miðvikudagur, desember 24, 2008

Skata

Við fórum í skötuveislu til Guðrúnar í gærkvöldi. Þar var borðuð vel kæst skata með kartöflum og hamsatólg. Algert góðgæti. Takk fyrir mig.

Hávar fúlsaði ekki heldur við að borða hana og fanst hún bara góð. Það er greinilega Íslendingur í honum.

Við ætlum að halda lítil Íslensk jól í kvöld. Það verður farið í kirkju klukkan 4 og klukkan 6 opna krakkarnir nokkra pakka og svo verður bara slappað af og skroppið í heimsókn til vina.

Það verða engin stórkostleg veisluhöld í mat hjá okkur í kvöld því það verður nóg að borða á morgun þegar við förum til systur Alison í jólamat.

sunnudagur, desember 21, 2008

Leikrit

Hávar hefur verið að æfa lítið leikrit með hópi af ungu fólki (í sambandi við kirkjuna) og í dag var sýningin sem var haldin í kirkjunni. Hávar lék Karl krónprins og stóð sig mjög vel. Stóru eyrun fara honum bara nokkuð vel.


Eins og þið sjáið á myndinni fyrir neðan stendur hann höfuð og herðar yfir alla aðra krakka. Myndin er ekki mjög skýr en hún var tekinn á símann minn.


Leikritið var um það að Gordon Brown hafði afskrifað jólin vegna fjármálaerfiðleika en drottningin og Karl voru ekki alveg á því.

Í kvöld fóru þau bæði, Lindsey og Hávar, í leikhús á "pantomime" um Öskubusku og auðvitað var voðalega gaman.

föstudagur, desember 12, 2008

Jólin koma

Jólatréð var skreytt og jólaljósin tendruð á síðustu helgi. Enginn er snjórinn þó að það sé kalt og frost flesta morgna.

Eitt af heimaverkefnunum hjá Lindsey í vikunni var að baka brauð og sjá hvernið brauðið lyftist áður en það er sett í ofninn. Auðvitað mundi hún þetta bara kvöldið áður en hún átti að skila heimaverkefninu.

Hérna er stúlkan að hnoða deigið sem henni fannst mjög gaman.

Takiði eftir að hún er i bleikum náttfötum.

Þessi mynd er svo tekin tveimur klukkutímum seinna þegar deigið er búið að rísa og brauðsnúðarnir eru á leiðinni inn í ofn.

Núna er hún í bláum náttfötum.

Hún er alltaf að skifta um föt þessi stelpa.

fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Gleraugu


Hérna er mynd af dömunni með nýju gleraugun.

mánudagur, nóvember 24, 2008

Hitt og þetta

Önnur vika byrjuð og ég er ennþá í Bracknell. Ég er farinn að verða þreyttur á þessu leiðinda verkefni og get ekki beðið eftir að því ljúki. Sem betur fer lítur út fyrir að það fari að hægja á þessu hjá mér í desember og ég fari að vinna að öðrum verkefnum. Ég krosslegg fingurna til lukku.

Ég pantaði mér frí frá vinnunni á miðvikudaginn til að taka því rólega með konunni minni en það gengur ekki allt eftir áætlun á þessari jörð. Kona nágranna okkar dó í síðustu viku og verður jörðuð á miðvikudaginn. Við ætlum að sýna þeim stuðning og fara í jarðarförina.

Lindsey var að fá gleraugu í dag. Hún hefur verið að kvarta yfir því að eiga erfitt með að lesa og sjá á töfluna í skólanum svo Alison fór með hana til augnlæknis sem sagði að hún væri dálítið nærsýn -0.5 eða svo. Ég hef ekki séð gleraugun en hún er víst ánægð með þau - blá umgjörð skilst mér. Henni finnst þau bara cool.

Hávar er kominn með "kærustu"! Þetta er stelpa úr leikhúshópnum hans en hún er í öðrum skóla þannig að þau hittast bara á helgum en það stoppar þau ekki frá því að spjalla á MSN sem þau gera á hverjum degi. Þau eru búin að vera "saman" í þrjár vikur. Við erum ekki búin að hitta hana fyrir alvöru en séð hana á sviði og svoleiðis. Lítur út fyrir að vera ágætis stelpa en hún er bara 13 ára. Ég efast um að foreldrar hennar séu alltof ánægð, en þetta er allt í sakleysi.

mánudagur, nóvember 10, 2008

mánudagur, nóvember 03, 2008

Enn eitt ár

Ég hélt uppá afmælisdaginn minn í gær með fjölskyldunni, einum degi á undan áætlun. Við Alison fórum út að ganga seinni partinn og og enduðum með að heilsa uppá vini. Þegar við komum svo loksins heim voru krakkarnir búnir að baka afmælisköku handa mér, þessar elskur, og líma upp afmælisborða. Eftir matinn opnaði ég svo pakkana mína. Voða gaman.

Í kvöld hélt ég svo uppá dagin með því að fara einn út að borða því það var enginn til að fara með mér. En ég ætla að fara heim á miðvikudaginn því þá verður "Bonfire Night" með tilheyrandi brennum og flugeldum.

sunnudagur, nóvember 02, 2008

Myndir frá Prag

Ég var að láta nokkrar myndir frá helgarferðinni okkar Alison til Prag á Picasa.

miðvikudagur, október 29, 2008

Vel heppnuð helgarferð

Langtímaspáin var aldrei neitt sérstök dagana áður en við lögðum af stað til Prag. Það var alltaf spáð rigningu, eða þoku en þegar við komum þangað á laugardaginn var þar þetta fallega haustveður, stilla og sólskin.

Við tékkuðum okkur inná hótelið sem var fyrir utan miðbæinn þar sem var rólegt. Þegar ég pantaði hótelherbergið þá tók ég tilboði um að breyta í "suite" sem var einskonar smá-íbúð með holi, svefnherbergi, stofu og baðherbergi. Mjög þægilegt. Það var Metró stöð hinumegin við götuna svo tókum við Metróinn beint niður í bæ til að skoða okkur um.

Við gengum heilmikið um og skoðuðum, svo mikið að okkur verkjaði í fæturna daginn eftir. Það var klifrað upp turna (það er hellingur af þeim þarna) til að skoða útsýnið og gengið eftir fallegum götum. Okkur fannst þetta allt voða gaman.

Maturinn þarna var góður. Við borðuðum alltaf niðrí bæ á kvöldin því það var svo skemmtilegt andrúmsloft, mikið af fólki að skoða sig um.

Veðrið á sunnudeginum var jafnvel betra en á laugardeginum og það var gaman að ganga um í Petrin garðinum sem er á hæð vestan við Moldána. Haustlitirnir voru frábærir og útsýnið yfir borgina líka.

Það var smá úði á mánudagsmorguninn en það hélst ekki lengi. Við skoðuðum gyðingahverfið og það var dálítið dapurlegt að ganga um í gamla kirkjugarðinum sem var ekkert voðalega stór en þar voru 12,000 legsteinar og um 100,000 manns jarðaðir.

Þetta var vel heppnuð helgarferð og við Alison erum mjög ánægð þrátt fyrir að vera ansi þreytt.

Svo þegar við komum heim til Englands var drullukalt og snjór á bílnum. Og á leiðinni heim var stórhríð (í hálftíma).

Við tókum slatta af myndum sem ég verð að flokka og hlaða upp á Picasa fyrir ykkur en ég hef ekki haft tíma til þess enþá. Kanski á helginni.

þriðjudagur, október 21, 2008

Stress, Prag og Honda

Þið verðið að fyrirgefa þessa þögn sem hér hefur ríkt síðustu vikur. Eftir að ég kom heim frá Íslandi og afmælishelginni hanns pabba byrjaði ég á nýju verkefni sem hefur tekið allan tíma frá mér. Það hefur verið tekin á leigu lítil íbúð fyrir mig í Bracknell þar sem gisti á virkum dögum þannig að fjölskyldan mín sér mig bara á helgum. Ég er kominn í vinnuna klukkan átta á morgnana og hún er venjulega komin framyfir átta á kvöldin þegar ég hætti. Þetta er byrjun á stóru prógrammi þar sem er verið að sameina tvö símafyrirtæki. Heilmikið stress.

En á næstu helgi förum við Alison í langt helgarfrí til Prag í Tékklandi sem ætti að draga aðeins úr stressinu hjá mér. Við fljúgum út snemma á laugardagsmorgni og komum til baka seint á þriðjudegi. Næsta vika er hálfannarfrí frá skólum og krakkarnir verða hjá vinum og afa sínum meðan við spáserum í útlandinu. Þetta á eftir að vera gaman. Vona bara að veðrið verði gott því það er farið að hausta og það getur orðið kalt þarna í mið-Evrópu.

Annað í fréttum er að Alison er búin að skyfta um bíl. Búin að gefast upp á sínum gamla Rover 25 og komin á nýlega Hondu Jazz í staðinn.

sunnudagur, september 28, 2008

Bjarnabarnamót

Á föstudagskvöldið var komum við systkinin saman hjá honum Herði. Árný eldaði þessa fínu fiskisúpu handa okkur áður enn hún hvarf með Einar litla og skildi okkur systkinin ein eftir. Súpan rann vel niður og Helga ætlaði aldrei að geta stoppað, enda er hún að borða fyrir tvo ;).

Svo var sest niður og spjallað um lífið og tilveruna og gamlir tímar rifjaðir upp.

Það var ákveðið að slá saman einhverjum hendingum sem við gætum sungið fyrir pabba daginn eftir og afraksturinn var Bjarnabarnabögur. Þær eru sungnar við "Syngjandi hér, syngjandi þar, syngjandi geng ég alstaðar...", en viðlaginu breyttum við í "Smíðandi hér, smíðandi þar, smíðandi er hann alstaðar. Sí og æ, æ og sí, aldrei fær hann nóg af því." Sumar bögurnar eru einskonar einkahúmor en afraksturinn er svona (muniði að endurtaka fyrstu línuna og syngja viðlagið á milli)


Bjarnabarnabögur

Við gleðjumst með sjötugum gæðasmið
Sem finnst voða fyndið að reka við
Og getur ropað stafrófið

Hann Breiðuvíkurdrengur var
Stundaði böllin og kvennafar
Og hitti mömmu okkar þar

Fjórum börnum hann kom á ról
Svo tók han saman sín smiðatól
Og fluttist vestur á Kirkjuból

Í sveitinn þar var kyrrð og ró
Nema þegar pabbi mömmu sló
Lét á rassinn og skellihló

Við áttum hrút sem að Múli hét
Eftir að hann dó ég sárast grét
Því alltaf var í matinn Múlakjet

Eftir að komu Önundarfjörð
Innan um beljur og lambaspörð
Gátu þau Boggu, Helgu og Hörð

Sem bóndi gaf hann sjónum gaum
Þar til hann uppfyllti gamlan draum
Á Fífu, Tomma, Nökkva og Straum

Þrátt fyrir að eiga öll þessi börn
Fær hann bara kaffikvörn
Hann hefði átt að nota getnaðarvörn

Oftast erum við prúð og pen
Því við höfum þessi gæðagen
Frá honum Bjarna Thorarensen

föstudagur, september 26, 2008

Kominn til landsins

Ég er kominn til landsins. Fluginu seinkaði um 2 tíma og vélin fór í loftið klukkan 23:25.

Það var dálítið fyndið hvað áhöfnin var alltaf að minna farþegana á að flýta sér að setjast niður svo þeir gætu farið af stað. Þeir voru dálítið stressaðir. Svo þegar vélin var að fara í loftið heyrði ég á tali þeirra að ef vélin hefði ekki verið farin af stað klukkan 23:28 þá hefði hún verið kyrrsett þangað til um morguninn. Bara 3 mínútur eftir. Flugvöllurinn lokar nefnilega yfir nóttina.

Ég fékk þetta fína sæti aftarlega í vélinni þar sem neyðarútgangurinn var og þess vegna mikið pláss fyrir fæturna. Ég var líka einn í sætisröðinni. Þetta var eins og á Saga Class.

Hér er rok og rigning (ekta enskt sumarveður) en það á víst að lagast.

fimmtudagur, september 25, 2008

Tafir

Það verður komið fram yfir midnætti þegar ég kem til Íslands. (Geisp)

--
Sent from Google Mail for mobile | mobile.google.com

Stórafmæli

Það er kominn tími til að því að fara af stað útá flugvöll, stíga inní vél og leggja í hann til Íslands því hann pabbi á stórafmæli í dag.

Til hamingju með daginn!

þriðjudagur, september 23, 2008

Sumarblíða

Sumarið loksins byrjað, allavega í nokkra daga.  

Það var indæl blíða á helginni og það bærðist ekki hár á höfði eins og sést á myndinni hérna.



Lindsey fór með vinkonu sinni á línuskautum sínum í kring um vatnið okkar í góða veðrinu.

Og vegna þess hvað sumarið hefur verið lélegt hingað til þá var örtröð af fólki við vatnið að ganga, skokka, hjóla og gefa öndunum.

laugardagur, september 20, 2008

Explorer Scouts

Hávar er farinn í enn eina útileguna með skátunum.  Hann er orðinn of gamall fyrir skátahópinn sem hann var í og er núna að athuga með Explorer Scouts þar sem eru eldri krakkar.  Hann fór með þeim í gær, föstudag, og kemur til baka á sunnudaginn.  En það er ekkert víst að hann haldi áfram því þeir hittast á fimmtudögum þegar hann er í leikhúshópnum sínum og á föstudögum þegar hann er í litlu ungmennafélagi aðra hverja viku.  En við sjáum til.

laugardagur, september 13, 2008

miðvikudagur, september 10, 2008

Svarthol? Hvar?

Núna fyrir skömmu, á landamærum Sviss og Frakklands, stóð hvítklæddur vísindamaður fyrir framan rauðan takka með yfirskryftinni: "LHC ON/OFF" og ýtti á hann.

Á sama tíma stóð mannkynið á andanum og beið eftir því að vera gleypt af svartholi búið til af manna höndum, en ekkert gerðist.

Nú bíður maður bara eftir fréttum...

þriðjudagur, september 02, 2008

Back to school


Í dag er fyrsti skóladagur ársins, krakkarnir komnir í nýja skólabúinginn og tilbúin í slaginn.

sunnudagur, ágúst 31, 2008

Fuglahræður



Getiði fundið þrjár lifandi fuglahræður?

föstudagur, ágúst 29, 2008

Japanskur harðfiskur

Alison kom með Japanskan harðfisk heim úr vinnunni í gær.

Einhver Japanskur viðskiftavinur hafði gefið þeim hann en það var enginn stóráhugi á honum þannig að Alison tók hann. Hún vissi að ég mundi éta hann.

Okkur skilst að þetta sé hertur lax, allavega er hann dökkrauður á litinn.

Hann er bara ansi bragðgóður þó hann sé svoítið seigur undir tönn.

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Írland 2008

Þá erum við komin heim úr sumarfríinu okkar til Írlands.

Þetta byrjaði á því að leigubíllinn sem við höfðum pantað til að taka okkur út á völl kom aldrei þannig að við urðum að keyra þangað sjálf og leggja bílnum í rokdýru bílastæði. En svo gekk allt ágætlega eftir það.

Bílaleigubíllinn sem við fengum var Citroen C6 og mér fannst bara gaman og þægilegt að keyra honum. Frá Dublin fórum við beint til Lough Derg þar sem við gistum í 2 vikur við golfvöll. Ef ég væri áhugamaður um golf þá hefði þetta verið tilvalið. En þrátt fyrir áhugaleysi á golfi var þetta kjörinn staður til að ferðast um svæðið. Við fórum til Cliffs of Moher og gengum þar um í heilann dag og þar í grendinni er The Burren sem er stórfallegt svæði með mikið af hellum sem við skoðuðum líka (Aillwee og Doolin).

Það var einhver magakveisa að ganga og bæði Alison og Lindsey fengu sinn skerf af henni og urðu að taka því rólega í nokkra daga. Hávar og ég fengum smá óþægindi í magann enn ekkert til að stoppa okkur.

Veðrið var frekar blautt, eins og það er oft á Írlandi en mér skilst að ágústmánuður í ár hafi verið sá blautasti frá því mælingar hófust. Það voru bara örfáir dagar sem voru alveg þurrir, annars voru þetta skúrir og og einstaka úrhelli. En okkur tókst að haga okkur eftir veðri og það var bara einu sinni sem við urðum haugblaut þar sem við vorum að ganga inni í skógi til að finna einhvern foss.

Í lok sumarfrísins fórum við til Killarney og gistum í B&B (Bed and Breakfast) í þrjár nætur sem var gaman. Killarney er í County Kerry þar sem eru fjöll og dalir í staðinn fyrir hæðir. En veðrið var ekki nógu gott til að njóta dýrðarinnar því það var lágskýjað og rigningarsuddi.

Síðasta ævintýrið okkar var um síðasta kvöldið okkar. Við ætluðum að fara út að borða á veitingastað í Killarney þegar Alison stakk uppá því að við keyrðum í gegnum The Gap of Dunloe og borðuðum á pub á hinum endaum. Þetta var alveg frábær leið. Vegurinn er einbreiður svotil alla leiðina og útsýnið alveg frábært. En það var enginn tími til að stoppa til að taka myndir því ferðin tók lengri tíma en við áætluðum (tók okkur 1 og hálfan tíma að keyra) og það átti að loka eldhúsinu á pubbinum klukkan 21:00 og það var farið að dimma. En við héldum áfram með Alison í hláturkasti alla leiðina því hún var svo nervous að við myndum ekki ná í matinn og ég og Hávar hótuðum að grilla hana og éta ef við fengum ekki að borða. En þetta tókst alltsaman og við vorum kominn að pubbinum klukkan 20:56.

Við komum svo heim á þriðjudagskvöld, þreytt en ánægð með fríið.

Ég skelli myndum á Picasa við tækifæri.

fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Takk fyrir drenginn

Hávar er komin heim úr Íslandsferðinni sinni. Hann skemmti sér mjög vel og var fullur af alskyns sögum.

Kærar þakkir til ykkar allra fyrir að hafa gert ferðina hanns svona skemmtilega.

Þá er farið að líða að því að við (hin) förum í sumarfríið okkar til Írlands. Við fljúgum til Dublin snemma í fyrramálið og keyrum svo til Clare Resorts í County Clare. Þar verðum við í tvær vikur og svo förum við í þrjá daga suður til Killarney og endum svo með einni nótt í Dublin áður en við förum aftur heim. Ég get varla beðið eftir því að bragða alvöru Guinness bjór.

Við erum næstum búin að pakka, en ekki samt alveg.

Ég verð að halda áfram...

mánudagur, júlí 21, 2008

Tómt hús

Þessi vika sem mamma hefur verið hjá okkur hefur liðið hratt en það var gaman að hafa hana hjá okkur. Hún fór til Íslands í gær og tók Hávar með sér þannig að það er orðið fámennt hjá okkur í kotinu.

Lindsey byrjaði í morgun á viku námskeiði með Youth Afloat þar sem ýmislegt verður gert við og á vatninu okkar hér í Redditch. Hún var voða spennt í morgun þegar hún fór þangað og vonandi verður hún jafnspennt það sem eftir er vikunnar.

Í maí var ég búinn að vinna hjá sama fyrirtækinu í 10 ár og í tilefni þess var mér gefin smá peningagjöf sem ég átti að eyða í eitthvað sem ég myndi ekki venjulega spandera peningunum mínum í.

Ég er búinn að fara út að versla (eða panta frá Amazon) Wii og Wii Fit fyrir fjölskylduna til að eyða frítímanum í, digital myndavél fyrir Alison (og Hávar því hann ætlar að taka ljósmyndun sem GCSE á næsta ári) og líka nýja videómyndavél fyrir okkur öll. Gamla videomyndavélin gaf sig fyrir nokkrum árum þannig að það var kominn tími til að fá sér nýja og svo erum við líka að fara í sumarfrí.

Fullt af dóti til að leika sér með.

miðvikudagur, júlí 16, 2008

Gestagangur

Það er bara gestagangur í kotinu.

Mamma kom til okkar á laugardaginn síðasta og verður fram á sunnudag þegar hún og Hávar fara saman til Íslands. Lindsey hefur fengið frí frá skólanum til að geta verið með ömmu sinni. Þetta er síðasta vikan þeirra í skólanum þannig að það er ekki mikið um lærdóminn hvort sem er.

Við fórum á sunnudaginn til Black Country Museum og svo hefur Alison verið önnum kafin við að fara hingað og þangað: Charlcote Park, Solihull, Hatton, o.s.f.v. á meðan ég er að vinna. Veðrið hefur verið ágætt fyrir mömmu, ekki of heitt, en stundum dálítið of kalt.

Í vikunni keypti Alison spilapakka handa Lindsey. Þetta eru spil til að spila Old Maid sem er svona svipað og Svarti Pétur. Hún hefur verið að spila við Hávar, mömmu sína og ömmu og hún hefur aldrei tapað. Í gær spilaði ég við hana í fyrsta skifti og hún vann aftur. Ég fór að skoða spilin aðeins nánar og þá tók ég eftir því að spilið sem var Old Maid hafði ör fínar rispur á hverju horni. Rispur sem litu út eins og þær hafi verið gerðar með lítilli nögl. Haldiði ekki að stelpan hafi verið svo kræf að merkja spilið þannig að aðeins hún vissi hvernig. Og þess vegna vann hún í hvert skifti. En það komst upp um hana á endanum og fyrir vikið var hún hressilega kitluð.

mánudagur, júní 30, 2008

Síðustu dagarnir...

Á fimmtudaginn fóru strákarnir einir með lest til Stratford-upon-Avon þar sem þeir fóru í sund og röltu um bæinn. Þeir fóru líka í ferð með þaklausum ferðamannastrætó en þeir komust ekki inn í fæðingastað Shakespeare vegna þess að það var enginn fullorðinn í fylgd með þeim. Svo fóru þeir á Pizza-Hut til að borða.

Á föstudaginn var svo farið aftur í skólann en ég veit ekki mikið hvað gerðist þar. Ég held að það hafi verið rólegur dagur. En um kvöldið fóru þeir með skátunum í helgarferðina sem tókst bara vel. Þeir fengu gott veður og skemmtu sér vel. Þeir gengu um 8 mílur og svo fóru þeir í bjargsig, skutu af loftriflum og eitthvað fleyra. Á sunnudaginn var svo tívolí hjá þeim. Þegar þeir komu heim fengum við okkur að borða og svo fórum við í bíó og sáum nýju Narníu myndina, Price Caspian, sem var voða gaman.

Í dag fóru allir [nema ég sem verð a vinna :( ] til Warwick Castle í góða veðrinu. Þetta er síðasti dagurinn hjá Sveinbyrni, hann fer heim á morgun. Við eigum eftir að sakna hanns því það hefur verið gaman að hafa hann hjá okkur.

miðvikudagur, júní 25, 2008

Skóladagur

Í gær fór Sveinbjörn með Hávari í skólann.

Hann var ekkert sértstaklega kátur um morguninn en seinna, þegar skóladagurinn var búinn, og spurður hvernig dagurinn hafi verið svaraði hann með brosi að hann hafi verið í lagi. Þetta var semsagt ekki eins slæmt og hann var að búast við.

Um kvöldið fóru þeir svo í skátana þar sem var farið til Limebridge (skátabúðir) og æft í bogfimi. Þar hitti hann nokkra af strákunum sem fara í "Malvern Challenge" á næstu helgi.

Í dag voru þeir eigin spítum drengirnir, og dunduðu heima um morguninn en seinni partin kom Alison heim úr vinnunni og þá fóru þau í hjólreiðaferð niður að vatni. Svo skruppu þeir í bæjinn og kíktu í búðir og svoleiðis.

mánudagur, júní 23, 2008

Dreyton Manor

Í dag fórum við öll í Dreyton Manor skemmtigarðinn. Frábært stuð og allir skemmtu sér.

Myndir á Picasa og hér er slideshow:

sunnudagur, júní 22, 2008

Sveinbjörn frændi

Sveinbjörn frændi kom á föstudagskvöld.

Ég sótti hann út á Heathrow sem var ekki mikið mál því ég var að vinna í Bracknell þann daginn. Þegar við komum heim var hann ekkert þreyttur, enda klukkan á Íslandi einum klukkutíma á eftir okkur, þannig að hann og Hávar horfðu á einhverja bíómynd sem Hávar átti á disk framyfir miðnætti.

Í gær, laugardag, var leiðinda rigning mestallann daginn. Stákarnir sváfu út en Lindsey vaknaði snemma til að fara í afmælisveislu, bíó og Pizza Hut á eftir. Þegar strákarnir voru komnir á fætur fórum við aðeins að versla því Sveinbyrni vantaði mynniskubb fyir myndavélina sína. Seinnipartinn fórum við í keilu með systur Alison og fjölskyldu hennar, krakkarnir á einni braut og við fullorðnu á annarri. Eftirá fórum við öll heim og fengum okkur að borða.

Í dag hefur veðrið verið betra en það var í gær en það hefur blásið hressilega. Við fórum til Black Country Museum sem er svipað og Árbæjarsafnið nema hvað þetta er í sambandi við kolanámur, iðnaðartímabilið og hús frá Viktoríu tímanum. Við fórum ofan í kolanámu, sátum á skólabekk í Viktorískum skóla, fórum í bíltúr í gufuknúnum bíl, og fórum í neðanjarðar bátsferð.

Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni:

miðvikudagur, júní 18, 2008

Fathers Day

Síðastliðinn sunnudagur var þriðji sunnudagur í Júní sem er, samkvæmt dagatalinu hérna, feðradagur (Fathers Day).

Það fór ekki mikið fyrir afslöppun, heldur var ég önnum kafinn við að þrífa gluggana á húsinu, lagfæra þakrennurnar og setja upp körfuboltakörfu fyrir krakkana.

Krakkarnir gáfu mér kort og gjafir, sem mamma þeirra varð að minna þau á að skrifa og pakka inn. Ég fékk bleika (og bláa) pólóskyrtu, sem er fyrsti klæðnaðurinn í þeim lit í mínum fataskáp. Gefur mér kanski tækifæri til að sína mína femenísku hlið ??? Og svo fékk ég líka flösku af Scottish Single Malt Whiskey sem mig vantaði alveg því ég var nýbúinn að klára úr þeirri gömlu. Gott fyrir gamlan karl.

Það fer að styttast í það að Sveinbjörn frændi komi í heimsókn. Á föstudagskvöld fer ég til Heathrow að sækja drenginn og hann verður hjá okkur í eina og hálfa viku. Vonandi verður veðrið gott, en það hefur verið að blása og rigna í dag.

Það er ekki búið að ákveða hvað verður gert en Hávar er búinn að fá frí úr skólanum í nokra daga en planið er að Sveinbjörn fari eitthvað aðeins með Hávari í skólann til að upplifa hvernig er að vera í skóla hér í Englandi.

Við gerum okkur eitthvað til gamans. Við ætlum annað hvort til Drayton Mannor eða West Midland Safari Park og svo verðum við að skoða einhvern kastala og Hávar ætlar að taka hann í lestaferð til Stratford-upon-Avon (fæðingastaður Shakespeare) þar sem þeir geta farið í sund og svoleiðis. Svo fara þeir saman í ferðalag með skátunum yfir seinni helgina þar sem verður ferðast um Malvern Hills.

Hér eru allir spentir eftir því á fá Sveinbjörn í heimsókn.

mánudagur, júní 09, 2008

Vikan í hnotskurn

Það er búið að vera mikið um stutt verkefni í vinnunni. Í síðustu viku voru það tveir dagar í London svo einn í Bracknell og svo endaði vikan í Birmingham.

Á föstudagskvöld var mér boðið á pöbbarölt sem var voða gaman en ég er allveg óþjálfaður í svona "atvinnu" drykkjumennsku og þess vegana varð ekkert úr Laugardeginum hjá mér. Ég verð að læra af þessu.

En fyrir utan Laugardaginn var helgin góð og og ekki spillti frábært veður. Um laugardagskvöldið var ég búinn að jafna mig og þá fórum við Alison út að borða á Indverskan veitingastað með öðrum fjórum pörum. Gott kvöld, góður matur og góður félagsskapur!

Hávar fór með skátunum í síkja-siglingu á helginni. Lagði af stað á föstudagskvöld og kom heim á í gærkvöldi (sunnudag) dauðþreyttur en hafði skemmt sér vel. Hann fór í svona ferð í fyrra líka en þá kom hann heim haugblautur en veðrið lék við þá í þetta sinnið.


Lindsey fékk vinkonu í heimsókn og gistingu á Föstudaginn og fór svo sjálf í heimsókn og gistingu hjá annari vinkonu sinni á Laugardaginn. Á Sunnudaginn var svo heitt að vatnsrennibrautin var græjuð fyrir Lindsey til að kæla sig (og skemmta sér).

Og í dag heldur góða veðrið áfram með næstum 30° hita. Það eru allir gluggar opnir og ég er kominn í stuttbuxurnar.

fimmtudagur, maí 29, 2008

Ironbridge

Það var frídagur á mánudaginn og krakkarnir hafa verið hálfannarfríi frá skólanum þessa vikuna.

Við ákváðum að gera "alvöru" frí úr þessum frídögum og gistum í tvær nætur á hóteli nálægt Ironbridge í Shropshire frá sunnudegi fram á þriðjudag. Það var sundlaug í hótelinu sem krökkunum fannst gaman að skella sér í.


Við vorum mitt á milli veðra. Í suður England var allt á floti en fyrir norðan var sól og blíða. Hjá okkur hélst þurrt en það var skýjað og það var ekkert sérstaklega hlýtt. En það var gaman að skoða söfnin í Ironbridge sem eru um iðnaðarbyltinguna sem varð í Bretlandi, og sérstaklega í þessu þorpi, á átjándu öldinni.

Ég gleymdi að taka myndavélina með mér sem ég var sár yfir því það var hellingur af myndefni þó að veðrið væri ekki uppá það besta. Náði bara að taka þessar á símann.

mánudagur, maí 19, 2008

Brenninetlur

Lindsey litla lenti í raunum á mánudaginn í síðust viku.

Þegar hún var að leika sér með skátahópnum sínum (Brownies) datt hún í brenninetlur og svo datt önnur stelpa ofan á hana. Það tók hana allt kvöldið að jafna sig. Hún fór í sturtu sem gerði sviðann bara verri og það tók langan tíma fyrir ofnæmispilluna til að virka.

Bæði Lindsey og Hávar fóru í heimsókn til vina á laugardaginn. Lindsey fór í afmælisveislu þar sem var tjaldað í bakgarðinum og sofið þar yfir nóttina. Það var kanski ekki sofið mikið því hún var ofsalega þreytt á sunnudagskvöldið.

Hávar fór til vinar síns, fór á karnival með honum og gisti líka yfir nóttina. Í dag byjaði hann á fyrst degi í ævintýravikunni sinni og er í West Midlands Safari Park.

Við Alison tókum okkur til á meðan við vorum barnslaus á laugardaginn og fórum í bíó (What happens in Vegas) og fengum svo gesti í mat um kvöldið.

Þetta verður þriðja vikan í röð sem ég er að vinna í Birmingham og fer heim á hverju kvöldi. Þetta er allt annað líf.

laugardagur, maí 10, 2008

Alvöru sumarvika

Þetta var fyrsta alvöru vika sumarsins með 25 stiga hita uppá hvern dag. Frábært! Garðurinn hefur verið sleginn og eitthvað af illgresinu hefur verið upprætt. Krakkarnir eru alltaf úti að leika sér (þegar þau eru ekki í skólanum) og við höfum farið út að borða í góða veðrinu.

Þetta er líka fyrsta vikan í mjög langan tíma sem ég hef ekki þurft að gista að heiman vegna vinnunar. Ég hef verið að vinna í Birmingham og bara einn stuttur dagur í Manchester. En það endist trúlega ekki lengi.

Hávar hefur verið í SAT prófum alla vikuna og er ánægður með að þau séu búin. Það er ekki gaman að sitja á skólabekk í 25 stiga hita. Ekki næstu viku heldur vikuna þar á eftir verður "activity week" í skólanum hjá honum og þá verður farið í alskonar ferðir. Hann er búinn að panta pláss fyrir sig í ævintýraferðir á hverjum degi:

Endalaust fjör í heila viku.

Lindsey er orðin mjög góð á línuskautunum sínum en það tók nokkrar ferðir til að fá skauta sem virkuðu. Við urðum að taka fyrstu skautana til baka tvisvar því að það komu stress sprungur í plastið. Á endanum fengum við þá endurgreidda og keyptum aðra tegund í staðinn. Hún er stóránægð og skautar á hverjum degi.

mánudagur, apríl 28, 2008

Búinn að fá nóg af Fésbókinni

Búinn að prufa Fésbók.

Það var gaman í smá tíma að finna fólk en svo varð þetta bara leiðinlegt. Síðurnar eru alltof langar og fullar af drasli. Allskonar "applications" til að senda fyndna mynd eða videó, taka þátt í spurningaleik eða IQ prófi, senda faðmlög, kossa, úldna sokka eða eitthvað annað fáránlegt.

Fésbókin á semsagt ekki alveg við mig. Held ég leggi hana á hilluna þó að það sé auðvelt fylgjast með þegar maður er með Flock.

* * *

Ég hef alveg gleymt alveg að minnast á afmælis-partíið hennar Lindseyar. Hún átti náttúrulega afmæli í Mars en hélt ekki partý fyrr en fyrir tveimur vikum. Hún bauð flestum úr bekknum sínum í dýra-partý. Það kom kona með alskonar dýr: tarantula, chinchilla, rottur, snáka, eðlur, risa kanínu, og eitthvað fleira. Hún talaði um dýrin og krakkarnir fengu að snerta og halda á þeim. Þetta fanst þeim mjög gaman.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Fésbók

Ég var að skrá mig á Facebook í kvöld.

Þetta er búið að vera svo mikið í fréttunum og það eru svo margir að tala um þetta þannig að ég varð að athuga hvað allur þessi hávaði er um.

Ég er ekki búinn að gera mér neina ákveðna skoðun um hlutina. Lítur út fyrir að geta orðið mikill tímaþjófur, en við sjáum til.

laugardagur, apríl 19, 2008

Sönnunargagn

Hörður og Árný halda því fram að Google Earth hafi náð myndum af mér í sólbaði í garðinum mínum.

En ég verð að afneita þessari kenningu því þetta er bara skuggi af pottaplöntu. Hér er sönnunargagnið þó enginn sé skugginn dag:

föstudagur, apríl 18, 2008

Internet frík

Íslendingar eru víst mestu internet fríkin í Evrópu.

Er nokkur hissa?

föstudagur, apríl 11, 2008

Snjómyndir

Hér eru nokkrar myndir frá síðustu helgi. ( Picasa )


þriðjudagur, apríl 08, 2008

Hundar og Snjór

Við Alison fórum í hundana á helginni.

Við fórum með vinum á
"Greyhound Racing" þar sem við fengum okkur að borða og svo var sett á hundana. Auðvitað unnum við ekki oft og komum út i mínus en það var gaman að þessu í góðum félagsskap.

Krakkarnir gistu hjá systur Alison yfir nóttina en þegar við vöknuðum og litum útum gluggann sáum við að allt var orðið hvítt.

Ég held að þetta sé fyrsti snjór "vetrarins", núna þegar það er komið vor.

Þetta voru trúlega um 10 sentimetrar af púðursnjó sem var farinn að bráðna í morgunsólinni sem skein í heiðum himni. Ég fór að sækja krakkana og tók sleðann hennar Lindseyar með mér og þegar ég kom til þeirra voru þau farin út í almenningsgarðinn til að leika sér. Ég fann þau og þau skemmtu sér þar við að renna sér og búa til snjókarla.

En dýrðin var ekki langlíf og um kvöldið var allur snjór horfinn.

Blogged with the Flock Browser

föstudagur, apríl 04, 2008

Puttalingur

Við ákváðum að fara í hjólreiðaferð í kvöld öll fjölskyldan, sérstaklega vegna þess að Lindsey er svo spennt að nota nýja hjólið sitt. Við lögðum af stað en ekki höfðum við komist langt áleiðis þegar við urðum að stoppa. Hávar hafði farið aðeins á undan og svo stoppað til að bíða eftir okkur og á meðan hann var að bíða tróð hann fingri inn í endann á stýrinu og þar sat hann fastur.

Við fórum heim og helltum uppþvottalegi og svo matarolíu til að reyna að fá hann lausan. Hávari fannst þetta bara fyndið þó að við værum að segja að við yrðum að fara með hann uppá spítala með stýrið á fingrinum. En Lindsey fannst þetta ekkert fyndið og fór að gráta.

En þetta gekk á endanum og hann varð laus og við fórum af stað aftur í hjólreiðarferðina sem gekk áfallalaust.

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Mörgæsir

Nýjustu fréttir frá BBC!


mánudagur, mars 31, 2008

Páskafrí

Við komum heim úr páskafríinu okkar á laugardaginn. Pabbi Alison, systir hennar og fjölskylda voru þarna líka. Við fórum í gönguferðir meðfram ströndinni og sulluðum í fjörupollum með krökkunum. Veðrið hélst ágætt og þó að veðurstofan væri alltaf að spá einhverjum rigningum og stormum þá varð aldrei neitt úr neinu.

Lindsey hélt uppá afmælið sitt á páskasunnudaginn, orðin 9 ára gömul.

Áður en við fórum í fríið keypti hún sér línuskauta fyrir pening sem hún hafði safnað sér, og hún hafði tíma til að æfa sig einu sinni áður en við fórum. Þegar við komum til baka fór hún aftur á skautana og hún er bara orðin nokkuð góð, getur allveg skautað ein. Í dag fór hún svo á skautunum í kringum vatnið (~1.5 km) okkar.

Hún fékk nýtt hjól frá okkur því það gamla var orðið of lítið. Það nýja er kanski aðeins í stærri kantinum en hún getur svona nokkurnveginn valdið því. Hún á eftir að stækka.

Krakkarnir eru í páskafríi þangað til á fimmtudaginn.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Hvað gerðum við á helginni?

Á síðustu helgi fór Hávar í leiðangur með skátunum til dalana í Yorkshire þar sem þeir fóru í ratgöngu (sem reyndar varð að enda snemma vegna þoku) og rannsökuðu fallega hella með dropasteinum og svoleiðis. Það var farið af stað á föstudagskvöld og komið heim á sunnudagskvöldi. Hann var náttúrlega haugþreyttur þegar hann kom heim en hafði skemmt sér vel. Og þrátt fyrir að hann hafi verið með slæmt hné (vaxtaverkir, því hann er alltaf að stækka) þá gekk hann með hinum strákunum.

Auðvitað varð að gera eitthvað fyrir Lindsey líka. Hún fór og gisti hjá vinkonu sinni á laugardaginn og á sunnudaginn fórum við með hana í Ten Pin Bowling og í bíó til að sjá Penelope.

Og á meðan við Alison vorum barnslaus á laugardaginn tókum við okkur til og fórum út að borða á Mexíkanskan stað og svo í bíó til að sjá The Other Boleyn Girl. Alison er búin að lesa bókina og vildi fá að sjá myndina sem var fín, þó ekki eins góð og bókin að mér skilst.

Helgin í stuttu máli var semsagt: Hávar streðaði með skátunum og við hin fórum í bíó og skemmtum okkur.

sunnudagur, mars 09, 2008

14 ára sláni

Í gær átti sláninn okkar afmæli og er þá orðinn 14 ára.

Einn vinur hans kom í heimsókn í gær og gisti nóttina. Um kvöldið pöntuðum við Indverskan "take-away" mat og slöppuðum af.

Núna eru hann og átta vinir farnir uppí bæ til að "hang out" og svo á að fara í bíó og sjá Vantage Point. Við Alison ætlum líka í bíó með Lindsey og vinkonu hennar og sjá The Game Plan.

Þá er búið að ganga frá gólfinu. Flísarnar komnar niður í holinu og teppi á stigann, ganginn uppi og svefnherbergið.

Þá er bara eftir að finna gluggatjöld fyrir gluggann í holinu og á leiðinni upp stigann.

Við erum búin að fá gluggatjöld fyrir svefnherbergið sem eru svaka flott.

Mér finnst þetta allt bara fínt en Alison er ekki alveg búin að jafna sig á teppinu, sérstaklega í svefnherberginu. Henni finnst það aðeins of dökkt og of brúnt. En hún er ánægð með holið.

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

The Eyre Affair

Ég ætla bara að deila með ykkur hvað ég er að lesa þessa dagana.

Það er "The Eyre Affair" eftir Jasper Fforde.

Ég fékk hana að láni frá kunningja sem mælti með henni og það geri ég líka. Stórskrítin en stórgóð bók. Öðruvísi saga þar sem ekki er allt sem sýnist...

Jarðskjálfti

Það reið víst jarðskjálfti yfir Bretland um eitt leitið í nótt.

Ég svaf bara og fann ekki neitt, enda er ég ekki viss um að hann hafi fundist í Newbury, en Alison vaknaði og það var allt á skjálfi. Hún fór á fætur til að athuga hvað þetta hafi verið og tuttugu mínútum seinna kom það í ljós að grunsemdir hennar voru réttar því þetta fór að birtast í fréttunum í sjónvarpinu.

Svona lagað er fréttnæmt því það gerist ekki svo oft hér á slóðum.

laugardagur, febrúar 23, 2008

Konan farin til Írlands

Núna er konan farin frá mér í sína árlegu reisu með vinnunni að skoða hótel. Í þetta skifti fóru þau til Írlands, en ekki gekk það allt samkvæmt áætlun. Hún lagði af stað eldsnemma í gærmorgun út á flugvöll því flugvélin átti að leggja af stað til Dublin rétt fyrir 8 en hún vildi ekki fljúga allavega var ekki hægt að loka hurðinni. Hópurinn fór því úr vélinni til að athuga með aðrar vélar sem var ekki auðvelt en á endanum fundu þau pláss og komust til Dublin um tvö leitið.

Þetta er svolítið skondið að hún hafi farið til Írlands því við ætlum þangað í sumarfríið okkar í Ágúst. Erum búin að bóka svotil allt og erum spennt. Ég býst við að hún komi með hauga af bæklingum um staði sem hún vill skoða í sumar.

Það var líka annað sem var skondið í síðustu viku. Ég er nýbyrjaður á nýju verkefni hjá Vodafone í Newbury og ég var að setja upp tölvupóstfangið mitt hjá þeim á fimmtudaginn og var að lesa póstinn sem var í innboxinu þegar ég sé póst frá einhverjum á Englandi til fólks á Íslandi. Ég vissi ekki af hverju ég var að fá þennann póst en bjóst við að einhver hafði bætt mér óvart við listann. Þegar ég var búinn að lesa allann póstinn kemur nýr póstur frá einhverjum Pétri sem var að forðast yfir því afhverju einhver hafði bætt þessum Ingvari Bjarnasyni á póstlistann. Honum fanst þetta sniðugt því hann ætti mág í Englandi með þessu nafni.

Auðvitað var þetta hann Pétur Rúnar mágur minn, og ég svaraði og sagði hver ég væri og að ég væri líka mágur hanns Péturs. Þetta var skrítin tilviljun.

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Vor í lofti

Alveg er þetta magnað með þetta veður. Venjulega er febrúar sá mánuður þegar veðrið er leiðinlegast en það er bara vor í lofti.

Við fórum í helgarferðina okkar (á síðustu helgi) og það var blíða uppá hvern dag. Þegar við vorum hjá vinum okkar í Chard, fórum við í skoðunarferðir til Exeter, Lime Regis and Sidmouth og nutum þess að ganga um í góða veðrinu. Hitinn fór upp í 15 stig á daginn en var um frostmark á næturnar því það var heiðskírt.

Við fórum út að borða á kínverskum veitingastað þar sem ég borðaði á mig gat og þurfti ekki að borða mikið næstu tvo daga.

Á mánudagsmorgun lögðum við af stað til London. Leiðin þangað lá framhjá Stonehenge og auðvitað stoppuðum við þar. Þetta var í fyrsta skifti sem ég hef komið þangað.

Í London fórum við á sýningu gersema Tutankhamun (ungi faraóinn) sem var gaman, sérstaklega fyrir Lindsey því hún er að læra um Egypta í skólanum.

Daginn eftir fórum í skoðunarferð um BBC (Breska sjónvarpsöðin) og svo í London Eye parísarhjólið. Um kvöldið var svo lagt af stað á Lion King en það var eitthvað vesen á neðanjarðarlestinni og hún sat föst á Piccadilly Circus þegar það voru aðeins 20 mínútur þangað til sýningin átti að byrja þannig að við urðum að hlaupa að Covent Garden. Það var svaka mannþröng við Leicester Square þar sem Silvester Stallone var að opna frumsýningu á nýjustu Rambo myndinni sinni. Við urðum að ryðja okkur í gegnum allt liðið í flýti og höfðum ekki tíma til að líta á Stallone en við heyrðum í honum. Við náðum að komast á sýninguna rétt í þann mund er hún var að byrja og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var ein sú besta sýning sem við höfum séð.

Á miðvikudaginn fórum við á National History Museum og skoðuðum aðeins þar en það er bara svo svakalega stórt (og flott) að það var engin von um að klára það. Svo var haldið heim á leið.

Í dag fórum við út að ganga í Leamington Spa og aftur var veðrið frábært, kalt í skugganum og frost á jörðu en hlýtt í sólinni sem skein í heiðbláum himni og logni. Blóm eru farin að koma upp úr jörðinni og á trjánum sem er hættulegt því þetta getur ekki staðið lengi.

Og það er fleira en blóm og skordýr sem eru að koma úr vetrardvala. Ís-bílar eru út um allt en venjulega sér maður þá ekki nema um hásumarið.

föstudagur, febrúar 08, 2008

Helgarferð

Í fyrramálið leggjum við af stað í langa helgarferð.

Fyrst förum við til Chard í Devon, suður Englandi, og gistum hjá vinum í tvær nætur og svo förum við til London í aðrar tvær nætur.

Í London ætlum við að fara í leikhús og sjá The Lion King og svo ætlum við á sýningu Tutankhamun. Við ætlum líka að skoða BBC Studios og einhver söfn. Þetta á eftir að vera gaman.

Hef ekki tíma til að skrifa meira. Bæ í bili.

laugardagur, febrúar 02, 2008

Hvert fór snjórinn?

Í gær komu Alison og Lindsey heim mjög æstar og sögðu að við yrðum að drífa okkur út í búð og kaupa sleða því snjórinn væri á leiðinni.

Þær höfðu af því áreiðanlegar heimildir. Einhver hafði sagt þeim að það væri farið að snjóa í Birmingham og dökkt snjóský væri á leiðinni suður.

En klukkan var orðin hálf sex og allar búðir farnar að loka þannig að engann keypti ég sleðann.

Svo byrjaði að snjóa, í heilar fimm mínútur, og þá var það búið. Var ekki nóg til að fá gráa hulu, hvað þá að fara í sleðaferð.

Og Lindsey var ekkert ánægð í morgun heldur. Það fyrsta sem hún gerði var að kíkja útum gluggann til að athuga hvort það hefði snjóað um nóttina, en það var enginn snjór.

Það er kanski sem betur fer því Hávar fór af stað með skátahópnum sínum í morgun í helgarreisu. Þeir eru að æfa sig fyrir Dovedale göngu og ætluðu í næturgöngu í nótt með bakpoka og allar græjur.

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Manchester

Verkefninu sem ég hef verið að vinna að í Manchester fer að ljúka en ekki eins endanlega og væri best.

Við erum búin að gera allt sem við eigum að gera og getum gert en það sem eftir er eru dálítil vandræði með vinnsluhraðann á kerfinu. Sem betur fer er það ekkert í sambandi sem við höfum verið að gera heldur er það vélbúnaðurinn sem er ekki nógu kraftmikill.

"Já, auðvitað", heyri ég ykkur hrópa, "þetta segja allir forritarar þegar kerfið gengur ekki nógu hratt".

En það er allveg satt. Sama kerfi á pésanumm mínum vinnur mjög vel, þó að allt sé á sömu vélinni (gagnagrunnur, vefþjónn, vafari, osfv). Við erum með 2 nýja servera frá Sun sem eiga að vera voða góðir en við erum búin að sanna það að þeir eru ekki nógu góðir fyrir þennan hugbúnað.

Þannig að við erum tilbúin í "go-live" en það á bara eftir að ganga frá þessu "smáatriði". Allir peningar eru búnir þannig að við verðum að bíða með "go-live" þangað til seinna, hvenær sem það verður.

Í næstu viku byrja ég á öðru verkefni. Og hvar haldiði að það sé?

Í Manchester, aftur!

Ég fer að verða þreyttur á þessari borg...

föstudagur, janúar 25, 2008

Þetta er allt að skríða saman.

Steve, málarinn okkar, er búin að vera hérna síðan á föstudaginn í síðustu viku og klárar í dag. Hann er búin að setja upp nýtt stigahandrið og mála allar hurðir og veggi í holinu niðri, stiganum, ganginum uppi og svefnherberginu okkar. Þetta lítur bara vel út.

Við erum búin að panta nýtt teppi á stigann og herbergið okkar og við erum næstum búin að ákveða hvernig við viljum gólfið í anddyrinu.

Það versta við þetta er að núna líta öll hin herbergin út eins og þau þyrftu dálítið viðhald. Það líður trúlega ekki á löngu áður en við hringjum í Steve aftur og biðjum hann að klára restina af húsinu.

föstudagur, janúar 18, 2008

Lífsmark

Ég ætla bara að láta ykkur vita að ég er ennþá á lífi - þó ekki hafi verið mikið um skriftir hér.

Jólin eru yfirstaðin og komið nýtt ár en ég hef ekki fundið tíma til að setjast að blogg-borði, og kanski ekki nennt því heldur. En allt gekk vel fyrir sig um Jólin og allir ánægðir með sitt.

Kærar þakkir fyrir gjafir, kort og kveðjur.

Það er búið að vera allt of mikið að gera í vinnunni uppá síðkastið og maður er hálfstressaður, en þessu á eftir að ljúka. Einhverntíma. Önnur fyrirtæki sem hafa verið að vinna að þessari sömu uppfærslu hafa lent í miklum erfiðleikum og við erum að reyna að læra af þeim svo við lendum ekki í því sama.

Jólaveislan hjá fyrirtækinu sem Alison er að vinna hjá var á síðustu helgi. Þeir héldu hana í byrjun nýárs, eins og þeir gera venjulega. Í þetta skiptið var þeman X-Factor og það var svona sönglaga keppni. Alison og stöllur hennar sungu frumsaminn texta við lag Cliff Richards, Summer Holiday sem var breytt í Johnsons Holiday. Það var voða gaman en þær komust þó ekki nema í 4 sæti.

Lindsey er byrjuð í sama leikhúsklúbb og Hávar er í, en í yngri hópnum. Þetta byrjaði vel hjá henni og vonandi heldur hún áfram. Hávar á marga góða vini úr þessum hóp.

Í dag kom smiður til okkar til að setja upp nýja handriðið upp stigann. Loksins! Og hann ætlar vonandi að klára að mála og svoleiðið í næstu viku. Þá er bara eftir að fá nýtt teppi á stigann og svefnherbergið okkar og Amtico flísar á gólfið í ganginum niðri.

Blogged with Flock