það sé gott þegar það er vel hlýtt.

Vonandi verður farið að kólna aðeins þegar við förum þangað. Ég er jafnvel að búast við að rigningarnar og flóðin sem við erum orðin vön við, elti okkur þangað.

laugardagur, júlí 21, 2007

Gegnsósa

Hvenær ætlar þessari rigningatíð að ljúka?

Það er búið að rigna svotil stanslaust á okkur í 6 vikur, eða kanski meira en það. Þetta rennur allt saman í hausnum á manni; heilinn er gegnsósa.

Mikið var ég feginn að ég var að vinna heima í gær því stór hluti samgöngukerfisins lagðist niður í gær vegna úrkomunnar. Ég ætlaði að fara til Coventry og vinna á skrifstofu okkar þar en hætti við það á síðustu stundu því mér leist ekkert á alla rigninguna.

Gærdagurinn var síðasti skóladagurinn hjá krökkunum. Þau eru loksins komin í sumarfrí, ef það er hægt að kalla þetta sumar. Það er júlí og maður verður að skella kyndingunni í gang öðru hverju til að ná úr manni hrollinum og rakanum. Ég man ekki eftir öðru eins sumri - eins og vorið var nú gott.

Alison lagði af stað í vinnuna í morgun en varð að snúa við því það var flóð á leiðinni. Hún kom heim og fór svo aftur af stað á mínum bíl, fór aðra leið og komst alla leið.

Síðasta bókin um Harry Potter kom út í gær um miðnættið. Ég fór með Hávari og Lindsey inní bæ til að standa í biðröð til að kaupa eina. Biðröðin var orðin ansi löng áður en búðin opnaði en sem betur fer vorum við nær framendanum og þurfum ekki að bíða of lengi eftir að geta gripið eintak af bókinni.

Hávar byrjaði strax að lesa hana.

mánudagur, júlí 16, 2007

BBQ í rigningu

Okkur var boðið í BBQ til nágrana okkar í gær. Annar sonur þeirra er fer í sama skóla og Hávar. Veðrið var dálítið tvísýnt en það var ekkert dokað við hlutina og grillið fór í gang. Það hélst þurt meðan við vorum að grilla en svo fór að sudda þegar við byrjuðum að borða en við hörkuðum af okkur og borðuðum úti undir stórri sólhlíf sem gegndi hlutverki regnhlífar. Það var mjög gaman og við borðuðum alltof mikið.

Ég var að athuga með veðrið í mið-Evrópu áðan og það er aldeilis hitinn þar, um og yfir 40° og fer hækkandi. Vonandi verður ekki alveg svona heitt þegar við verðum þar í ágúst. En ég býst svosem alveg við því að við tökum rigninguna með okkur.

föstudagur, júlí 13, 2007

Afmælisbarn dagsins...

Alison á afmæli í dag og það er byrjað að rigna, aftur, en vonandi ekki of lengi.

Hún fór út að versla með vinkonum sínum í tilefni dagsins en í kvöld ætlum við að fara út að borða og svo á sýninguna hanns Hávars. Frumsýningin á leikritinu var í gær og gekk vel og hann var var mjög ánægður.

Þetta virðist vera mjög dökkt leikrit, það er allavega mikið af blóði og bardögum. Verður spennandi að sjá það í kvöld.

Það er föstudagurinn 13. í dag. Er einhver hjátrúarfullur?

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Joseph og Narnia

Hávar og Lindsey hafa í mörgu að snúast þessa dagana, í sambandi við leiklist og söng. Hávar hefur verið að æfa fyrir leikrit, The Lion, the Witch and the Wardrope (Narnia), sem verður frumsýnt á morgun í Palace leikhúsinu okkar í Redditch. Hann er ekki með stórt hlutverk en það verður samt að æfa stíft. Síðasta æfingin er í kvöld og verður frá 5 til 10. Hann á eftir að vera svo þreyttur þegar þetta er allt búið.

Lindsey hefur verið að æfa "Jacob and the Amazing Technicolor Dreamcoat" með skólafélögum sínum. Fyrsta sýning var í gær og sú næsta verður á morgun. Hún er aðallega í kórnum en hún er með smá hlutverk á sviðinu líka. Við Alison fórum á frumsýninguna í gær og skemmtum okkur vel. Það er alltaf svo gaman að sjá þessa krakka á sviði.

Það virðist sem stórrigningarnar sem hafa verið að hrjá okkur séu í hjöðnun. Síðasta helgi var alveg ágæt og ég náði að slá villigarðinn sem hefur verið eins og mýri en var orðin nokkuð þurr. Við þurfum að fá fleiri svona daga því þurfum að aðlaga okkur að hitanum (sem ég er að búast við) í Ungverjalandi áður en við förum þangað. :)

föstudagur, júlí 06, 2007

Fjöruferð

Skólinn hennar Lindseyar fer í fjöruferð til Burnham-on-Sea á hverju ári og í ár er sá dagur í dag.

Alison var búin að plana að fara með Lindsey en það er búið að vera svo tvísýnt með veðrið uppá síðkastið að þær hafa verið óákveðnar um hvort þær færu nokkuð. En það var engin rigning í morgun og spáin alveg sæmileg, nokkuð þurt en samt skýjað og vindasamt, þannig að þær lögðu í það. Ég veit ekkert hvernig þær hafa það því síminn hennar Alison er dauður (það gleymdist að hlaða hann) en vonandi eru þær að skemmta sér. Mér sýnist á web cam myndinni að það er sól þar þessa stundina.

En svo á allt aðra hluti...

Ég var að vafra um netið um daginn og rakst á video á TED.com þar sem Hans Rosling talar um hvernig hann hefur komið upplýsingum um fátækt og aðra hluti í myndrænt form sem er auðvelt að skilja. Hugbúnaðurinn sem hann hannaði var svo nýlega keyptur af Google sem gerði hann aðgengilegann á netinu. Horfiði á video-ið fyrst og prufið svo Trendalizer frá Gapminder. Það er margt þar sem kemur á óvart.



þriðjudagur, júlí 03, 2007

Tölvudrasl

Sem betur fer gerist það ekki oft að tölvur fari í skapið á mér, sem er eins gott því ég verð að umgangast þær á hverjum degi, en ég var orðinn ansi pirraður seinnipartinn í dag.

Talvan mín tók uppá þeim óskunda snemma í morgun að neita tengingum í gegnum vafarann hvort sem það var á netið eða einhverstaðar annarstaðar á servum í fyrirtækinu þar sem ég er að vinna. Tengingar á gagnagrunna virkuðu illa líka.

Ég mætti í vinnuna klukkan átta í morgun og byrjaði strax að reyna að leysa úr þessu og ég var að finna ástæðuna. Það tók mig næstum því tíu klukkutíma, en ég var ekki á því að hætta. Ástæðan á endanum var einhver hugbúnaður sem fyrirtækið mitt hafði setti á tölvuna þegar hún var ný til að fylgjast með netnotkun og einhvernvegin hafði hugbúnaðurinn truflast eitthvað og neitað mér að tengjast neinu. Ég var búin að prufa allt sem mér gat dottið í hug og var að íhuga síðasta úrræðið, að endurhlaða XP.

Sem betur fer fór allt vel.


Á meðan íslendingar eru að sólbrenna í góða veðrinu erum við í Bretlandi að drukkna í allri þessari rigningu. Það ætlar bara ekkert að hætta að rigna. Allt komið á kaf og flóð og vandræði útum allt.

En ég er samt viss um að þegar/ef það hættir að rigna þá verður farið að kvarta yfir vatnsskorti. Það þarf alltaf að kvarta yfir einhverju.

sunnudagur, júlí 01, 2007

Sofið með ljónum og tígrisdýrum

Héðan er það helst að frétta að Hávar fór í reisu með skátunum á föstudagskvöld og við eigum von á honum til baka seinnipartinn í dag. Þeir fóru til West Midlands Safari Park til að skemmta sér og svo ætluðu þeir að tjalda í túni við hliðina á ljónasvæðinu. Það var mikið grín gert að því að þeir ættu að sofa inn á ljónasvæðinu og skiftast á að standa vörð. Við höfum ekki heyrt af honum en vonandi var gaman hjá þeim. Þeir eru eflaust haugblautir því það er búið að rigna alla helgina.

Þá er England loks orðið reyklaust. Bann við reykingum á almennum stöðum fór í gang klukkan 6 í morgun. Engin reykjafýla í fötunum þegar komið er heim af pöbbunum.

Lífið hér í Englandi er eins og að lifa í spennusögu með allar þessar hryðjuverkaárásir/tilraunir á helginni, í London og á flugvellinum í Glasgow. Fjölskyldan mín er með miklar áhyggjur af þessu því ég er alltaf að ferðast.

fimmtudagur, júní 28, 2007

Sumarfrí - Loksins

Þá erum við loksins komin með plan fyrir sumarfríið okkar.

Við höfum verið í vandræðum með að finna eitthvern stað sem okkur langar til og getum varið á því það varð að vera skifti á "timeshare" íbúðinni okkar. Okkur langaði mikið til að fara til Skotlands en það var ómögulegt að finna neitt þar og það var ekkert að hafa í Frakklandi eða á Spáni heldur, nema á Kanaríeyjum en við vildum ekki þangað.

Við vorum búin að panta tveggja vikna frí í ágúst frá vinnuni en ekkert gekk að finna stað fyrir okkur og við vorum farin að hafa áhyggjur af því.

Það kom upp möguleiki fyrir nokkrum vikum að fara til Ungverjalands og okkur var farið að hlakka mikið til en þá kom í ljós að íbúðin þar var of lítil fyrir okkur fjögur. En svo á síðustu helgi fanst stærri íbúð á sama stað þannig að allt er komið í gang og við erum byrjuð að plana ferðina.

Við ætlum að fljúga til Vínarborgar og keyra þaðan til Ungverjalands. Staðurinn sem við fengum er við Balaton vatn og þar ætlum við að slappa af og skoða nágrenið. Við ætlum í helgarreisu til Budapest og við skreppum trúlega til Croatia og Serbia sem eru ekki langt frá. Eftir tvær vikur þarna förum við til baka til Vínar og verðum þar í 3 daga áður en við höldum heim á leið.

Alison fór á bókasafnið í gær og fékk nokkrar bækur um Ungverjaland sem ég er byrjaður að lesa því maður verður að vita eitthvað um landið sem maður er að heimsækja.

Loksins getum við farið að hlakka til að fara í sumarfrí.

mánudagur, júní 25, 2007

Blautir dagar koma og fara

Það er búið að vera ansi blautt á okkur síðustu vikurnar þannig að það hlýtur að vera gott veður á Íslandi. Ég vona að það sé líka gott veður í Noregi þar sem mamma og Ragnheiður eru að stússa sig á fornmanna slóðum.

Ferðin til Manchester í morgun var frekar háskaleg, mikil umferð og það rigndi stanslaust. Þurkurnar höfðu varla undan.

Einhvernvegin hélst hann þurr mestmegnið af deginum í gær. Jóhanna, systurdóttir Alison var að ferma sig.

Þetta var tvöföld athöfn. Fyrst var hún "babtised" heima hjá prestinum þar sem henni, og öðrum, var dýft í vatn (sundlaug í bakgarðinum) og seinna var það svona samskonar kirkju ferming og á íslandi, þó ekki með neinum veisluhöldum eftirá.

Ekki fann ég þó fyrir neinum heilagleika, fannst það alveg vanta þó að ég sé ekkert sértstaklega trúaður. Venjulega þegar maður fer í kirkju þá líður manni vel eftirá en það var eitthvað of mikið af leikaraskap og halelúja dóti. Mér fannst ekkert sérstaklega gaman að þessu. Kanski var það bara ég.

fimmtudagur, júní 21, 2007

þrettán

Hvað er það með töluna 13 sem lætur menn trúa að hún valdi ólukku?

  • Á leiðinn heim frá Glasgow í gær sat ég í 12. sætisröð og ég tók eftir að það var engin röð númer 13 heldur var röð 14 fyrir aftan mig.
  • Á nýju skrifstofunni í Manchester (sem ég hef ekki séð ennþá) vildi engin sitja við borð númer 13, þannig að ég tók það.
  • Við búum í húsi númer 14 en það er ekkert hús númer 13 í götunni heldur er það kallað 12a.

Ég tékkaði aðeins á þessu og auðvitað kemst maður að því að:

  • Við síðustu kvöldmáltíðina voru 13 að borði og Jesú var svo krossfestur á föstudaginn 13.
  • Í norrænum goðasögum fór Loki óboðin í matarboð fyrir 12 og olli dauða Baldurs.
  • Í apríl 1970 var Apollo 13 á loft klukkan 13:13 (mið Ameríku tími) og 13. Apríl sprakk súrefnistankur um borð.
  • o.s.f.v. o.s.f.v. o.s.f.v.

Það er auðvitað hægt að draga ályktanir af öllu sem maður sér og heyrir og ef úrtakið er nógu stórt (sem það er) er hægt að koma með svörin sem maður vill heyra. Ef svarið er "13 er ólukku númer" þá er bara að finna ólukkulega hluti sem gerðust þann 13. eða þar sem 13 manns voru saman komin eða manneskjan hafði 13 bólur á rassinum eða eitthvað álíkt.

Algert rugl!

miðvikudagur, júní 20, 2007

Mýrin

Ég var að klára að lesa Mýrina eftir Arnald Indriðason í gærkvöldi.

Mamma lánaði mér bókina þegar hún kom til Glasgow í síðustu viku. Mér fanst sagan stórgóð og hún hélt spennunni vel. Það var líka gaman að lesa sögu á íslensku því það eru orðin nokkur ár síðan ég gerði það síðast.

Núna langar mig bara að sjá myndina!

En er það ekki skrítið hvað bækur eru dýrar á Íslandi?

Á netinu get ég fengið hana á íslensku hjá edda.is fyrir 1,782 krónur en á amason.co.uk get ég fengið enska útgáfu á £1.19.

Er eitthvað vit er í þessu?

mánudagur, júní 18, 2007

Þjóðhátíðardagur

Mamma fór heim frá Glasgow á fimmtudaginn eftir að hafa farið til Edinborgar á þriðjudaginn og svo í skoðanaferð til Loch Lomond og nágreni á miðvikudaginn. Ég held að hún hafi skemmt sér ágætlega, allavega var gaman að sjá hana.

Í gær var sautjándi Júní og til að halda uppá þjóðhátíðardaginn fórum við í BBQ til Guðrúnar og Magnúsar ásamt Annie og Lúdó. Það var gaman og grillið var sértstaklega bragðgott. Það var hálf ótrúlegt að rigningin hélt sig einhverstaðar annarstaðar heldur en í Redditch því það er búið að vera ansi blautt þessa síðustu daga. Er það ekki óvenjulegt fyrir þjóðhátíðardag eða frídaga yfirleitt?

Lindsey tók það á sig til að læra helstu litina á Íslensku og gekk bara vel.

En í dag er sú litla heima með bakverk. Hún hefur verið að fá í bakið öðru hverju en á milli er hún í nokkuð góðu formi. Það á að heimsækja lækninn í kvöld til að athuga með hana. Þarna á myndinni er hún úti í garði (í góðu formi) að masa í síma við eina vinkonu sína.

Ég flaug aftur til Glasgow í morgun. Það var farið að rigna aftur í Birmingham en sólin skein í Skotlandi.

mánudagur, júní 11, 2007

Skoðanaferð

Við mamma hittumst aftur í kvöld og fórum út að borða með fáeinum úr hópnum hennar. Í þetta skifti fórum við á Kínverskan stað sem var alveg ágætur. Hinar konurnar úr hópnum voru ekki á því að fara að ganga eftir matinn og ætluðu bara til baka á hótelið.

En mamma og ég slitum skóleðrinu á götum Glasgow borgar. Við fórum í gegn um aðalgötuna og svo að háskólasvæðinu og þaðan að dómkirkjunni. Þegar við vorum komin þangað vorum við orðin of þreytt til að halda áfram að eldgömlum kirkjugarði (Necropolis) sem við sáum á hæð en þar voru leiðin skreyttir turnar og súlur. Mjög tilkomumikið.

Ég verð að fara þangað einhverntíma sjálfur að skoða.

Á morgun fara mamma og hópurinn hennar með lest til Edinborgar á fyrirlestur þar en eftirmiðdaginn geta þau svo notað til að skoða borgina.

sunnudagur, júní 10, 2007

Endurfundir

Ég komst til Glasgow á endanum...

Okkur var ekki hleypt að vélinni fyrr en það var kominn tími til að fara í loftið. Við gengum að hliðinu okkar og létum rífa af brottfararspjöldunum okkar og gengum svo í gegnum ranann að vélinni. Þar urðum við að bíða í dálítinn tíma þangað til okkur var sagt að flugstjórinn hafi orðið veikur og farið heim. Það var verið að finna annan flugstjóra en það tæki eflaust klukkkutíma. Okkur var svo snúið við og rekin til baka inn í flugstöð en þá var tilkynt að það væri "búið að finna flugstjóra og gætum við snúið til baka að hliðinu okkar", sem við gerðum. En að því að það var búið að rífa af brottfaraspjöldunum þá varð að tjékka hvern mann af lista, sem tók sinn tíma. Og svo voru einhverjir standaglópar sem heyrðu ekki tilkinninguna um brottför og fundust ekki þannig að það varð að fara og finna farangurinn þeirra og taka hann úr vélinni.

Þetta hófst þó á endanum og ég var komin til Glasgow um 16:00 í staðinn fyrir 14:30.

Ég hitti mömmu fyrir utan hótelið sem við gistum á (við erum á sama hóteli og sömu hæð) og það var heppni því gemsinn hennar virkaði ekki (pin númerið) og textinn sem hún senti mér frá öðrum síma komst aldrei til skila. Ég reyndi að texta og hringja í hana en það virkaði ekkert. En við semsagt hittumst og röltum um bæinn í góðu veðri, skýjað en hlýtt.

Um kvöldið fórum við út að borða á indverskum veitingastað með heilum hóp af (háværum) íslenskum kennurum. Það var gaman að heyra og tala íslensku og maturinn var góður enda er indverskur matur í uppáhaldi hjá mér.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Góðar fréttir

Góð frétt númer eitt:

Þá er búið að ganga frá því að ég flýg til Glasgow á sunnudaginn og verð fram á fimmtudag, sömu daga og mamma verður þar. Við getum hist á kvöldin, farið út að rölta og þessháttar.

Það verður gaman.

Góð frétt númer tvö:

Kristján Erlings og Oddatáin hans ætla að taka við rekstri Kambs á Flateyri. Maður varð smeykur þegar það fréttist að Kambur væri að loka en núna lítur allt betur út. Flott hjá Stjána!

Það er alltaf gaman að fá góðar fréttir!

miðvikudagur, júní 06, 2007

Veltikarl

Eitthvað átti ég skilt með Veltikarlinum úr Leikfangabæ í gærkvöldi.

Ég var að fara með stól ofan af efri hæðinni niður stigann þegar ég steig á möppu sem Hávar hafði skilið eftir á einu þrepinu og ég sá ekki. Annar fóturinn flaug undan mér og hinn bögglaðist undir mig þegar ég hrundi niður stigann.

Ekki fór eins illa og á horfði, bara nokkrar litlar skrámur og marblettir, en blessunin hún Lindsey vaknaði með andfælum við allann hávaðann og kom hágrátandi niður.

Eitthvað þykir henni vænt um klaufann hann pabba sinn.

sunnudagur, júní 03, 2007

Hidcote

Veðrið hélst gott yfir helgina.

Í dag fórum við til Hidcote með picnic og röltum um garðana. Þetta var í fyrsta skifti þetta árið sem við förum þangað en venjulega förum við þangað allavega einu sinni á ári. Það voru miklar rigningar í síðustu viku þannig að garðurinn var kanski ekki uppá sitt besta en samt fallegur.

þegar við komum heim borðuðum við kvöldmatinn okkar úti í garði. Indælt!

laugardagur, júní 02, 2007

Strik í reikningnum

Ég var búinn að ákveða að vinna frá Glasgow vikuna sem mamma verður þar og var búinn að kaupa flugmiða og allt en í gær kom smá strik í reikninginn.

Fyrirtækið sem ég er að vinna fyrir í Manchester og Glasgow er ekki búið að ganga frá greiðslu fyrir vinnuna þannig að það var ákveðið að hætta að vinna að verkefninu þangað til búið er að ganga frá því.

Það þíðir að ég verð að vinna að öðrum verkefnum þangað til og það gæti þítt að ég get ekki unnið frá Glasgow. Og ég sem var farinn að hlakka svo til að hitta mömmu. Kanski ég skreppi bara í skotferð. Við sjáum til, en vonandi verður búið að ganga frá hlutunum.

Hér er annars þetta fína veður, 25 stiga hiti, og við erum að skella okkur í grill til vina.

þriðjudagur, maí 29, 2007

Ekkert gekk að ganga

Það varð ekkert af göngunni um Malvern í gær því það voru leiðinda skúrir allan dagin. En við höfðum fullt hús í kvöldmat í staðin. Lyn, vinkona Alison kom í heimsókn og svo gerði Luke, vinur Hávars. Ron kom svo til okkar um fjögur leitið.

Lindsey gerði mikið í því að dansa fyrir alla þá sem vildu horfa á; ballett, jazz, ballroom....

Þetta stutta blauta frí er búið hjá mér og ég er komin aftur á minn stað í Manchester. Á næstu helgi verður staðið í því að flytja skrifstofuna í nýtt húsnæði. Það verður ennþá í nágrenni Manchester en bærinn heitir Sale. Nýja skrifstofan á að vera voða góð en það er víst lítið um bílastæði og ég get ekki vonast til að fá pláss. Ég er ekki alveg búin að plana þetta en vonandi get ég fundið hótel í grendinni þar sem ég get lagt bílnum og svo gengið í vinnuna. Þetta á allt eftir að reddast.

Svo verður mamma á ferðinni í Glasgow vikuna þar á eftir. Kanski ég athugi með að vinna þaðan í nokkra daga svo maður geti heilsað uppá hana. Það yrði gaman ef það tekst.

sunnudagur, maí 27, 2007

Lokkarnir falla

Lindsey fór inní Redditch í dag til að láta klippa á sér hárið. Það var orðið alltof langt, náði næstum niður á rassinn, og það var erfitt að halda því flókalausu. Það voru teknir einir 15 sentimetrar af hárinu og það lítur vel út. Það er ennþá langt en ekki of langt. Myndirnar hérna eru fyrir og eftir myndir.



Hún er svaka ánægð enda var hún oft örg yfir því hvað það var oft flókið.

Annars er þetta búin að vera ekta fríhelgi það sem af er, rigning og rok. Ég veit ekki hvernið það verður með gönguna á morgun...

laugardagur, maí 26, 2007

Hálfannarfrí

Þá eru krakkarnir komnir í hálfannarfríið sitt. Heil vika án þess að þurfa að fara í skólann. Reyndar var Lindsey komin í frí í gær en Alison var að vinna þannig að hún var hjá vinkonu sinni. Hávar var líka í hálfgerðu fríi því hann fór með bekknum sínum að skauta á innanhússvelli. Það var voða gaman þó að hann hafi dottið mikið.

Það er frídagur hjá mér á mánudaginn en eins og gerist með flesta frídaga þá er veðurspáin ekkert voðalega góð. En vonandi verður það ekki of slæmt því planið er að við Hávar förum með Ron út að ganga yfir Malvern hæðirnar.

Við Alison fórum út að borða með vinum okkar, Alison og Gerry, í gær. Gerry varð fimmtugur fyrr í vikunni og það var líka 21 árs brúðkaupsafmæli þeirra. Gott kvöld.


miðvikudagur, maí 23, 2007

Fótboltafár

Liverpool og Milan fara bráðum að byrja að sparka boltanum úti í Grikklandi og það verða allir límdir við skjáinn til að fylgjast með.

Vinnufélagi minn er Ítali og heldur náttúrulega með sínu liði. Sumir hérna eru frá Liverpool og halda með þeim en það skrítna er að þeir sem búa í Manchester og styðja Manchester United, vilja frekar að Milan vinni heldur en að erkióvinurinn í Liverpool fái bikarinn (aftur).

Ég verð að fara að drífa mig á hótelið. Ég ætla að fylgjast með, þó ekki sé ég með fótboltaveiruna, því það verður ekki talað um annað á morgun.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Það er gaman að vera ungur

Það er ekki mikið um nám hjá Hávari í skólanum þessa vikuna. Stór hópur nemenda er í skólaferðalagi í Frakklandi en hinir sem heima sitja gera bara eitthvað gaman í staðinn. Í gær var hann að dunda í leiklist, í dag er hann að baka eitthvað í skólaeldhúsinu og á morgun verður farið í skemmtigarð með liðið.

Í næstu viku verða krakkarnir komnir í hálfannarfrí og Lindsey byrjar meira að segja í fríinu sínu á föstudaginn.

Það er gaman að vera ungur.

föstudagur, maí 18, 2007

Kambur að loka?

Þetta eru alvarlegar fréttir sem maður er að heyra af Flateyri, að Kambur sé að loka, og ömurlegar fréttir fyrir fólk sem vinnur þar. Þetta getur ekki hafa verið auðveld ákvörðun hjá Hinriki.

Manni varð bara illt í maganum við að lesa þetta.

Við verðum bara að vona að einhver verði til að taka við og að eitthvað gott komi út úr þessu.

Sendi mínar bestu kveðjur heim í fjörðinn.

fimmtudagur, maí 17, 2007

Einn þreyttur

Ég fór á fætur klukkan fjögur í morgun til að mæta tímanlega út á flugvöll (á leiðinni til Glasgow) en vélinni var seinkað um klukkutíma. Ég keypti mér bók að stytta mér biðina; Panic, eftir Jeff Abbott og hún er bara nokkuð góð, það sem af er.

Annars verð ég að fara að koma mér á hótelið og slappa af. Þetta er búinn að vera þreytandi dagur, á fundi allan tíman, og ég var á tímabili farinn að dotta. Ekki nógu gott!

Það á að vera sundlaug í hótelinu og ég ætla að fá mér smá sundsprett. Kanski ég vakni aðeins við það til að geta lesið meira af nýju bókinni.