Þá erum við komin heim úr vel heppnuðu sumarfríi. Reyndar komum við heim á þriðjudaginn en ég fór beint í vinnuna dagin eftir og það hefur verið of mikið að gera við það og að undirbúa krakkana fyrir skólann til að skrifa eitthvað um ferðina á blogginn þar til nú.
Þetta var alveg æðislegt frí þó að það byrjaði aðeins erfiðlega. Fyrst voru einhver vandræði með vegabréfið mitt á flugvellinum í Birmingham. Vandræðin voru eftirnafnið mitt en á vegabréfinu er það bara Bjarnason en allstaðar annarstaðar (ökuskírteini, visakort o.s.f.v.) er það James-Bjarnason. En eftir nokkra bið var okkur sleppt í vélina.
Við millilentum svo í Frankfurt og þar misstum við næstum því af vélinni. Við gerðum okkur ekki grein fyrir því hve flugvöllurinn var stór og á endanum urðum við að hlaupa. Við fengum smá skammir fyrir en seinkuðum þó ekki flugtaki.
Í Vínarborg fórum við til Alamo til að ná í bílaleigubílinn okkar en bíllinn sem við áttum að fá var hvergi að finna. Á endanum fundu þeir Hyundai jeppa sem við gátum fengið fyrir sama verð sem við vorum hæstánægð með.
Eftir allt þetta fór allt batnandi. Við keyrðum til Balaton vatns í Ungverjalandi og vorum í viku nálægt Hevíz. Þar er mikið af heitum laugum sem við fórum oft í. Við fórum líka í siglingu á Balaton vatni, skoðuðum kastala og sáum sviðsetta bardaga miðaldariddara.
Seinni vikuna gistum við á öðrum stað, rétt hjá landamærum Slóvakíu og Króatíu. Við fórum yfir landamærin til að skoða og það er alveg ótrúlegt hvað það er augljóst að maður er í öðru landi þó að landslagið sé það sama. Í Ungverjalandi eru húsin í þorpunum lítil eins hæða hús og ekki mikið um viðhald á þeim en hinumegin við landamærin eru þau á tveimur hæðum með svölum og blómakössum.
Við fórum til Búdapest á þjóðhátíðardaginn þeirra (20. ágúst) og það var allt fullt af skrúðgöngum og herflugvélar flugu yfir. Um kvöldið var svo flugeldasýning þó að það munaði litlu að það yrði að aflýsa henni. Það kom þessi fíni þrumustormur og allir þeir sem voru saman komnir þar sem við vorum (Castle district) voru sendir í burtu því á sama degi á síðasta ári skeði það sama nema hvað stormurinn var verri og fjöldi fólks slasaðist þegar mannfjöldinn byrjaði að hlaupa í skjól og einhverjir dóu líka. En þegar stormurinn var búinn fór flugeldasýningin í gang. Daginn eftir héldum við áfram að skoða borgina og fórum í siglingu á ánni. Okkur fanst mikið gaman af Búdapest og langar til að fara þangað aftur.
Við fórum líka í dagsferð til Graz í Austurríki sem var gaman. Miðborgin er ekkert voða stór og það er auðvelt að ganga um og skoða allt.
Við enduðum fríið á því að fara til Vínarborgar og gistum þar í þrjár nætur. Við vorum ekkert alltof hrifin af Vín þó að byggingarnar séu fallegar. Það var alltof mikið af túristum og hún ilmaði ekkert alltof vel.
Þessvegna tókum við okkur til og keyrðum útúr borginni og til Schneeberg sem er hæsta fjallið í nágrenni Vínar, 2076 metrar. Við tókum sérstaka lest upp í um 1800 metra hæð og svo gengum við afganginn upp á toppinn. Þetta var alveg frábært og útsýnið einstakt. Það var mikið betra að vera í svalanum á toppnum heldur en í hitamollunni í borginni.
Síðasta daginn í Vín fórum við aftur inní borgina og það var ekki alveg eins mikið um túrista og mikið skemmtilegra. Við fórum í skoðunarferð í kerru sem var dregin af tveimur hestum og svo enduðum við kvöldið með því að horfa á hluta af óperu á risastórum skjá fyrir framan ráðhúsið.
Þið verðið að bíða aðeins með að sjá myndirnar því ég verð að velja úr yfir 500 myndum sem ég tók.