föstudagur, desember 22, 2006

Slæmt ferðaveður

Þá er bráðum komið að því að við leggjum af stað. Við förum til Stanstead eldsnemma á morgun og lendum eftir hádegið, það er að segja, ef það verður flogið. Hér er búin að vera mikil og þykk þoka síðustu daga sem hefur stoppað mikið af flugvélum, aðalega í Heathrow. Þar eru tugþúsundir standaðir. Stanstead hefur ekki haft eins mikla þoku þannig að við erum að vona að það stoppi okkur ekki. En það er svo von á öðru óveðri á Íslandi í nótt, ofan á allt sem er búið að ganga á, þannig að það er allt óvíst.

Við vonum samt hið besta.

Hjá okkur er hellingur að gera við að klára að pakka og svoleiðis. Við Alison ætlum að kíkja í partý hjá vinum okkar í kvöld í smá tíma áður en við lúllum okkur.

Hér eru allri spenntir...

Sjáumst fljótlega.

laugardagur, desember 16, 2006

Það styttist í íslandsför

Ég er búinn að vera í Manchester megnið af vikunni. Á miðvikudaginn fór ég með hóp af vinnufélögum út að borða. Ég fór aftur í vinnuna á eftir en sumir héldu áfram á barnum fram undir nótt og þar var veskinu stolið af einni stelpunni sem ég er að vinna með. Hún stoppaði öll kortin sín eins fljótt og hún gat en þeir sem tóku það voru sneggri en það og tókst að versla fyrir £12,000 á stuttum tíma. Alveg ótrúlegt. Það er meira að segja búið að skyfta um kortakerfi hér og allir eiga að slá inn pin númer í staðin fyrir að skrifa undir, en einhvernveginn hefur þeim tekist að skrifa undir í staðinn. Það er stundum hægt ef fólk getur ekki munað pin númerið sitt.

Við fengum nokkra vini í mat í gær og í kvöld er planið að við förum í mat til annara vina okkar. Á sunnudaginn kemur Chris, systir Alison, og fjöldkylda hennar ásamt Ron og bróður Dot og maðurinn hennar í mat til okkar. Það er semsagt mikið að gera hjá okkur um helgina við að fara og bjóða í mat.

Í næstu viku verð ég aftur í Manchester þannig að það liggur allt á Alison að pakka og gera allt klárt fyrir jólaferðina til Íslands. Krakkarnir komast ekki í jólafrí fyrr en á föstudaginn 22. desember, sem þau eru dálítið spæld yfir en þau byrja ekki aftur fyrr en mánudaginn 8 janúar.

Það styttist í við komum til Íslands. Bara 7 dagar...

mánudagur, desember 11, 2006

Jólamarkaður í Bath

Við fórum til Bath í gær (sunnudag) til að líta á jólamarkaðinn þar. Þetta er árlegur viðburður hjá Johnsons Coaches, þar sem Alison vinnur. Starfsfólkið getur farið í ódýra rútuferð eitthvert í Englandi þar sem er jólamarkaður. Ferðin var skemmtileg þó að það var dálítil rigning. Markaðurinn var ekkert voðalega stór, aðeins um 200 stallar en við fórum í Rómversku baðhúsin (safn) þarna til að skoða. Lindsey er að læra um Rómverjana í skólanum og fannst gaman að skoða.

Á laugardaginn ávkváðum við hvaða eldhúsinnréttingu við ætlum að fá okkur þannig að allt er að fara í gang þar. Það lítur út fyrir að vinna við það verði hafinn í endaðann Janúar á næsta ári. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta er dýrt. Það væri ódýrara að kaupa sér lúxusbíl.

þriðjudagur, desember 05, 2006

Jólatré

Þá er jólatréð komið upp. Það fór upp á sunnudaginn og hefur aldrei verið jafn snemma á ferðinni og í ár. Við verðum að njóta jólaskreytinganna í okkar eigin húsi í smá tíma áður en við förum til Íslands því þegar við komum til baka verðum við að taka allt dótið niður aftur.

Við erum líka búin að pakka öllum gjöfunum krakkana og velja nokkar (ekki of stórar) til að taka með okkur. Hún Alison mín er búin að vera voðalega dugleg við að versla og undibúa allt sem er eins gott því maðurinn hennar er með fóbíu fyrir búðarápi.

Ég er að dunda mér í vinnunni, hér í Manchester. Það er nóg að gera hjá mér þó að það sé ekkert alltof áhugavert eins og er. Er að kanna hvernig kanna hvernig tvö Cramer kerfi sem þeir hafa hér, virka svo ég get komið með áætlun um hvað það eigi eftir að kosta að uppfæra og sameina þau. Ég er búinn að vera hérna síðan á mánudaginn en fer heim í kvöld. Svo verð ég á litlu námskeið í Coventry á fimmtudag of föstudag.

Veðrið er búið að vera hundleiðinlegt síðustu dagana, rok og rigning. Alison sagði mér í gær að stóri rósarunninn fyrir framan húsið okkar hafi fokið niður og liggur bara í rúst. Þetta er árlegur viðburður. Ég varð að hlaupa út í bíl í morgun en ég varð samt blautur eins og hundur af sundi. En mikið vorkendi ég fólkinu sem var á gangi því það gengu svona líka svaka gusur frá bílunum þegar þeir keyrðu framhjá þeim.

sunnudagur, desember 03, 2006

Classical Spectacular

Við Alison fórum á tónleika í gærkvöldi með Magnúsi og Guðrúnu. Þetta var Classical Spectacular með frábærri klassískri tónlistarblöndu með kórsöng, óperu, lasersjóvi og endaði svo með 1812 Overture eftir Tchaikovsky með fallbyssuskotum, riffilskotum og innanhús-flugeldum.

Stórgóð skemmtun! Við verðum að gera þetta aftur á næsta ári.

Krakkarnir höfðu vini í heimsókn um kvöldið (sleep over) og barnapían varð að passa allt liðið meðan við skemmtum okkur en allt fór vel fram.

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Fleyri hljóðfæri

Lindsey er nokkuð góð á blokkflautunni sinni, getur spilað nokkur lítil lög og hefur gaman af. Kennarinn sem kennir henni tónlist fékk hana til að prufa alvöru flautu fyrir nokkrum vikum og Lindsey varð ofslega spennt og vildi endilega fá flautu sjálf. Við vildum ekki kaupa flautu strax því þær geta verið nokkuð dýrar, þannig að við tókum eina á leigu. Hún er búin að hafa hana í fáeinar vikur og reynir á hverjum degi en hún á dálítið erfitt með að fá úr henni almennilegt hljóð. Hún er trúlega of stór fyrir hana. Það er hægt að fá flautur sem eru bognar og því auðveldari fyrir stutta handleggi en við sjáum til.

Um daginn fór hún í heimsókn til vinkonu sinnar sem er að læra á fiðlu, og þegar ég sótti hana hélt hún "tónleika" fyrri mig. Á eftur sagði hún að hún vildi frekar læra á fiðlu því það var miklu auðveldara að ná úr henni hljóði heldur en flautunni.

Aaarrrgh...

mánudagur, nóvember 27, 2006

Leyndarmálið er upplýst

Við höfum haldið Íslandsförinni leyndri frá börnunum hingað til en það var farið að vera alltof mikið um að við Alison glöprum einhverju út úr okkur um "þegar við förum til Íslands" eða eitthvað "um jólin". Og það verður alltaf erfiðara að koma með útskýringar sem halda vatni. Í gærkvöldi ákváðum við að segja þeim frá leyndarmálinu og Alison skrifaði nokkrar gátur á sneppla sem við földum út um allt hús. Krakkarnir urðu svo að finna sneplana og ráða gáturnar. Síðasta gátan var sundurklippt setning sem las "Við förum til Íslands yfir jólin" (eða eitthvað á þá leið) þegar rétt var raðað saman.

Krakkarnir eru alveg himinlifandi og geta ekki beðið. Hávar gat ekki sofið í nótt því hann var svo spenntur.

23. Des 2006 - 2 Jan 2007 - Sjáumst þá !!

Við fórum til Stratford-upon-Avon í gær og þar eru komnar jólaskreytingar upp um allan bæ. Við sáum líka nokkur íbúðarhús þar sem jólaljósin voru komin útí glugga. Mér hefur alltaf verið illa við hvað þetta byrjar alltaf snemma en ætli maður verði ekki að vera snemma í þessu sjálfur þetta árið, annars er það ekki þess virði að setja neitt upp, við verðum ekki hérna til að njóta þess.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Manchester

Ég er búinn að vera í Manchester alla þessa vikuna en ég ætla að fara heim í kvöld og vinna heima á morgun. Og í næstu viku ætla ég að reyna að vinna heima á miðvikudaginn, það ætti að brjóta vikuna upp þannig að ég þarf aðeins að gista hér tvær nætur í staðin fyrir þrjár eða fjórar. Þetta er voðalega einmanalegt líf að lifa á hótelum.

Það tók mig smá tíma að finna hótelið á mánudaginn. Ég var búinn að athuga á internetinu með leiðina þangað en einhvernveginn tókst mér að taka vitlausa götu til að byrja með og endaði inn í miðbæ. Ég fann leið út og í áttina að hótelinu en misti af svo gatnamótunum og lenti á hraðbrautinni til Liverpool. En mér tókst að snúa við og fann hótelið á endanum.

Veðrið hefur ekki verið nógu gott þessa vikuna til að fara að skoða miðbæinn og það er líka orðið dimmt þegar maður hættir að vinna og það er ekki hægt að sjá mikið í myrkrinu. Hótelið sem ég hef verið á þessa vikuna er aðeins fyrir utan miðbæinn í iðnaðarhverfi og þar er ekkert athygglisvert að sjá. Nema hvað það er útsýni yfir Manchester og það sem grípur helst augun er þessi svaka háa bygging sem er víst hæsta íbúðablokk í Englandi (og jafnvel Evrópu) og hæsta bygging í Englandi fyrir utan London. Það er Hilton Hotels skillti á henni og þeir eru með 285 lúxus herbergi en það eru víst íbúðir líka. Og svo á að vera bar á efstu hæðinni. Turninnn er dálítið skrýtinn í laginu, sverari að ofan en að neðan þannig að maður býst við að hann eigi eftir að detta yfirum ef það gustar. Turninn heitir Beetham Tower.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Nýtt verkefni

Þá er maður kominn til Manchester aftur. Ég kláraði verkefnið í Bracknell á föstudaginn var en einhverra hluta vegna gátu þeir ekki farið "live" á helginni (ekki það sem ég var að vinna að). Vonandi lagfæra þeir það í þessari viku.

Þetta byrjar rólega hér hjá Thus. Ég er bara að lesa gamlar skrár og gögn til að undibúa mig . Ég er reyndar ekki búinn að fá það á hreint hvað það er sem ég á að gera en það kemur allt í ljós.


Ég tók krakkana í innanhúss klifur á helginni. Lindsey fer þangað í afmælisveislu í vikunni og okkur langaði bara að prufa þetta og athuga hvort hún hefði gaman af því.

Auðvitað hafði hún gaman af því !!

Við tókum líka einn af vinum Hávars með til að hafa ofan af fyrir honum, því ég varð að fylgjast með litlu dömunni.

laugardagur, nóvember 18, 2006

Gönguferð yfir Malvern

Hávar fór snemma í morgun með nokkrum félögum úr skátunum í gönguferð yfir Malvern hæðirnar. Hann var útbúinn með bakpoka og nesti og skemmti sér voðalega vel. Þegar hann kom heim klukkan fimm hafði hann bara smá tíma til að fá sér að borða og svo fór hann í afmælisveislu hjá einhverri stelpu úr bekknum hanns. Hann var að koma heim rétt í þessu og er orðinn ansi þreyttur. Það er búið að vera mikið að gera hjá gaurnum í dag.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Þeysingur

Það er búinn að vera þeysingur á mér síðustu daganna.

Verkefnið sem ég hef verið að vinna að í Bracknell átti að vera búið síðasta fimmtudag og næsta verkefnið, sem er með THUS í Manchester, byrjaði á föstudaginn. An á mánudaginn varð ég að fara aftur til Bracknell til að hjálpa þeim aðeins og svo ætlaði ég að byrja á fullu í Manchester í gær. Fór þangað og var búinn að panta hótel fyrir næstu 3 nætur en þá komu upp einhver vandræði í Bracknell. Ég varð að afpanta hótelið, fara heim og svo til Bracknell snemma í mogun. Planið var að fara aftur til Manchester á morgun en það hefur breyst og ég verð að vera hérna á morgun líka þannig að ég ætla að gista hér. Svo er planið að fara aftur til Manchester á föstudaginn.

Þetta er endalaus þeysingur og umferðin er ekkert til að grínast með :-)

mánudagur, nóvember 13, 2006

Einelti

Lindsey hefur ekki skemmt sér voðalega mikið í skólanum síðustu vikurnar. Nokkrar stelpur í bekknum hennar hafa lagt hana í dálítið einelti, komið inn á milli vina hennar og útilokað hana frá leikjum. Hún var hætt að vilja fara í skólan á morgnanna og kom oft grátandi heim.

Við Alison fórum og töluðum við skólastjórann og hann talaði svo við Lindsey og bekkinn en það virtist ekki hafa nein áhrif. Við reyndum svo að kenna Lindsey að svara fyrir sig og vera ekkert smeyk við þessar stelpur og þar virðist hafa virkað. Hún er miklu ánæðari núna, kemur stolt heim og segir okkur frá hvernig hún hafði svarað fyrir sig þegar stelpurnar hafi angrað hana, og gerir það nógu hátt svo að kennarinn og allir hinir krakkarnir heyri líka. Þá verða þær skömmustulegar og hætta.

Flott hjá henni !

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Donald Rumsfeld

Þegar fréttir komu af því að Donald Rumsfeld hafði sagt af sér mundi ég eftir hanns frægu spakmælum:

"There are known knowns.
These are things we know that we know.
There are known unkowns.
That is to say, there are things we know we don't know.
But, there are also unknown unknowns.
These are things we don't know we don't know."
Muniði eftir þessu rugli hanns? George Bush hefur líka komið frá sér svipað gáfulegum "spakmælum".
"Most of our imports come from outside the country."
"It's not pollution that is damaging our little ones' health
it's the impurities in our air and water"
Kíkiði bara á Google til að finna fleyri.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Eldhúsinnrétting

Það er kominn tími á eldhúsið hjá okkur. Uppþvottavélin gaf upp öndina fyrir nokkrum vikum, ísskápurinn er orðinn gamall, slitinn og alltof lítill og þvottavélin er háöldruð líka. Það þarf líka að endurnýja skápana þannig að við erum að spá í að endurnýa allt í eldhúsinu og endurhanna útlitið líka.

En það stoppar ekki þar.

Brennarinn fyrir gaskyndinguna er í eldhúsinu og við viljum færa hann inn í skáp á efri hæðinni til að gefa okkur meira pláss í eldhúsinu en til að gera það þarf nýjar gas og vatnslagnir.

Rafmagnstaflan í húsinu er gamaldags með víraöryggjum í staðin fyrir rofa og við þurfum að endurnýja hana á sama tíma og lagt verður í eldhúsið.

Og svo þarf að ákveða hvaða tæki fara í eldhúsið, hvar þau eigi að vera, velja innréttingu og hönnun á henni, velja flísar á gólfið og veggina, o.s.f.v.

Þetta á eftir að verða heljar verkefni.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Glaumbær

Í gærkvöldi fórum við Alison með vinum okkar Alison og Gerry til Birmingham. Alison á afmæli daginn á undar mér og við gerum oft eitthvað saman um þetta leiti til að halda uppá afmælisdaginn okkar. Við fórum á The Glee Club sem er staður þar sem brandarakarlar fara á kostum. Við fengum okkur að borða þar og svo var mikið hlegið á eftir. Þetta var voða gamam.

Í kvöld er bonfire night og það eru brennur hingað og þangað og mikið um flugelda og sprenginar. Veðrið er frábært fyrir svoleiðis hluti en við ætlum bara að halda okkur heimavið og horfa á dýrðina út um gluggan.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Enn eitt ár...

Þá er maður orðin enn einu árinu eldri. Lindsey litla söng "happy birthday to you" fyrir mig í símann í morgun sem var gaman. Ég ætlaði að vinna heima í dag en planið breyttist og ég varð að gista í Bracknell og er hér í dag líka en vonandi kemst ég heim á góðum tíma því við ætlum út að borða í kvöld og Ron tengdapabbi líka. Morgunmaturinn á hótelinu í morgun var góður og þeir höfðu meira að segja skotskan Haggis á boðstólum sem er svipaður og lifrapylsa, bara betri. Mmmm.

Fyrsta næturfrost vetrarinns var í gærmorgun og svo aftur í morgun og ég varð að skafa frostið af bílnum áður en ég lagði af stað í vinnuna. En það er gullfallegt úti, heiðskírt og stillt.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Hrekkjavaka

Í gær var hrekkjavaka og það var dálítið um heimsóknir frá litlum djöflum og nornum sem voru eftir nammi.

Lindsey fékk vinkonu sína í heimsókn eftir skólann og þær bökuðu kökur með Alison. Um kvöldið fóru þær klæddar í búningum í heimsóknir til nokkura vina. Lindsey var svartur köttur og vinkonan var norn. Voða gaman.

Hávar er auðvitað orðinn alltof gamall til að standa í svona barnalátum en hann lét sig hafa það að fara aðeins út með félögum sínum þegar þeir bönkuðu uppá hjá okkur í sínum búningum. Það er alltaf gaman að fá nammi!

mánudagur, október 30, 2006

Sýningarhelgi

Það var mikið að gera hjá Alison þessa helgina. Johnsons Coaches (þar sem hún vinnur) hafa árlega sýningu í skólanum hanns Hávars í Henley til að kynna nýja ferðabæklinginn sinn. Það kemur hellingur af fólki til að panta ferðir og til að fá sér te bolla og kökur. Hávar fór og aðstoðaði við sýninguna á laugardaginn, sá til að allt stafsfólkið hafði nóg að drekka borða. Hann stóð sig ofsalega vel og allir hældu honum mikið. Á sunnudaginn fór Alison svo aftur í vinnuna til að vinna úr pöntununum sem höfðu verið teknar.

Þegar hún kom heim fórum við í hjólreiðatúr niður að vatninu. Veðrið var voðalega gott og það lá við að það hafi verið vor í lofti. Hitinn 15-17 stig og við sáum meira að segja stóra drekaflugu á sveimi.

Nú er breski sumartíminn búinn og búið að seinka klukkunni þannig að tíminn hér hjá okkur er sá sami og á Íslandi. Morgnarnir verða bjartari en það skyggir fyrr.

laugardagur, október 28, 2006

Ítalía

Það er heldur farið að hitna í kolunum fyrir Íslandsferðina okkar yfir jólin og það er farið að plana samkomur. Við systkynin mín, systrabörnin hennar mömmu og makar ætlum öll að fara til Ítalíu á milli hátíðana. Þetta er veitingastaðurinn Ítalía, ekki landið við Miðjarðahafið sem lítur út eins og stígvél. Þetta verður gaman, við höfum ekki hist svona öll saman síðan ég man ekki hvernær. Var það ekki á ættarmóti á suðurlandi fyrir mörgum (6?) árum?

Við Alison erum orðin voðalega spennt en krakkarnir vita ekkert um Íslandsferðina ennþá. Það verður gama að sjá á þeim andlitin þegar við segjum þeim frá því.

föstudagur, október 27, 2006

Ákvörðun

Takk fyrir tilmælin frá ykkur, Bogga og Helga. Ég er búinn að taka tilboðinu um launahækkun og hafna verkefninu í Hatfield. Það gerði ákvörðunina auðveldari að fá launahækkunina því það hefði ekki verið gaman að gista alla daga á hótelum og geta ekki séð fjölskylduna. Núna get ég bara tekið því rólega við að leita að réttu verkefni á réttum stað.

fimmtudagur, október 26, 2006

Hvað á ég að gera?

Síðustu vikurnar hef ég verið að sækja um ýmis störf sem sjálsfstæður ráðgjafi og hef heyrt frá mörgum atvinnuskrifstofum en yfirleitt hefur það kælt á þeim þegar ég skýri út fyrir þeim að ég sé ekki búinn að segja upp störfum, heldur sé ég að bíða eftir starfi sem getur beðið í 4 vikur, sem er uppsagnartíminn hjá mér. Ég vill nefnilega spila þetta öruggt og ekki fara í neinar ógötur. En fyrr í þessari viku kom eitt starf upp sem er möguleiki en vandamálið við það er að það er í Hatfield sem er bær fyrir norðan London. Það tekur alltof langan tíma til að fara þangað með lest (margar skyftingar) og umferðin á götunum gerir það ógerlegt að keyra þangað á hverjum degi (meira en 3 tímar hvora leið), þannig að ég yrði að gista þar sem er auka kostnaður. En þetta er gott starf og góð laun.

Ég fór og spjallaði við yfirmann minn og útskýrði fyrir henni hvað ég var að plana en hún vildi að ég biði aðeins með þetta meðan hún athugaði hvort hún gæti komið með annað tilboð frá CACI. Daginn eftir kom hún með tilboð með launahækkun uppá 33%. Það er ekki auðvelt að fúlsa við svona tilboði þannig að ég er í vandræðum með að ákveða hvort ég ætti að stoppa þar sem ég er eða takast á við nýtt starf.

Hvað á ég að gera?

Ég verð að ferðast við það sem ég er að gera en það eru alltaf dagar inn á milli þegar sem ég get unnið heima. Ég þekki líka alla sem ég er að vinna með og þetta er ágætis lið. Vandamálið er að það er ekkert alltof mikið um stór verkefni eins og er.

Hitt starfið er gott og verkefnið er stórt en það verður endalaust hótellíf. Launin væru aðeins betri en þó ekkert alltof mikið.

sunnudagur, október 22, 2006

Conkers

Lindsey fékk eina af vinkonum sínum (Katie) í heimsókn í gær . Við fórum með þær í göngutúr í grend við Packwood House og söfnuðum "conkers" hnetum. Katie er mikil útivista stelpa og hefur gaman að svoleiðis hlutum. Hún er líka svolítið slysagjörn. Það var einn lítill pollur á stóru túni og hún vildi vaða í hann í stígvélunum sínum en pollurinn var aðeins of djúpur, vel uppfyrir hné, þannig að hún varð heldur blaut og drullug. En þær höfðu mikið gaman þessu. Hún svaf hjá okkur um nóttina og fór heim í morgun.

Hávar er komin heim eftir ævintýraferð um skipaskurðina í nágreninu. Blautur en ánægður - það er búið að haugrigna í allan dag. Þeir fóru í gegn um 17 skipastiga, sem er erfiðisvinna, og urðu svo að fara sömu leið til baka.

fimmtudagur, október 19, 2006

Nú er það svart...

Svakalega var morgunhimininn svartur þegar ég lagði af stað í vinnuna í morgun. Ég legg venjulega af stað um 6:30 (þegar ég vinn í og við London) og það hefur verjulega verið stutt í morgunroðann, en í morgun var skýað að suddi og kolniðamyrkur. Sem betur fer á það ekki eftir að gerast mikið lengur því breski sumartíminn breytist á síðasta sunnudegi í octóber og fer þá aftur um einn tíma (sami tími og á Íslandi). Bjartari morgnar en dimmri kvöld.

Hávar fer í annann leiðangur með skátunum á helginni. Þeir ætla að fara í siglingu um skipaskurði hérna í grendinni. Þeir gista á bátnum í þrjár nætur og svo verða þeir að koma sér í gegnum heilmargar skipaliftur (locks). Ætti að vera ævintýri fyrir þá.

Annars eru krakkarnir í hálfannar-fríi frá skólanum alla næstu viku.

laugardagur, október 14, 2006

Tom Jones

Við Alison vorum að koma heim af tónleikum með Tom Jones í kvöld. Það voru ódýrir miðar að ganga þar sem Alison er að vinna því þau höfðu ekki náð að selja þá alla. Hún fékk fjóra miða og við fórum með vinafólki okkar. Þetta var ágætis skemmtum þó að þetta er ekki mússík sem höðvar sérstaklega til mín. Hann hefur ennþá góða rödd karlinn og hann svitnar alveg ofsalega. Skyrtan hanns var alveg rennandi blaut af svita þegar hann fór úr jakkanum, og ég meina rennandi blaut. Hann söng blöndu af gömlum og nýjum lögum (gömlu lögin eru mikið betri) en það var sama hvað hann söng, hann fékk alltaf jafn góðar móttökur frá kvennþjóðinni.

miðvikudagur, október 11, 2006

Dýrt hótel

Ég gat hvergi fundið hótel í Bracknell í gær, þar sem ég er að vinna, en á endanum fann ég herbergi á Holiday Inn í Maidenhead. En það var ekkert smá dýrt, £180 fyrir eitt lítið herbergi sem var alveg ágætt en þó ekkert frábært. Ég er vanur að gista á stöðum sem kosta minna en helming af þessu og þá er morgunmatur oft innifalinn og herbergið yfirleitt stærra. Ekki vildi ég borða kvöldmatinn í þessu okurhúsi svo ég fór í göngutúr inn í miðbæinn og fékk mér góða steik. Morgunmaturinn kostaði mig svo heil £11 en það verður að segjast að hann var góður og ég átt svo mikið að ég á ekki að þurfa að borða aftur fyrr en seint í kvöld.

sunnudagur, október 08, 2006

16 ár

Í gær voru 16 ár liðin frá því við Alison giftum okkur í litlu kirkjunni í Holti. Það munaði littlu að við gleymdum þessu sjálf; það var komið fram á miðjan dag þegar við mundum eftir því. En við höfum alltaf annað tækifæri til að halda uppá dagin þann 10. nóvember þegar við vorum blessuð í kirkju hér á Englandi.

fimmtudagur, október 05, 2006

Patrol Leader

Hávar er búinn að hækka í tign hjá skátunum og er orðin "Patrol Leader" sem þýðir að hann er einhverskonar foringi yfir nokkrum strákum í sínum hóp en það eru 3 hópar í skátagrúppunni hanns. Hann er náttúrulega voðalega ánægður með þetta og það kom honum líka nokkuð á óvart. Hann var nýbúinn að skyfta um grúppu, bara búinn að vera þar í fáeinar vikur, og var ekkert að búast við að fá titil. Ég er ekki alveg viss um hvað fylgir þessum titli en hann verður víst að draga fánann upp og niður þegar þeir hittast og segja einhverjar skipanir. Ég er viss um að hann á eftir að standa sig vel.

Hér er farið að kólna og við erum nýfarin að kynda upp í kotinu á kvöldin. Suma daga (eins og í dag) er hálf nöturlegt útivið, kuldagjóla og suddi, en aðra daga er getur verið alveg yndælt. Fyrr í vikunni var heiðskýrt og sól og heitt undir suðurveggnum þar sem ég er að vinna og mér var hugsað til Kirkjubóls og suðurveggjarinns þar. Við krakkarnir fórum þar stundum í sólbað og fannst nokkuð heitt en þegar það var gengið fyrir hornið á húsinu og maður stóð í hafgjólunni þá varð manni hálf kalt. Þetta var einmitt svona hérna, heitt undir suðurveggnum en kul í golunni handan við hornið.

miðvikudagur, október 04, 2006

Blokkflautusnillingur

Lindsey er að læra að spila á blokkflautu í skólanum. Við höfum átt flautu síðan Hávar var lítill og Lindsey hefur verið að blása í hana öðru hverju en þetta hljómaði alltaf eins og einhver væri að kyrkja kött. Til að ná nótum úr flautunni söng hún eða purraði og blés á sama tíma. Hræðileg óhljóð. En núna, eftir að hafa farið í nokkra kennslutíma, er hún orðin nokkuð góð (allavega mikið betri). Hún spilar einföld barnalög úr nótnabókinni sinni og heldur tónleika fyrir okkur.

Hún á líka eldgamalt orgel sem amma hennar átti þegar hún var lítil og gaf henni. Það er með rafmagnsmótor sem blæs lofti fyrir nóturnar. Hún hefur verið að stauta sig við að spila á það líka. Við verðum endilega að kaupa almennilegt hljóðfæri fyrir hana þar sem hún er farin að sýna sig sem smá "snillingur".

Mikið er annars gaman hvað þið eruð orðin dugleg við að kommentera hjá mér. Þetta er allt annað líf. Ég er ekki vanur því að fólk lesi þetta bull hjá mér.

mánudagur, október 02, 2006

Blautir skátar

Hávar kom heim úr útilegunni með skátunum í gær, skemmti sér víst rosalega vel og hafði margar sögur að segja. Þeir fengu ágætisveður á laugardaginn en það var ansi blautt á sunnudaginn, aðalega seinnipartinn. Það rigndi svo hart þegar ég var að sækja hann að fólk varð að stoppa á götunum því það var ekki hægt að sjá neitt og þegar keyrt var undir trjám ringdi líka yfir mann akornum og littlum greinum. Vegirnir urðu eins og ár og bílarnir eins og bátar. Þetta var skrítin þrumuskúr því það stytti up og sólin fór að skýna og himininn var blár í eina mínútu áður en þetta byrjaði allt aftur.

Lindsey fékk vinkonu sína í heimsókn á laugardaginn fram á sunnudag og við fórum með hana í sund.

föstudagur, september 29, 2006

Vinna og meiri vinna...

Þið verðið að fyrirgefa hvað ég hef verið latur að skrifa. Búinn að vera önnum kafinn við að vinna. Ég hef verið að vinna með fyrirtæki sem heitir Metasolv við verkefni fyrir Cable & Wireless í Bracknell (fyrir vestan London). Hellingur að gera og mikið stress. Ég hef gist í hótelum því umferðin hefur verið svo leiðinleg - slys, vegavinna, o.s.f.v. Ef ég keyri fram og til baka þá er það allavega 5 tímar í keyrslu á dag sem er allt of mikið.

Hávar er að fara í útilegu yfir helgina með skátunum í kvöld. Þeir fara til Blackwell Court sem er aðstaða fyrir skáta í héraðinu. Veðurspáin er þó ekki alltof góð, skúrir alla helgina, en ég er viss um að þeir eigi eftir að skemmta sér vel. Það er hellingur fyrir þá að gera: go-karts, grassleðar, abseiling (sig ??), sundlaug, bogfimi og margt annað.

mánudagur, september 25, 2006

Íslendingar í Redditch

Það er komin viðbótarsending af íslendingum til Redditch, hjón með 3 börn. Hann er að vinna með Magnúsi í Marel og við hittum þau í matarboði hjá Guðrúnu og Magnúsi á laugardaginn. Þetta var skemmtilegt kvöld, góður matur og svo leikir á eftir. Ég veit ekki hvort þeim nýju hafi litist á lýðinn, þau voru frekar hljóð til að byrja með en svo fór þetta allt að ganga. Hann heitir Alli og hún Linda en við höfum ekki hitt börnin (þetta var bara fyrir fullorðna fólkið).

Alison fór líka út á föstudagskvöldið. Þær fóru út saman 10 vinkonur út að borða og dansa og það var líka Robbie Williams "look-alike" sem var að skemmta.

laugardagur, september 23, 2006

Köngulær

Þetta er búið að vera gott ár fyrir köngulær í Bretlandi, eða svo segja fræðimenn, og ég er sammála. Það er búið að vera mikið um að stórar, feitar og loðnar köngulær komi í heimsókn inní hús. Þessa vikuna erum við búin að drepa 6 slíkar. Alion er stórilla við þær og öskrar hátt þegar hún rekst á þær óvænt. Þær eru lófastórar og snöggar í hreyfingum þannig að maður verður að vera snöggur til að ná þeim.

Ástæðan fyrir þessari risastærð er víst góð tíð síðastliðinn vetur og sumar, þurt og hlýtt. Mér finnst alveg ágætt að hafa köngulær til að halda öllum hinum skordýrunum í skefjum en kanski ekki inni í húsi.

fimmtudagur, september 21, 2006

Atvinnuhugleiðingar

Síðustu tvær vikurnar hef ég verið að vinna með fyrirtæki sem heitir Metasolv að verkefni fyrir Cable & Wireless í Bracknell. Það er gott að vera farinn að vinna að alvöru verkefni aftur (þó að það er ekki langt) því áður en við fórum í sumarfríið okkar í Frakklandi, og í nokkrar vikur á eftir, var voðalega lítið að gera. En það virðist vera farið að glæðast til.

Ég hef verið að velta því fyrir mér í nokkurn tíma að fara að vinna sjálfstætt. Ég er búin að senda CV-ið mitt (starfsreynslulýsing ??) á eina internet leitarvél fyrir IT fólk og er farinn að heyra frá atvinnuskrifstofum sem vilja skaffa mér vinnu sem sjálfstæður ráðgjafi en þetta eru yfirleitt störf í London eða Hollandi. Hvað fynnst ykkur, á ég að skella mér í þetta?

mánudagur, september 18, 2006

River Wye

Helgin var reglulega ánægjuleg, sérstaklega sunnudagurinn. Við fórum öll til Ross-on-Wye, með Ron, pabba Alison og Chris systur hennar og börnum. Í Ross fórum við í stutta gönguferð eftir ánni og svo til baka til að fá okkur að borða á góðum veitingastað. Á eftir keyrðum við svo áfram til Symonds Yat þar sem áin Wye sniglast í gegnum fallegt gljúfur (eða þröngan dal). Við gengum þar eftir ánni og veðrið var alveg frábært, sól og logn og allur skógurinn bergmálaði af alskonar dýrahljóðum. Svo fórum við yfir ána á göngubrú og gengum til baka á hinum árbakkanum og tókum svo litla ferju yfir aftur því bílarnir voru auðviðað þeim meginn.

Þegar við höfum farið til Symonds Yat áður þá höfum við venjulega keyrt uppá gilbrúnina og horft á útsýnið þar en þetta var í fyrsta skyftið sem við höfum gengið eftir ánni niðri í gljúfrinu.

Það eru nokkrar myndir frá ferðinni í myndasafninu.

laugardagur, september 16, 2006

Svart poppkorn

Við þurfum að kaupa okkur nýjan örbylgjuofn. Sá gamli er ekki ónýtur, virkar ágætlega, en í hvert skyfti sem hann er opnaður ilmar allt af brendu poppkorni.

Við fórum út að skemmta okkur á síðustu helgi og þegar barnapían kom skellti Alison poppkorni í ofninn. En þetta var í fyrsta skyfti sem Alison sá um að poppa og hún stillti klukkuna á 4 mínutur í staðinn fyrir 2 og hálfa og fór svo upp til að bursta á sér hárið eða eitthvað svoleiðis. Þið getið alveg giskað á kvað skeði næst. Brunalykt! Ég hljóp inní eldhús sem var byrjað að fyllast af reyk og henti popp-pokanum út um bakhurðina. Reykskynjarinn fór að væla og mökkurinn var heldur þykkur en ekkert brann. Það var heppni.

Húsið ilmaði í nokkra daga á eftir þó að það er orðið betra. En í hvert skyfti sem við þurfum að nota ofninn köfnum við af brunafýlu. Við þurfum að kaupa okkur nýjan örbylgjuofn!

þriðjudagur, september 12, 2006

Troðningur

Þegar ég hef verið að ferðast til London síðastliðna 12 mánuði eða svo hef ég yfirleitt farið með lest frá Birmingham til London Euston og gengið þaðan þangað sem ég var að vinna.

Síðustu vikurnar hef ég þurft að skreppa nokkrum sinnum til London með lest en þurft að taka neðanjarðarlestina á háannatímanum, 20 mínútur í níu. Það dálítið fyndið að fylgjast með örtöðinni. Þetta er heill hafsjór af fólki sem troðar sér niður rúllustigana, í gegnum miðahliðin, niður fleyri rúllustiga og útá platformin. Þar er beðið eftir lest og það þarf yfirleitt ekki að bíða lengi, aðeins ein eða tvær mínútur á milli, en það er troðningurinn í lestunum sem mér fynnst fyndinn. Það er alveg eins og í teiknimyndum þar sem fígúrurnar eru með andlitin þrýst uppað rúðunum og geta sig ekki hreyft. Lestirnar eru fullar þegar þær koma, nokkrir fara út og svo troðast eins margir inn og hægt er. Þeir sem eru næst hurðunum verða að gæta sín að þær klippi ekki höfuðið af þeim þegar þær skellast aftur. Þeir sem komast ekki inn verða bara að bíða eftir næstu lest. Á endanum hættir örtröðin og lestirnar verða aftur hálffullar.

Sem betur fer þarf ég ekki að ferðast langt því það er ekki þægilegt að standa í svona þrengslum. Og sem betur fer þarf ég ekki að ferðast svona oft en það er hellingur af fólki sem þarf að gera þetta uppá hvern dag.

Sumir eru bara heppnari en aðrir.

mánudagur, september 11, 2006

Nálar

Það var voða fínt veður í gær og við fórum öll í hjólreiðarferð til Forge Mill Needle Museum. Í gamladaga var Redditch frægt fyrir framleiðslu á nálum, önglum og þessháttar. Þegar framleiðslan stóð sem hæst voru 90% af öllum nálum í heiminum framleiddar í Redditch. Safnið sýnir hvernig framleiðlan fór fram.

Þegar við komum heim var reynslu okkar af nálum ekki lokið. Alison var að sauma myndir á Brownies búninginn hennar Lindsey og nálin hlýtur að hafa dottið af borðinu á gólfið. Lindsey var á leiðinni í háttinn og steig hún á saumnálina sem rakst djúpt inní ilina á henni. Greyið litla meiddi sig náttúrulega mikið. Það var lán í óláni að nálin hafði ekki rekist í bein og brotnað.

Fimm ár síðan 9/11

Það eru heil fimm ár síðan 9/11. Muna ekki allir hvar þeir voru á þeim degi?
Ég var að vinna að verkefni fyrir Cable & Wireless í Birmingham þegar ég fékk símhringingu frá Alison sem var heima og horfði á allt í beinni útsendingu í sjónvarpinu og var að reyna að útskýra fyrir mér hvað hefði skeð. Það var voðalega erfitt að fá upplýsingar. Breskar og amerískar fréttasíður á internetinu virkuðu ekki en mogginn virkaði svona nokkurnveginn og ég varð að þýða fréttirnar fyrir fólkið sem ég var að vinna með.

miðvikudagur, september 06, 2006

Tönnin er farin

Þegar Lindsey kom heim úr skólanum í dag þá var lausa tönnin hennar heldur betur laus. Eftir matinn fórum við og snöruðum hana með tvinna og kipptum í. Tönnin flaug úr og nú liggur hún í littlu skríni undir koddanum hennar þar sem Tannálfurinn á eftir að finna hana. Þegar Lindsey vaknar um morguninn verður tönnin horfinn en í staðinn verður þar £1.

Skólinn er byrjaður

Lindsey byrjaði í skólanum í gær og við fórum öll með henni í skólann. Hún er komin í 3. bekk og er þess vegna í Juniors (í fyrra var hún í Infants) sem hún er stolt af.
Hún er missa tönn númer 3. Tönnin er voða laus og angrar hana og meiðir en hún vill ekki að ég kippi í hana. Hún hlýtur að fara að detta úr. Eitthvað var hún stúrin í morgun og hún var ekkert spent við að fara í skólan, grét bara stelpuanginn. Trúlega vegna þess að tönnin er að angra hana og líka vegna þess að nokkrar af bestu vinkonum hennar frá því í fyrra hafa flutt í annann skóla. Það bætir heldur ekki úr skák að Hávar hefur tveggja daga lengra frí en hún sem henni fynnst náttúrulega grautfúlt. Hann byrjar í skólanum sínum á morgun.
Haustveðrið hefur farið í felur og við erum búin að hafa nokkra ágætis daga.

laugardagur, september 02, 2006

Haust

Það er komið haust. Það var allavega haust í dag. Vindgustar léku sér útum allt og fannst gaman að hrista laufið úr trjánum og jafnvel brjóta greinar. Það var líka úðarigning.
Hér eru allir nema ég búnir að vera slappir með magaverk í allan dag, sérstaklega Hávar. Við fórum í litla gönguferð í kvöld til að hressa uppá okkur (það var hætt að rigna) og gangstígurinn var þakinn greinabútum, akornum og laufum. Kominn september og sumarið búið.
Annars er ekki hægt að kvarta, sumarið er búið að vera frábært. Og ég er viss um að sumarið er ekki alveg búið. Við eigum eftir að fá fleiri góða daga. Alveg viss um það.

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Chitty Chitty Bang Bang

Við fóum öll í fjölskylduleikhúsferð í gærkvöldi til að lífga uppá sálina. Fórum á Chitty Chitty Bang Bang á Hippodrome í Birmingham og skemmtum okkur konunglega. Þetta var það sem vantaði til að hressa mann við.

Frábær skemmtun!

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Nýr blog

Sumir sem heimsækja blogginn minn á MSN Spaces eiga víst í erfiðleikum með að kommentera svo ég ætla að prufa að blogga hérna líka í smá tíma og athuga svo hvernig mér og ykkur líkar við.
Látiði mig vita hvort er betra.